Reynsluakstur: Seres 3, árgerð 2022
Umboð: RAG

Akstursþægindi, vel hljóðeinangraður
Armur með hraðastilli bakvið stýri, verð

Sportlegur nýliði í flokki rafbíla

Þeim fjölgar jafnt og þétt nýju rafbílunum á markaðinum. Nú hefur einn enn bæst í hópinn en það er splunkunýr Seres 3 frá RAG umboðinu í Hafnarfirði.

Bíllinn var kynntur til leiks nú í sumar og fyrsta sendingin hefur nú verið afgreidd og beðið eftir næstu.

image

Bíllinn er laglegur og það eru skemmtilegar línur í honum.

Laglegur bíll

Hinn nýi Seres 3 kemur frá Kína eins og svo margir nýir rafbílar. Bíllinn á hins vegar rætur sínar að rekja til Kaliforníu í Bandaríkjunum en hugmyndin að bílnum varð til í litlu sprotafyrirtæki í Kísildal (Silicon Valley).

Það eru heldur engir aukvisar sem koma að hugmynda- og stjórnunarvinnu varðandi bílinn en Martin Eberhart, einn af stofnendum Tesla, er tæknilegur stjórnandi hjá bílafyrirtækinu sem framleiðir Seres 3. Hans sérsvið er þróun rafhlaða.

image

Blái liturinn táknar að sjálfsögðu rafmagn.

image

Seres 3 kemur á fallegum 18 tommu felgum.

image

Afturendinn er ekki ólíkur nýjustu rafbílum á markaðnum.

Drægni í  meðallagi

Seres 3 fellur undir flokk fólksbíla í krossover flokki – gætum ef til vill kallað hann krossling. Framdrifinn bíll með einum rafmótor sem gefur um 163 hestöfl og togar 300 Nm. Það þýðir að bíllinn talsvert skemmtilegur í akstri og aflið er nægt.

Rafhlaðan tekur um 52 kWst. og það tekur um 45 mínútur eða svo að hlaða bílinn í hraðhleðslustöð sem gefur allt að 50 kW á klukkustund.

image

Gott aðgengi er bæði um fram- og afturdyr.

image

Í heimahleðslustöð getur Seres 3 tekið við allt að 6.6 kW á klukkustund.

Það er örlítið minna en gengur og gerist á nýjustu rafbílunum en kemur kannski ekki að sök því margir rafbílaeigendur hafa möguleika á að hlaða bílana heima á nóttunni. Uppgefin drægni samkvæmt WLTP staðlinum er um 420 kílómetrar.

image

Farangursrýmið er gefið upp 520 lítrar - ég leyfi mér að efast um að sú mæling sé alveg rétt.

Hefðbundið útlit

Í reynsluakstrinum ókum við bílnum um Suðurnesin. Í þeim túr var rafmagnsnotkunin um 22 kWst. á hverja 100 kílómetra.

image

Glæsilegur búnaðar - á bílnum er m.a. sólþak.

Línan í bílnum er snotur og ekki var liturinn síðri, eldrauður með sanseringu en hægt er að fá bílinn í mörgum fallegum litum.

image

Framsætin eru rafdrifin bæði hjá ökumanni og farþega.

Nýjasta tækni og vísindi

Mælaborð er stílhreint en það samanstendur af tveimur rúmlega 10 tommu skjám. Efnisval er svipað og í samkeppnisbílum á markaðnum, pleður sem samanstendur af endurvinnanlegum gerviefnum.

Sætin eru þokkaleg, sérstaklega bök framsætanna en setur mættu vera lengri og halda betur við læri.

Einnig væri gott ef hægt væri að færa sætin aftar. Við strákarnir erum báðir hávaxnir og hefðum ef til vill þurft örlítið meira fótapláss.  

image

Hér vantar ekkert upp á klassann.

image

Armurinn fyrir hraðastilli sést ekki í akstri. Það er pínu óþægilegt - en auðvitað lærir eigandinn fljótt hvernig hann virkar.

Ekkert Android Auto eða Apple Carplay

Það skiptir litlu að ekkert Android Auto eða Apple Carplay er í þessum bíl því nálgast má allt í snjallsímanum með því að spegla hann á skjá bílsins eða nota blátannarbúnað.

image

Flott ljósahönnun.

image

Í mælaborðinu eru takkar til að stjórna ýmsu - þar á meðal miðstöðinni.

image

Ágætt pláss aftur í fyrir 2 fullorðna.

Seres 3 er þægilegur í akstri og eftirtektarvert er hversu lítið veg-, og vindhljóð kemur inn í bílinn. Fjöðrun er passleg og stýri nokkuð nákvæmt og ekki of létt.

image

Um 18 sm. undir lægsta punkt.

Sumt er öðruvísi

Þó er galli að hraðastillistöngin (cruise control) sjáist ekki á bakvið stýrið í akstri. Hægt er að velja um þrjár akstursstillingar, sport, eco og normal og notar bíllinn mismikla orku við hverja stillingu.

Hægt er að stilla orkuendurheimt í gegnum skjá en ekki til dæmis með stýrisflipum eða takka í mælaborði.

image

Hvar í samkeppninni?

Ef við berum Seres 3 aðeins saman við samkeppnisbílana má nefna til dæmis samlanda hans Aiways 5 en sá bíll er aðeins stærri, með stærra farangursrými ásamt því að vera búinn skynvæddum hraðastilli og akreinastýringu.

Verðið á Seres 3 er um 5.900.000 kr. en Aiways 5 er á um 5.700.000 kr.

Dráttargeta Aiways eru um 1.500 kg. en hún er um 750 kg. á Seres 3 og um 1.200 kg. ef bremsur eru á tengivagni.

image

Blár saumur í mælaborði enda rafmagnsbíll.

Fjölhæfur og hentar mörgum

Seres 3 bíllinn ætti að henta fjölbreyttum hópi kaupenda. Hann er fallegur, hljóðlátur og þægilegur í akstri. Það eru 18 sentimetrar undir lægsta punkt og áætlað er að bíllinn komi í fjórhjóladrifsútgáfu á næsta ári.

image

Verðið kemur dálítið á óvart þar sem Seres 3 bíllinn er nýr á markaðnum en það er á pari við þekktari bílamerki á markaðnum sem hafa náð góðri fótfestu með þjónustu og gæðum.

Helstu tölur:

Verð 5.900.000 kr.

Rafhlaða: 66 kWh.

Dráttargeta: 750 kg. án bremsubúnaðar/1200 kg. með bremsubúnaði

Hæð undir lægsta punkt: 18 sm.

Drægni: 420km.

0-100 km á klst.: 8,9 sek.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 1.750kg.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is