Reynsluakstur: Fiat Ducato, árgerð 2021
Umboð: Ísband

Rúmgóður, lipur, aðgengi
Stutt seta í ökumannssæti

Sex dyra og níu gíra sendibíll

Sex dyra sendibíll er góður. En sex dyra sendibíll með níu gíra sjálfskiptingu er enn betri. Þannig er Fiat Ducato MultiJet2 LUX sem prófaður var. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi er kassinn sérlega langur, rúmlega fjórir metrar, en hægt er að fá styttri útfærslu.

image

Lipur opnun á hliðarhurðum.

image

Hægt að hlaða bílinn beggja vegna.

Rýmið kom undirritaðri þó í opna skjöldu, svo mikið og gott er það. Fyrsta hugsunin var að fyrsti bíllinn minn, Fiat Uno, og bræður hans hefðu komist fyrir inni í þessum Ducato. Ítölsk fjölskyldustemning.  

image

Látlaust en vandað ökumannsrými.

Ducato er framdrifinn, með 2.3 lítra dísilvél, og hleypur hann sem 140 hestar, þ.e. hann er 140 hestöfl sem er skemmtileg mælieining í ætt við vindstigin. Vonandi hættum við ekki líka að nota hestöflin þó þau séu eilítið ónækvæm mælieining, rétt eins og vindstigin. Pabbi minn heitinn, varð voðalega pirraður á mér þegar ég, um það bil 7 ára, þráspurði hann hvort viðmiðið væri íslenskur hestur, arabískur gæðingur, pinto hestur, þýskur dráttarklár eða… Já, svona tók maður nú (og tekur kannski enn) mörgu bókstaflega.  

image

„Kassinn“, er 13m3 en í þeim styttri 11,5m3.

Glögga auga gestsins

Af hverju að reynsluaka sendibíl? Þarf ekki atvinnubílstjóri að gera slíka úttekt? Þetta er spurning sem á auðvitað rétt á sér og hana fékk ég einmitt frá félaga mínum sem stundum botnar ekkert í því hvað ég er að gera.

image

Gott bil á milli afturhjóla gerir brettahleðslu þægilega.

Mín skoðun er sú að hér eigi við að „glöggt er gests augað“ og kjörið að fá sýn akstursunnenda á þennan bíl. Gaman að tala um glöggt auga þegar ég á í hlut - hef notað brillur frá 6 ára aldri og í seinni tíð linsur þegar ég reyni að vera töff.

Í það minnsta er hinn almenni ökumaður líklegur til að leigja sér bíl á borð við Ducato til að flytja búslóðina í eða jafnvel kaupa sér einn slíkan til að búa til eigin útgáfu af ferðabíl og svo mætti lengi telja.

image

Hægt er að opna hurðir alveg út og samhliða bílnum ef hlaða þarf bílinn með lyftara.

Lipur og ljúfur fram og aftur

Þetta er sem fyrr segir, býsna langur bíll. Þegar ég stóð frammi fyrir því að snúa við í þröngum botnlanga þar sem íbúar höfðu plantað bílum sínum tilviljunarkennt, já, þá hugsaði ég með mér að nú þyrfti ég að skrúfa upp í athyglinni.

image

Reynsluakstursbíllinn var búinn bakkmyndavél.

Þarf ekki að hafa mörg orð til viðbótar um að ljómandi gott er að bakka bílnum og snúa við. Hann er lipur í stýri (ef svo er hægt að komast að orði) og tilfinningin eins og maður sitji ofurhátt í meðalstórum fólksbíl. Góðir speglar gera sitt gagn og í þessari útfærslu Ducato er bakkmyndavél á meðal búnaðar. Skjárinn er fremur smár en hann virkar.

Engu ofaukið

Hönnunin í farþegarýminu er einföld og ekkert glys, prjál eða hégómi þar sem truflar. Það er gott. Enda ekki þörf fyrir krúsídúllur og skraut í bíl sem fyrst og fremst er hugsaður sem vinnutæki.

image

Ágætt pláss fyrir ökumann og farþega og sjónlína prýðileg. Seta í ökumannssæti hins vegar frekar stutt.

image

Klemmuspjald fyrir pappíra.

Það sem er í bílnum er einfalt að læra á og engu er þar ofaukið. Sætishitari er í bílstjórasæti, og hitar hann fljótt og vel. Útvarpið í LUX útgáfunni (þeirri sem hér var prófuð) er með 5” snertiskjá og leiðsögukerfi. Auðvelt er að tengja farsíma og streyma tónlist gegnum Bluetooth. Það kom á óvart að hljómburðurinn er nokkuð góður og veghljóðið tiltölulega lágt þannig að vel má hlýða á músík eða podcast í bílnum og göfga andann og efla hugann.

Vel heppnuð níu gíra skipting

Níu gíra sjálfskiptingin vinnur vel og skiptir hratt án þess að maður veiti því eftirtekt. Þetta gerist sumsé ört en þýðlega. Fínt hvernig hann skiptir sér niður brekkur þannig að bílstjóri þarf ekki sífellt að vera á bremsunni.

image

Öflug níu gíra sjálfskipting.

Svo er hægt að velja um aksturskerfi (þ.e. hvernig skiptingin vinnur): Normal, Power og ECO. Power á eflaust best við þegar ekið er með fullfermi upp Kambana eða við álíka aðstæður en þar sem ekki var ekið með neinn farm í þetta skiptið var til lítils að gera heljarinnar úttekt á þessu.

Almennt um þægindi í Ducato

Það er þægilegt að „ganga“ um bílinn og reyndar er hægt að ganga heilmikið um flutningsrýmið þegar það er tómt. En það var nú ekki það sem átt var við heldur að aðgengið er gott; ekkert príl eða fimleikar til að komast upp í bílinn þótt maður sitji voða hátt.

image

Þægilegt vinnuumhverfi.

Eitthvað er hægt að eiga við stýrið, þ.e. draga það að sér en það var nú frekar lítið sem mér tókst að toga það að mér.

image

Sætin eru úr slitsterkum efnum og takið eftir armhvílunni á ökumannssætinu.

Sætið, þ.e. setan, virkar nokkuð stutt. Sætin mættu vera þægilegri.

image

Fjöldi geymsluhólfa og glasahaldara.

Hirslur eru margar og góðar. Víða hægt að koma fyrir vatnsflöskum, kaffibollum og símum. Að ógleymdum blaðahaldara sem kemur í ljós þegar sætisbak miðjusætisins er fellt niður. Maður sér fyrir sér að þarna megi atvinnubílstjórinn dunda sér við að skipuleggja daginn á þessu fína borði sem er með klemmu fyrir blöð. Þau fara þá ekki á flakk.

Að lokum

Eyðslutölurnar eru ágætlega sannfærandi frá framleiðanda og koma heim og saman við eyðslutölurnar eftir prófunina. Í blönduðum akstri er eyðslan sögð 6.4l./100km. Eyðslan var í kringum 6.8 í bíltúrnum mínum (með tómt flutningsrými). Mengunargildið er í hærri kantinum en er þó innan EURO 6 marka.

Klipping: Dagur Jóhannsson

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
MultiJet2 Millilangur L2H2 Staðalbúnaður
Framhjóladrif2.3L Beinskipting. 6 gíra Dísel320 - 140
MultiJet2 Millilangur L2H2 Staðalbúnaður
Framhjóladrif2.3L Sjálfskipting. 9 gíra Dísel320 - 140
MultiJet2 Langur L3H2 Staðalbúnaður
Framhjóladrif2.3L Beinskipting. 6 gíra Dísel320 - 140
MultiJet2 Langur L3H2 Staðalbúnaður
Framhjóladrif2.3L Sjálfskipting. 9 gíra Dísel320 - 140
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Ís-Band áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is