Hvernig bíll værir þú?

Ég var að reynsluaka bíl um daginn og datt þá allt í einu í hug að líkja honum við manneskju. Mér datt í hug nunna. Þetta var semsagt nokkuð einfaldur bíll, með gott orðspor, vinsæll án þess að að bera það utan á sér, klikkar lítið ef hann fær gott viðhald, frekar döll og með lítil karaktereinkenni. Jú, þetta var nefnilega Toyota.

image

Þessi CHR er ekkert eins og nunna - en það er eitthvað við Toyota sem minnir á þær.

Hefur þú einhverntímann pælt í því hvernig bíll þú værir? Fyrsta sem mér datt í hug er að ég væri Honda Civic. Sportlegur, snöggur og endingargóður. Það eru til Honda Civic sem eru orðnir eldgamlir en ennþá þrælsprækir.

Þá datt mér í hug að taka nokkra nafntogaða einstaklinga og líkja þeim við bíltegundir.

Ekki að hann hafi komið fyrst upp í hugann en Kristján Jóhannsson stórsöngvari er glæsilegur náungi með toppsöngrödd. Hann leynir á sér, hnyttinn og gerir grín að sjálfum sér en með alvöru undirtóni. Það sem meira er að hann ber sorgir sínar ekki á torg og giggin hans eru rándýr. Þetta á allt við um Landrover Discovery finnst mér. Já, hann Kristján Jóhannsson er soldið svona eins og Discovery held ég.

image

Discovery er myndarlegur bíll og vinsæll að auki. Hann getur hins vegar verið skeinuhættur og dýr í rekstri ef þannig liggur við.

Egill Ólafsson sé ég bara fyrir mér í hjörð Toyota Corolla bíla þar sem hann rekur þær á hús með orðunum – „Ég vil þín njóta, Toyota”. Svo er spurning hvaða Toyota bíl Ólafur Darri velur sér. Land Cruiser kæmi ekki á óvart, Black edition kannski?

image

Ný rödd sama boddý. Hér er kominn sjálfur Ólafur Darri í líki  Land Cruiser, Black edition.

image

Sjáið þið Egil Ólafs fyrir ykkur í miðjum hópnum og kallar „Ég vil þín njóta Toyota".

Svo er það herra Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti lýðveldisins. Röddin, fasið og hártoppurinn minnir helst á gullitaðan Volvo 262 árgerð 1978.

image

Hér beinlínis stendur „Herra Ólafur Ragnar Grímsson". Maður heyrir meira að segja röddina í þeim gamla þegar maður lítur á bílinn.

Þeir hefðu örugglega skemmt sér vel saman hann og David Bowie en hann á svartan svoleiðis.

Hvaða bíl finnst ykkur Katrín Jakbos forstætisráðherra líkjast? Fyrst dettur manni í hug Toyota Yaris en hún klikkar aldrei, hægt að aka henni endalaust og meira segja án mikils viðhalds. Furðuleg ending á svona litlu verkfæri. Helsta einkenni er þó hátt endursöluverð en það endurspeglar mjög vel gengi Katrínar í kosningum undanfarin kjörtímabíl – alltaf dettur stelpan inná þing.

image

Katrín er oft sportleg í útliti. Hún líka er ótrúlega þrautseig og heppin í stjórnmálum.

Ekki dettur mér í hug að líkja honum Sigmundi Davíð við nokkurn þýskan bíl, þaðan af ekki ítalskan og alls ekki sovéskan – nema þá kannski helst Volga.

image

Traustur, endingargóður, grófur, vinalegur en þarf sitt viðhald. Hér er sennilega kominn formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Hvaða bíll skyldi Dagur B. Eggertsson vera? Alveg pottþétt bensínbíll, bensínhákur, eyðsluseggur.

image

Glæsilegur bíll, mikil þægindi, lofar hins vegar meiru en hann getur staðið við. Hrikalega eyðslufrekur. Þessi bíll er Dagur B. Eggertsson.

Gæti verið Ford Expedition með V8 sem notaður væri í leiguakstur. Gæti aldrei borgað sig

Maður hefur heyrt marga tala um að Mick Jagger sé þessi náungi sem er fallega ljótur. Alveg ótrúlegt úthaldið sem þessi foli hefur. Ef hann væri bíll myndi ég ætla að hann væri framleiddur í breskri bílaverksmiðju en búið væri að taka hann í gegn mörgum sinnum á líftímanum.

image

Ferskara lúkk en sama byggingarlag.

Um daginn kom fram í fréttum að Geir Haarde hefði alls ekki átt að taka skellinn fyrir hrunið og lenda í Landsdómi. Hvað um það.

image

Geir Haarde, sami munnsvipur!

Að lokum skulum við kíkja á verkalýðsforingjann hana Sólveigu Önnu Jónsdóttir.

Hún er hörð stelpan. Vílar ekki fyrir sér verkföll og blammeringar. En hvaða bíl skyldi hún líkjast? Fiat Multipla? Ótrúlega sérstakt yfirbragð en gott með gott inn- og útstig.

image

Laglegur bíll ef þannig er horft á hann.

Látum þetta gott heita í bili. Kannski einn í viðbót. Bjarni Benediktsson hugsar vel um sig og sína og passar að farið sé eftir lögum og reglu.

image

Þetta tæki er af Caterpillar gerð og endist líklega um aldur og ævi fái það rétt viðhald.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is