Reynsluakstur: Toyota Camry hybrid, árgerð 2019
Umboð: Toyota á Íslandi

Hönnun,efnisval og smíði
Ekkert Apple Carplay né Android Auto

Geggjaður Kaggi

Ég hef sagt það áður þegar ég reynsluek bíl og segi það enn og aftur, það að fólk velji sér jepplinga yfir jafn magnaða, plássmikla og þægilega fólksbíla og Toyota Camry er eitthvað sem er ofar mínum skilningi. Tala nú ekki um þegar að Camryinn mætir á svæðið með tvinnvél.

image

„Vá hvað þetta er Geggjaður Kaggi sem þú ert á,“ sagði frænka mín þegar hún sá mig á Camry. Ég lofaði henni að þetta yrði titill greinarinnar, enda er ég sammála orðum hennar.

Aksturseiginleikum Camry er erfitt að lýsa í orðum því á götum úti er hann fimur og hvikur í stýri og auðvelt að átta sig á stærð bílsins.

image

Speglar Camry eru í stærra lagi og auðvelt að átta sig á stærð bílsins með þeim.

Speglarnir á bílnum og hversu þægilegt er að sjá út um hann hjálpa mikið til við aksturinn. Allar rúður eru stórar og styrktarbitar ekki þykkir. Camry er því mjög bjartur að innan og maður nýtur sín vel undir stýri. Tvinntækni Toyota er í stöðugri framför og kemur hún mjög á óvart í Camry. Bílinn er næstum alltaf knúinn áfram á rafmagninu einu saman. Við prufu hjá mér var þessi bíll nálægt uppgefinni eyðslu upp á 4.3 l/100km, eða um einum lítra yfir það. Þú finnur ekki fyrir þessari tækni sinna sínum verkum. Þú einfaldlega gefur inn og bíllinn sér um restina.

image

Þarna má sjá ofan í vélarsal Camry. Þarna búa 218 hestöfl í 2.5 lítra vél og tvinn kerfi. Það nægir til að knýa Camry uppí 100km/klst á aðeins 8,3 sekúndum.

Smíði og samsetning til fyrirmyndar

Í mínum huga er alveg ótrúlegt hversu stöðug framleiðslan hjá Toyota er þegar kemur að innréttingum og samsetningu á bíl. Næstum hvergi að finna illa samsett plast eða eitthvað sem skröltir í og gæti losnað fyrstu tíu ár bílsins á götunni.

image

Mælaborðið í Camry er stílhreint, fallegt, með prýðisgóðu efnisvali og þægilegt í notkun.

image

Miðja mælaborðsins hýsir útvarp, stjórnkerfi og leiðsögukerfi bílsins. Takið eftir sauminum neðst hægramegin.

Efnisvalið í mælaborðinu er eftirtektavert og minnir það mann mest á dýrari bíla. Saumurinn í mælaborðinu er líka áhugaverður og að hafa sauminn í sama lit og áklæði í sætum er ánægulegt smáatriði.

image

Skottið á Camry rúmar hvorki meira né minna en 524 lítra. Ég tel það nú ansi gott.

Farangursrýmið í Camry er líka stórgott og skotthlerinn opnast vel uppávið svo það er lítil hætta á að maður sé að reka hausinn í. Hvernig maður leggur niður sætin er stórsniðugt, ef þess gerist þörf. Hönnuðir Toyota hafa sett lítinn hnúð efst í skottið sem sparar þér að þurfa að ganga að afturhurðunum.

image

Umræddur hnúður sést þarna á myndinni.

Talandi um afturhurðir, þær eru í stærra lagi. Auðvelt aðgengi og lítið mál er að troða inn stórum barnabílstól, jafnvel þó að hann sé bakvísandi af stærstu gerð. Einn galli þó á aftursætunum er að ekki er hægt að stilla höfuðpúðana. Þó svo að það sé ekki hægt gat ég hægilega komið mér vel fyrir í aftursætinu með bílstjórasætið í heppilegri akstursstöðu fyrir mig. Mér hefði liðið vel sitjandi þarna frá Tálknafirði til Bakkafjarðar.

image

Það er þægilegt að smokra sér inn og út úr Camry þökk sé hurðunum sem opnast vel uppá gátt og hafa þægileg handföng á sér.

image

Ekkert Android Auto né Apple Carplay

Nýlega náði Toyota samningi við tæknirisana í Kaliforníuríki um að hægt væri að tengja farsíma við afþreyingarkerfi bílsins, þessi tækni er samt ekki enn komin, en mun koma von bráðar. Þar til látum við okkur nægja að tengja símanna með blátannarbúnaði og er það einfalt. Best er þó að ef þú skellir þér á Luxury útfærslu, sem ég mæli með, þá er að finna akkurat á þeim stað þar sem þú hendir frá þér símanum þráðlausa hleðslu. Afþreyingarkerfið er síðan staðlað eins og í öllum Toyotum og er einfalt í notkun. Kerfið meira að segja varar þig við hraða- og rauðaljósmyndavélum.

image

Neðst í hægra horni skjásins koma allar eftirlitsmyndavélar upp og telur kerfið niður hversu margir metrar eru í næstu myndavél. Hentugt ef þú keyrir hraðar en ég.

Camry kemur með fjarlægðaskynvæddum hraðastilli og hægt er að láta kerfið takamarka hraðann sinn. Hraðamælirinn og aflmælirinn eru síðan aðskildir í miðjunni með stafrænum skjá og er þar hægt að kalla fram alls kyns upplýsingar, eins og hvað sé í gangi í útvarpinu og fleira í þeim dúr. Þar koma líka fram leiðbeiningar leiðsögukerfisins sem er einkar hentugt ef þú ert villtur í Kópavogi í hverfum sem þú vissir ekki að væru til.

image

Þarna gefur að líta mælaborð Camry. Sjáið aflmælirinn vinstra megin í staðinn fyrir hefðbundinn snúningshraðamæli.

image

Lokaorð

Eins og ég sagði í upphafi þá á ég oft á tíðum erfitt að skilja af hverju við veljum okkur jepplinga í staðinn fyrir stóra og rúmgóða fólksbíla. Er það af því að við nennum ekki að setjast niður lengur? Og þá meina ég niður í bíla. Toyota Camry færir þér samt eitthvað sem jepplingur í svipaðri stærð getur ekki fært þér jafn sterkt og það er góð akstursupplifun og ánæguleg viðvera á þjóðvegum landsins. Toyota Camry er fullbúinn bíll með afbragðs sparsamri aflrás og góðu plássi, tilbúinn til að takast á við hvað sem gæti verið krafist af honum.

Helst utölur:

Verð frá: 6.790.000 (Október 2019)

Eyðsla bl ak: 4,3 l/100 km

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
Hybrid Live Plus
Framhjóladrif2.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid221 - 218
Hybrid Luxury
Framhjóladrif2.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid221 - 218
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Toyota á Íslandi áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is