Reynsluakstur: Mini Cooper SE, árgerð 2020
Umboð: BL

Hönnun, aksturseiginleikar, þráðlaust Apple Carplay
Raundrægni

Löglegt og rafmagnað Go-Kart

image

Það var árið 1959 sem að hinn upphaflegi Austin Mini kom fram á sjónarsviðið með sitt einstaka útlit sem setti sitt mark á sjöunda, áttunda og jafnvel níunda áratuginn. Hann var framleiddur í yfir fimm milljón eintökum og útlitsbreytingar hans voru litlar sem engar allan þanntíma. Núverandi MINI hefur verið á markaðnum síðan 2001 og aftur án mikilla útlitsbreytinga. Hann hefur hins vegar alltaf verið þróaður áfram og fengið að þroskast. Nú er hann kominn á sitt fyrsta rafmagnaða þroskastig.

image

Það fer ekkert á milli mála þegar þú skoðar MINI Cooper SE að hann er MINI. Sterkur fjölskyldusvipurinn sem hefur verið innblástur annarra og stærri bíla, eins og Countryman og Clubman, er sterkur og auðþekkjanlegur. Hringlaga ljósin og fallegt grillið gefa þessum einstaka smábíl frábært útlit.

image

MINI Cooper SE er sannarlega smábíll. Þegar ég sat undir stýri gat ég hæglega teygt mig í aftursætið. Ef handleggirnir mínir hefðu verið aðeins lengri hefði ég getað teygt mig í innkaupapokana í skottinu.

image

Einstakt grillið með E merki MINI fyrir hina rafmögnuðu útgáfu bílsins setur sterkan svip á gripinn litla.

Það magnaða við MINI Cooper SE er hins vegar að hann virðist vera stærri að innan en þú heldur þegar þú sérð hann fyrst. Að því leitinu til líkist hann örlítið töfratösku Mary Poppins. Þegar þú hefur sest niður í hann og sett á þig beltið, þá áttar þú þig á því að það er gífurlega langt í framrúðuna og hina hliðarrúðuna. Ég fékk tvo félaga mína til að sitja með mér í bílnum, bæði frammi í og aftur í og var fínt pláss fyrir okkur. Ekki misskilja mig samt, MINI er lítill bíll, en hann er samt „stórasti“ litli bíll sem ég hef prufað.

image

Hurðaropið á MINI er risastórt og því ekkert mál að henda sér inn og út úr tækinu.

Gott dæmi um hvernig plássið í MINI Cooper SE nýtist er í skottinu sem er ekkert minna heldur en í bensínbílnum. Það er meira að segja pláss undir flötu gólfinu til að geyma viðgerðarsett fyrir dekkin og alla rafmagnskapla sem þú þarft með bílnum.

image
image

Skotthlerinn á MINI Cooper SE opnast vel upp á við og er því ekkert mál að hlaða í skottið.

Í akstri er frábært að vera á MINI Cooper SE. Hann steinliggur á jörðinni. Svo virðist sem þyngdarlögmálið sem á við hann sé ekki það sama og á öðrum bílum. Hjólin eru höfð langt út í hverju horni. Það gefur bílnum frábæra gripfestu og er ekkert mál að halda löglegum hámarkshraða í gegnum hringtorg og krappar beygjur.

image

Dekkjunum á MINI er þrýst út í öll horn bílsins til að gefa honum betri rásfestu og auka plássið að innan.

image

MINI Cooper SE er útbúinn Type-2 hleðslutengi með möguleika á CCS hraðhleðslu. Það á að næla þér í 80% hleðslu á 33kW rafhlöðunni á um 45 mínútum.

Rafmagnsmótorinn er 184 hestöfl, 135kW og togar hann 270NM. Það þýðir á mannamáli að hann er snöggur, hraður og kraftmikill. Einn gír og hviss bamm búmm hann rýkur af stað á öllum ljósum. Hröðunin síðan á millihraða, eins og t.d. frá 30km/klst uppí 60km/klst, er hrein unun. Ekkert mál og auðveldara en að drekka vatn eða vera ósammála meirihlutanum í borginni.

image

Undir húddinu á MINI Coopr SE er að finna risastóra plasthlíf, rauðan tappa og blátt lok þar sem þú fyllir á rúðupissið. Gaman er að sjá hvernig aðalljósin lyftast ekki með vélahlífinni heldur halda áfram að vera á sínum stað.

image

Þegar að akstri lauk á MINI Cooper SE mátti ég til með að fá að taka nokkrar myndir af honum í afhendingarherbergi MINI á Íslandi við Sævarhöfða. Takið eftir öllum litlu smáatriðunum í hönnuninni. Krómlistinn efst á vélarhlífinni sem fer hringinn í kringum allan bílinn. Gulgræna hringinn á felgunum. Svona á að gera þetta.

image

Við hönnunina gleymdu hönnuðir MINI ekki að gefa þér almennilega spegla og eru þeir af stærstu gerð og hjálpa mikið við að troða sér á milli bíla í umferðinni.

image

Hönnuðir MINI Cooper SE settu meira að segja rafmagnslógoið sitt á „bensínlokið“ bara svona til að minna þig á að þetta er rafmagnsbíll ef þú ættir fleiri en einn MINI og værir að rugla þeim saman.

image

Hringlaga formið fær að njóta sín í flest öllu innandyra í MINI Cooper SE. Takið eftir stóra ljóshringnum í kringum afþreyingarkerfið sem spjallar við þig þegar þú hækkar og lækkar hitann.

Það sem eykur gæði akstursins mest af öllu er hin frábæra hönnun og samsetning innanrýmis MINI Cooper SE. Efnisval til fyrirmyndar og fullt af litlum smáatriðum sem hefur verið pælt í.

image

Takkarnir í loftinu á MINI Cooper SE eru skemmtilega hannaðir og velta fram og til baka. Einn af þeim stýrir litnum í stemningslýsingunni. Það er gaman að „fletta“ fram og til baka í litunum sem eru í boði.

image

Mælaborð MINI Cooper SE gjöriði svo vel. Vel hannað, vel sett saman og einstaklega þægilegt að sitja við.

Allir takkar MINI Cooper SE virka í báðar áttir og eru velti takkar. Ef þig langar að ýta niður til að ræsa bílinn þá gerir þú það. En ef þú ert lyfta upp týpan þá er það ekkert mál heldur. Meira að segja takkarnir fjórir fyrir ofan baksýnisspegilinn eru velti takkar. Fyrir mig sem hef gaman af tökkum, þá er þetta þess virði til að fá sér MINI Cooper SE.

image

Miðjustokkurinn í MINI Cooper SE er flott upp settur. Takið eftir hversu krúttlegt Apple Carplay-ið er á skjánum.

Besta hönnunin er hins vegar ljósahringurinn í kringum afþreyingarkerfið. Þennan hring notar MINI samsteypan til þess að tala við þig. Þegar þú hækkar hitann þá sést það á hringnum. Eykur við blásturinn úr miðstöðinni og hann verður meira hvítur allan hringinn.

image

Stafræna mælaborðið er staðalbúnaður og lesturinn á það er auðveldur og þægilegur. Fyrir framan bílstjórann er svo hægt að fá sjónlínuskjá og á honum sér maður hraða sinn og leiðbeiningarnar frá leiðsögukerfinu.

image
image

Í armpúðanum kemur þráðlaus hleðsla fyrir farsíma ásamt öflugra blátannarkerfi. Hentugt fyrir fólk á ferðinni og vantar pínu hleðslu.

Lokaorð

MINI Cooper SE mætir á götuna sem næstum því fullkomin útgáfa af hinum æðislega þriggja dyra smábíl sem MINI Cooper er. Sterkt tungumál hönnunar og arfleiðar sögu MINI skilar sér vel í þessum þétta og vel sett saman pakka. Hann er praktískur sem innanbæjar snattari og í styttri ferðir út á land. Ég mæli með MINI Cooper SE fyrir alla þá sem eru að leita sér að litlum rafmagnsbíl sem hefur útlitið svo sannarlega með sér. Taktu hann rauðan, gulan, bláan eða breskum kappaksturs grænum. Skelltu svo toppnum og speglunum í svart og passaðu að taka L útgáfuna til að fá Harman Kardon hljóðkerfið til að blasta tónlistinni.

Helstu tölur:

Verð frá 3.980.000 (Jan 2020)

Verð á sýndum bíl: 4.990.000

Afl: 184 hö, 135kW

Tog: 270NM

Hröðun 0-100: 7.3sek

Stærð rafhlöðu: 33kW

Drægni: 233km (WLTP)

L/B/H: 3.845/1.727/1.432mm

Heildarþyngd: 1.365kg

Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Classic trim
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn270 - 18433 kWh233 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. BL áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is