Reynsluakstur: Volkswagen Tiguan, árgerð 2019
Umboð: Hekla

Núna færðu plássið

Þegar að bílaframleiðandi eins og Volkswagen ákveður að stækka einn vinsælasta jepplinginn sinn, er ekki hægt annað en að fá að prófa.

image

Hekla bílaumboð kynnti á dögunum Volkswagen Tiguan Allspace sem er stærri útgáfa af þessum vinsæla jepplingi sem hefur selst í yfir fimm milljónum eintaka frá því að hann kom fyrst á markað árið 2007. Búið er að lengja bílinn á milli hjóla og að aftan, en framendinn er sá sami.

image

Tiguan Allspace kemur með nóg pláss fyrir alla fjölskylduna. Framsætin eru þægileg og auðvelt að koma sér vel fyrir í þeim. Aftursætin eru á sleðum svo hægt er að renna þeim fram og aftur og fella niður, annað hvort til að stækka farangursrýmið eða veita greiðan aðgang að þriðju sætaröðinni.

Myndarlegt skott

Það hljómar kannski furðulega að byrja á skottinu í umfjöllun sem þessari en þar er Tiguan Allspace á heimavelli. Allspace gæti einmitt verið þýtt sem Bara Rými og á það vel við. Þriðja sætaröðin er geymd í skotti Tiguans og þegar hún liggur niðri er auðvelt og þægilegt að hlaða farangri og frakt ofaná hana. Undir henni er varadekkið ásamt sérstöku hólfi fyrir hlífina yfir skottið. Afturhurðirnar eru stórar, opnast vel og hjálpar það enn betur í umgengni um bílinn. Þær eru líka lágar og útsýni út um gluggana mikið, sem er einstaklega gott fyrir börn.

image

Skottið opnast vel og hægt er að hafa greiðan aðgang að því. Með sætin niðri er það 760 lítrar en stækkanlegt upp í 1.920 lítra ef öll sætin eru lögð niður. Farþegar í öftustu röðinni fá samt sem áður glasahaldara og geymsluhólf ásamt því að í skottinu er 12v tengi og 230v tengi.

Endalaust geymslupláss

Um allan  bílinn er að finna lítil hólf sérstaklega hönnuð til að geyma hluti. Undir bílstjórasætunum eru skúffur, í lofti á milli bílstjóra og farþega er hólf fyrir sólgleraugu, fyrir aftan það hólf er annað fyrir sólgeraugu þeirra sem eru aftur í, ofan á mælaborðinu er einnig geymsluhólf og við vinstra hné bílstjórans er líka hólf (hvað eru mörg hólf í því?). Hanskahólfið er svo af stærri gerðinni og er hægt að láta loftkælinguna kæla það. Ömmur og afar sem fjárfesta í Tiguan Allspace geta því unnið sér inn mikla punkta hjá barnabörnum með því að bjóða uppá kaldan Svala.

image

Öll geymsluhólfin í Tiguan Allspace opnast vel og eru með mjúkri klæðningu að innan svo að það ættu engin hljóð að myndast ef hlutir hreyfast til.

Klassísk hönnun sem heillar

Útlit Tiguan Allspace er fágað og heillandi. Bíllinn sem við vorum með í prófunum tók sig sérstakelga vel út í frosnu landslaginu. Að utan eru fáar en flottar línur sem allar tengjast vel saman. Ljósahönnunin er mjög flott og LED ljósin að framan heilluðu mig mikið. Þar hjálpar til allt krómið sem á framendanum er og nær það að lýsa upp grillið og gefa því sterkan svip.

image

Framendinn sver sig vel í ættartré Volkswagen og er VW merkið flott á sínum stað.

Að innan er efnisval til fyrirmyndar, gott umhverfi, allt auðskiljanlegt og á sínum stað. Hér er ekki að finna nein hörð yfirborð og sértaklega ánægulegt er að sjá ekkert háglansandi svart yfirborð sem virðist framleiða fingraför. Stjórntæki fyrir sætishita og miðstöð er svo hægt að kveikja á í leðurhönskum og stýrishitarinn kemur með sætishita bílstjóra á sama tíma.

image

Stjórntækin í Tiguan Allspace eru einföld og þægileg í notkun. Þar má helst nefna afþreyingaskjáinn í miðju bílsins. Hann er bjartur og svarar vel öllum skipunum.. Á einhvern furðulegan hátt nemur hann hvenær þú leggur höndina að og koma þá fram valkostir, eins og að setja inn áfangastað á leiðsögukerfinu.

Þægilegur akstursbíll

Það er þægilegt að aka Tiguan Allspace. Vélin sem við höfðum til prufu var knúin áfram af díselolíu og gaf hún frá sér mikið tog og skemmtilegan kraft. Hæst ber þó að nefna tvíkúplings sjálfskiptinguna en hún var hrein unun að eiga við. Allar gírskiptingar frá henni voru mjúkar og þægilegar. Hægt er að taka yfir sjálfskiptimöguleikann og skipta sjálfur um gír en það truflar bara akstursánægjuna, svo hjá mér var hann í D. Fjórhjóladrifið skilaði líka sínu og á snæviþöktum vegum var litlum takka snúið í snjóstillingu og fannst þá ekki fyrir hálkunni. Sá takki skipar einmitt fjórhjóladrifinu fyrir um á hvernig vegum er verið að aka. Stillingarnar í boði eru fjórar: Snjór, venjuleg, möl og utanvegar. Ekki gafst mér tækifæri í frostinu þá daga sem ég var með Tiguan til að prófa þær allar nema snjóstillinguna. Hún virkaði gífurlega vel og fann maður breytingu á beitingu bílsins á aflinu til hjólanna.

image

Dísel vélin togaði vel og er vélarrými Tiguan Allspace hreinlegt og flott. Uppgefin eyðsla á honum er 5.8 lítrar á hundraði og var hann ansi nálægt því í prófunum.

Lokaorð

Það kom mér verulega á óvart hversu skemmtilegur Tiguan Allspace er. Góður í umgengni, þægilegur og ljúfur í akstri. Verðið á honum skemmir ekki fyrir  og búnaðurinn sem þú færð með. Að hafa möguleikann á þriðju sætaröðinni er líka kostur, en stærra skott er þó helsti kosturinn. Ég get mælt með Tiguan Allspace. Takið hann í R-line útgáfu í Habanero Appelsínugulum eða Dark Bronze litunum. Passið svo bara að hafa hann á góðum vetrardekkjum því þú munt treysta honum til að fara mun meira en þú heldur.

image
Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
eHybrid 180kW Life
Framhjóladrif1.4L Sjálfskipting. 6 gíra Bensín, Rafmagn400 - 24513 kWh50 km
eHybrid 180kW Elegance
Framhjóladrif1.4L Sjálfskipting. 6 gíra Bensín, Rafmagn400 - 24513 kWh50 km
4Motion 110kW Life
Fjórhjóladrif2.0L Sjálfskipting. 7 gíra Dísel360 - 150
4Motion 110kW Elegance
Fjórhjóladrif2.0L Sjálfskipting. 7 gíra Dísel360 - 150
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. HEKLA HF. áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is