Ekkert prjál, engir stælar

Reynsluakstur: Honda HR-V, árgerð 2022
Umboð: Honda á Íslandi

Lipur, hagkvæmur og vel búinn
Margmiðlunarskjár, veghljóð

Það var smá spenna í gangi að fá í hendur nýjan Honda HR-V frá Öskju á dögunum. Honda hefur ávallt verið í sérstöðu að okkar mati og býr til skemmtilega og oft aðeins öðruvísi bíla á japanska vísu.

image

Honda HR-V er ansi laglegur bíll.

Þessi nýi HR-V er engin undantekning, hann er skemmtilegur í akstri og það er pínu eins og maður sé að fara aftur til fortíðar því maður finnur vel fyrir hefðbundnum eiginleikum bílsins enda bíll með brunavél frammí ásamt reyndar tveimur rafmótorum.

Að því sögðu erum við að tala um bíl sem er talsvert framþungur og þyngdarpunkturinn því allt annar en í 100% rafbíl. Honda HR-V vegur samt ekki nema um 1380 kg.

Sportjeppalegt útlit

Ef horft er á bílinn tekur maður strax eftir hversu hár hann er á vegi. Hæðin undir lægsta punkt er þó ekki nema um 19 sm. Þess má geta að Ford Focus Active er með 20 sm. undir lægsta punkt.

Lagið á bílnum er nokkuð fyrir augað enda virðist SUV, krossover, sportjeppa coupe lúkkið vera það sem margir bílaframleiðendur eru að festa sig í um þessar mundir.

image

Fallegar felgur setja sterkan svip á bílinn.

image

Minnir óneitanlega á nýjustu bílana í dag.

Nýjustu dæmin þar um eru Volco C40, Polestar 2 og VW ID.5 en einnig er Skoda Enyaq á leiðinni með svoleiðis útlit líka.

Vel búin grunntýpa

Honda HR-V kemur í þremur útgáfum, Elegance, Advance og Advance Style. Það verður að segjast að grunntýpan er mjög vel búin. Bókstaflega með öllu stöffinu sem kaupa þarf aukalega í dýrari gerðum bíla á markaðnum.

Allt þetta fæst með kaupum á grunntýpunni, Elegance.

image

Sætin eru sérlega þægileg og halda ágætlega við.

image

Hér er nægt fótapláss.

image

Engir stælar, ekkert prjál.

Að auki í Advance bílnum ertu að fá hluti eins og upphitað svæði undir rúðuþurrkum, auka USB tengi og rafstýrða opnun á afturhlera. Það helsta sem okkur fannst skipta máli við að fara úr Advance í Advance Style er að þá er kominn þráðlaus símahleðsla í bílinn.

Svipað verð á samkeppnisbílum

Verð bílsins er á pari við samkeppnina. Nýr Honda HR-V Elegance kostar 5.390.000 kr. og Advance Plus bíllinn er á 6.190.000 kr.

image

Honda HR-V situr hátt á vegi og auðvelt er að ganga um bíllinn.

Rafmagn og bensín

Honda HR-V er búinn sömu vélartækni og litli bróðir hans Honda Jazz. Um er að ræða full-hybrid tækni sem samanstendur af 1.5 lítra bensínvél og tveimur rafmótorum sem saman gefa um 131 hestafl.

Í bílnum er CVT skipting sem sér um að óskað afl berist út til hjólanna á sem skilvirkastan máta.

Skiptingin virkar mjög vel þegar vélbúnaðurinn er á lágum snúningi en verður svo frekar hávær ef gefa á snöggt í. Uppgefin eyðsla er um 5.4 lítrar á 100 km. og kolefnissporið um 122 gr/km.

image

Magic seat kerfið er sér fyrirbrigði frá Honda sem eykur flutningsgetu til muna.

image

Farangursrýmið er í minni kantinum.

image

Afurhleri opnast vel og á þessum bíl er hann með rafdrifinni opnun og lokun.

Að öllu öfangreindu sögðu er Honda HR-V nokkuð góður kostur fyrir þá sem vilja öruggan, hagkvæman og þægilegan bíl. Mjög gott er að umgangast bílinn, sætisstaða er fín og gott pláss í aftursæti.

Þægilegur í akstri

Sætin eru þægileg, fyrst of fremst bara nokkuð mjúk, halda ágætlega við bakið og láta mann bara alveg í friði við aksturinn. Ekkert prjál, engir stælar. Höfuðplássið afturí er í minni kantinum, maður rekur höfuðið upp undir sitji maður alveg teinréttur í sætinu.

Þetta kemur nú varla að sök því undirritaðir eru hávaxnir en ætla má að oftast séu þetta sæti fyrir börn og unglinga.

image

Góð aftursæti eru með setum sem ná vel undir fætur á hávöxnum einstaklingi.

Bíllinn er léttur og múkur í akstri. Stýrið er talsvert létt og að okkar mati mjög þægilegt. Þú finnur lítið sem ekkert fyrir ójöfnum á gatslitnum borgargötum eftir veturinn – allavega teljum við að fjöðrun bílsins sé ansi góð.

Þyngd bílsins er mest frammí og þessvegna er hann bara eins og venjulegur framdrifinn bíll að aka í beygjum.

Hann leggst frekar lítið í beygjurnar. Ef hringtorg er tekið á ferðinni undirstýrir bíllinn örlítið þ.e. leitar inn í beygjuna – en það finnst oft í bílum svipað byggðum og Hondan, hátt boddý með mestu þyngd að framan.

image

Takið eftir sílsahlífinni neðan á hurðinni. Heldur síls hreinum að mestu.

image

Hentar breiðum hópi

Við teljum að Honda HR-V sé vel heppnaður borgarbíll sem gæti hvort sem er hentað sem fínn fjölskyldubíll eða annar bíll á heimili. Sparneytinn, lipur og hagkvæmur með lítið kolefnisspor og ekki spillir nýtískulegt útlit bílsins.

image

Hurðaropnun að aftan fellur inn í hönnun bílsins.

image

Hér eru 18.5 sm. undir lægsta punkt.

Helstu tölur:

Verð frá : 5.390.000 kr.

Hestöfl: 131 hö.

Drif: Framdrif.

Vél: 1.500 rms.

Tog: 253 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 5.4 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.380 kg.

L/B/H 4.340/1.790/1.582 mm.

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
Hybrid ELEGANCE
Framhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid253 - 131
Hybrid ADVANCE
Framhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid253 - 131
Hybrid ADVANCE STYLE
Framhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid253 - 131
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Askja áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is