Reynsluakstur: Hyundai Bayon, árgerð 2021
Umboð: BL

Hyundai Hyundai Hyundai! Þvílík veisla! Hver snilldin á eftir annarri kemur frá bílaframleiðandanum. Fyrir nokkrum vikum var blaðamaður skák og mát þegar hinn nýi Hyundai Ioniq 5 „gerði“ meira en ætlast var til af honum.

image

Hvað með Bayon? Kom hann blaðamanni á óvart? Bayon er ekki rafbíll heldur bensínknúinn bíll og vélin var það fyrsta sem kom mér á óvart. 1,0 lítra þriggja strokka bensínvél með túrbínu skilar 100 hestöflum og já, furðusprækur er hann blessaður bíllinn.

En hann hefur gott þol, ef hægt er að nota það orð. Tilfinningin er sú að í kjarna bílsins slái „hraust hjarta“ sem er langt frá því að mæðast eða taka upp á einhverjum barbabrellum.

Bayon er sjálfskiptur í þeim útgáfum sem fáanlegar eru á Íslandi, enda virðist beinskiptingin vera í bráðri útrýmingarhættu á markaði nýrra ökutækja, eins og vikið er að t.d. í þessari grein hér.

image

Fyrir okkur sem búið er að „elda“

Bayon er sá síðasti sem kynntur er til leiks í þessum stærðarflokki Hyundai (á evrópskum markaði), en hinar gerðirnar eru Kona, Tucson, Nexo og Santa Fe.

image

Maður er farinn að þjást af áfallastreituröskun eftir að voga sér að raða bílum í flokka á borð við sportjeppa, crossover, kræklinga, smælki, jeppla og snepla. Þess vegna sleppi ég því bara og kalla þetta A, B, C, D og E. Jú og svo kannski S fyrir sportbíla. Ef A er minnstur þá er E stærstur. Bayon (og Kona, Tucson, Nexo og Santa Fe) færi því í flokk C.

Allir sáttir og málið dautt? Frábært! Nú þurfum við aldrei að minnast á þetta flækjustig og karp framar. Takk takk.

Nú, lægsti punktur Bayon er nokkuð hátt frá jörðu (erfiðlega gekk að finna nákvæmar tölur), ef svo er hægt að komast að orði. Hafi maður, eins og undirrituð, farið í „eldavélina“ og þar með orðið „gamall fyrir aldur fram“ þá er það stórt atriði að setjast inn í bílinn en ekki niður í bílinn. Ekki ofan í hann, kannski ekki eins og ofan í bíl í Formúlu eitt, heldur þannig að það reyni á ballettstrengina sem búið er að klippa á. Það er atriði sem hjá mörgum hefur úrslitaáhrif; Hvernig er að setjast inn í bílinn?

image

Sest maður inn í hann?

Ofan í hann?

Upp í hann?

Ofan á hann?

Vonandi er þetta nógu skýrt. Eitt andartak fannst mér ég vera að lýsa því hvernig vatn væri á litinn…

image

Landafræðin hjá Hyundai

Fyrst mér tókst að koma eldavélinni inn í reynsluakstursgrein, og það í skringilegri samlíkingu sem enginn skildi, þá er vel við hæfi að rýna ögn í nafnið. Bayon. Þetta fannst mér ekki boða annað en garnagaul því nafnið eitt og sér myndi æra upp í mér sultinn. Tengingin við skinkuna og allt það.

En nei, ekki hugsaði ég meira um mat en gengur og gerist og gleymdi þessari tengingu áður en hún í raun komst almennilega á. Ekki frekar en maður myndi voga sér að tengja 200.000 íbúa í Parma á Ítalíu við parmaskinku eða parmesanost.  

Bayon er framleiddur fyrir Evrópumarkað og heitir hann „í höfuðið“ á borginni Bayonne í suðvesturhluta Frakklands. Af hverju? Jú, staðsetningin! Miðja vegu milli Atlantshafsins og Pýreneafjalla er borgin Bayon og þótti vel við hæfi að tengja bílinn við þá borg. Landslagið þar er kjörið til útivistar og náttúruskoðunar frá fjöru til fjalla.

image

Á síðustu tuttugu árum hefur bílaframleiðandinn sótt innblástur til hinna ýmsu staða í veröldinni þegar kemur að nöfnum. Santa Fe, Tucson, Kona og meira að segja Nexo eiga sér landfræðilega skírskotun. Sá síðastnefndi, Nexo, er í raun Nexø, á hinni dönsku eyju Bornholm. Afsakið öll: Borgundarhólm átti ég auðvitað við. Það er svo gaman þegar tegundaheiti hafa skírskotun! Enda skrifaði einhver blaðamaður um það heila grein eða jafnvel tvær.

Skipulag gott í ruglingslegum heimi

Skjátlist mér ekki er mælaborðið það sama og í hinum litríka karakter Hyundai i20, einum meðfærilegasta smábíl sem völ er á innan hins evrópska bílamarkaðar. Það er því ekki leiðum að líkjast.

Notendaviðmót er til fyrirmyndar og engin þörf á að sækja einhver námskeið til að læra á helsta búnað bílsins. Hinn almenni kaupandi ætti að geta, á tiltölulega skömmum tíma, nýtt sér fjölmarga „snjallkosti“ nútímabílsins Bayon.

Má þar til dæmis nefna (miðað er við ódýrari útfærslu bílsins, Comfort) snjallsímatengingu fyrir Apple CarPlay og Android Auto (já, það fer nú alveg að detta í það að óþarft sé að taka slíkt fram), þannig að sími og bíll mala saman þráðlaust eins og bestu vinir til margra ára. Þráðlaus farsímahleðsla er í bílnum og aldeilis nóg af USB-tenglum og hirslurnar eru til mikils sóma. Nánst eins og hirslusérfræðingur frá IKEA hafi leikið lausum hala í bílnum með fínasta árangri. Ekki veitir af öllum hólfunum í annars ruglingslegri veröld.

image

Það er að mati undirritaðrar kostur að miðstöðin sé „sjálfstæð“ eining, þ.e. Ekki hluti af stjórnborði/skjá sem maður þarf að pota í til að fá túðurnar til að blása. Bara svona takkar. Venjulegt sem virkar.

Ég yrði ekki hissa þótt einn daginn myndi maður stilla miðstöðina með augnaráðinu einu saman… Miðstöðina ætti að vera hægt að stilla nánast blindandi. Það er í það minnsta óspennandi að þurfa að stöðva bílinn, setja á sig gleraugun og taka út úr sér tyggjóið til þess eins að stilla hitastigið. Þetta má endilega vera einfalt.

Blessað hjólreiðafólkið og aðrir

Öryggisbúnaðurinn sýnir að hönnuðum bílsins er t.d. frekar annt um hjólreiðamenn þó að þeir séu ekki endilega markhópurinn. Það er að segja þá er bíllinn með ótal skynjara sem taka við sér ef gangandi eða hjólandi vegfarandi er skyndilega skuggalega nálægt bílnum. Já eða náttúrulega annar bíll. Ekki nóg með að skynjararnir taki við sér heldur grípa þeir til sinna ráða ef ökumaður er seinn að hugsa.

Það kom mér því í opna skjöldu þegar bíllinn fékk fjórar stjörnur af fimm í öryggisprófunum Euro NCAP fyrir nokkrum vikum.

Sá búnaður sem er í bílnum virkar eins og best verður á kosið og ekkert út á hann að setja. Hins vegar er það til lækkunnar á einkunn að einhver tiltekinn búnaður sé ekki til staðar eða ekki fáanlegur í tiltekinni gerð af bíl.

Hér, í þessu tilviki var það öryggispúði fyrir hnjásvæði bæði fram í bíl og aftur í honum sem og öryggispúði í miðju (sem myndi blása upp þegar ekið væri á bílinn aftanverðan). Þennan búnað vantar og hvort framleiðandinn hafi í hyggju að bæta honum við í Bayon eða ekki, hef ég ekkert lesið um. En ég fylgist auðvitað með og mun skrifa um breytingar sem á þessu kunna að verða.

Það er fleira í skýrslunni sem dró hann niður í einkunn en um það má lesa í skýrslunni sjálfri. Eftir sem áður er Hyundai Bayon í flokki öruggusti bíla í flokkun Euro NCAP, bæði innan stærðarflokks sem og flokki fjölskyldubíla.

Hvað þýða fjórar stjörnur? Skilgreiningin er þessi:

Að lokum

Í heildina litið er Bayon afar rúmgóður bíll sem auðvelt er að „ganga um“ ef svo má segja. Þá á ég við að aðgengi er ljómandi gott. Ekkert brölt og kjörinn fyrir þá sem vilja sitja hátt í góðu sæti án þess að fara í eitthvert jeppildi. Farangursrýmið er 411 L/1205 L (þ.e. með aftursæti uppi/niðri) og það er rúmlega hellingur.

image
Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
Comfort
Framhjóladrif1.0L Sjálfskipting Bensín172 - 100
Style
Framhjóladrif1.0L Sjálfskipting Bensín172 - 100
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. BL áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is