Reynsluakstur: VW ID.Buzz, árgerð 2023
Umboð: Hekla

Mikið pláss, lipur í akstri lítill snúningshringur
Ekki nógu þægilegt miðjusæti aftur í, mættu vera handgrip aftan á framsætum

Gamla góða „rúgbrauðið“ gengur í endurnýjun lífdaga

Við höfum fjallað öðru hvoru um nýjasta rafbílinn frá VW, ID.Buzz, sem er arftaki gamla góða „rúgbrauðsins“. Alrafmagnaður bíll með sterka tilvísun í gamla tímann, en hlaðinn nýjustu tækni.

„Rúgbrauðið“ kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1950, sem Volkswagen Type 2, með tilvísun í að þetta var annar bíll VW á eftir upphaflegu „bjöllunni“.

Bíllinn gekk síðan í gegnum mikla endurnýjun og kom alls í 6 útgáfum; síðast sem T6 árið 2015.

image

Rafdrif, lipurð og mikið pláss fyrir ævintýri lífsins: Nýi ID.Buzz er „rúgbrauð“ framtíðarinnar.

VW hafði komið sér fyrir í ráðstefnumiðstöð í útjaðri Kaupmannahafnar og þar fengum við mjög góða og yfirgripsmikla kynningu á bílum af hálfu sérfræðinga VW. Þar lögðu þeir áherslu á eftirfarandi atriði:

    • Kynningin á ID. Buzz og ID. Buzz Cargo markar komu á fyrsta framboði alrafmagnaðs fjölnotabíls og sendibíls í Evrópu
    • Pláss til að njóta: D. Buzz býður upp á pláss fyrir fimm manns og pláss fyrir allan farangur þeirra fyrir ferðalög, íþróttir og daglegt líf
    • Pláss til að vinna: Nýi ID.Buzz Cargo er einn af sjálfbærustu sendibílunum – öflugur, hátæknilegur vinnubíll
    • Gagnvirk ökumannsaðstoðarkerfi: Aðstoð í akstri með nýjum gagnanýtingu kvikgagna („swarm data“) er hluti af leið til sjálfvirks aksturs
    • Akstur í langferð með allt að 425 km drægni án CO₂, auðvelt að hlaða með „Plug & Charge“, og auðvelt að samræma með rafrænum leiðaráætlun

image
image

Koma á markað í haust og vetur

Talsmenn VW lögðu áherslu á að með komu ID.Buzz væri að hefjast nýtt tímabil hjá Volkswagen, þar sem þeir hafa þegar hafið sölu í Evrópu og verða fyrstu bílarnir afhentir eigendum þeirra í haust og vetur.

Drægni allt að 425 km, og hægt að endurhlaða á hraðhleðslustöð á um 30 mínútum.

ID.Buzz – framúrstefnubíll fyrir fjölskyldur, virkt fólk og fyrirtæki. Jafnvel sem hugmyndabíll var hann þegar orðinn magnaður og núna er framleiðsluútgáfa af ID.Buzz er að koma á göturnar.

Reynsluakstursbílar munu vera væntanlegir til Íslands í vetrarbyrjun og fyrstu bílar gætu hugsanlega komið til afgreiðslu í loks árs, eða byrjun þess næsta.

ID.Buzz er eiginlegga með alla eiginleika „fjölnotaverkfæris“. Útlitið er byggt á einni farsælustu hönnun sem til er. Stíllinn er táknrænt skýr og álíka kraftmikill og hann er vinalegur. Yfirbyggingin státar af loftaflfræðilegri hönnun með litla loftmótsstöðu (cd 0,29), nokkuð sem kemur fram í aksturseiginleikum. Rafmótorinn er sem svarar 204 hestöfl (150 kW) og er með hámarkstog 310 Nm sem svarar samstundis. Niðurstaðan eru mjög skilvirk viðbrögð.

Þyngdinni er dreift miðlægt í ökutækinu og tryggir þannig hlutlausa meðhöndlun.

Og það kemur verulega á óvart hve snúningshringurinn er lítill, aðeins 11,1 metri. Allt þetta gerir ID. Buzz að vel heppnuðum bíl fyrir innanbæjarakstur.

image

Góð drægni og hraðvirk hleðsla

Hleðsla sem notar allt að 170 kW. Í samsettri lotu WLTP staðalsins er akstursdrægni ID. Buzz allt að 423 km; en sem sendibíll, ID. Buzz Cargo er drægnin allt að 425 km.

Hægt er að hlaða rafhlöðuna heima, í vinnunni eða á almennum AC hleðslustöðum með 11 kW hleðslu. Á DC hraðhleðslustöðvum fer hleðslan upp í allt að 170 kW. Með því að nota það afl er hleðslu lokið á 30 mínútum (frá 5 til 80 prósent).

Það er líka mögulegt á samhæfum DC hraðhleðslustöðvum að hlaða þessar tvær gerðir með „Plug & Charge“; þeir hafa síðan samband við stöðina í gegnum hleðslutengið – virkjun og innheimta ganga sjálfkrafa, án þess að þurfa hleðslukort eða öpp.

Nýjustu aðstoðarkerfi og hugbúnaður fyrir ökumenn

Ný ökumannsaðstoðarkerfi, eins og ferðaaðstoð með gagnanýtingu og aðstoð við akreinaskipti, eru fáanleg ef óskað er. Einnig nýtt: Park Assist Plus með minnisaðgerð til að keyra sjálfvirkt inn í bílskúrinn heima, bílageymslu eða rými á fyrirtækisbílastæði.

Mörg ökumannsaðstoðarkerfi eru innifalin sem staðalbúnaður, svo sem Car2X (varar við hættum í næsta nágrenni) og Front Assist sem varar við gangandi og hjólandi umferð (Autonomous Emergency Braking).

Einn af tæknimönnum VW tók okkur í „sýnikennslu“ og lét okkur aka bílnum og leggja honum í stæði. Í framhaldinu var ekið í dágóðan hring og aftur áleiðis að „stæðinu“ – og þá lét hann bílinn aka sjálfan í „stæðið“ og það gerði hann með sóma án þess að nokkru snerti stýri, inngjöf eða bremsur!

ID. Buzz stýrieiningar fara einnig frá verksmiðjunni með nýjasta Volkswagen hugbúnaðinum. Það er ID. hugbúnaðarútgáfa 3.2.

Þegar nauðsyn krefur er það einfaldlega uppfært í þráðlaust og þar með án þess að fara á verkstæðið.

Miklir möguleikar til að ná til nýrra markhópa

Samkvæmt því sem VW segir eykur ID. Buzz gildi rafbíla með því að bæta við nýjum þætti. Eða eins og Carsten Intra, forstjóri stjórnar Volkswagen atvinnubílamerkisins segir: „Enginn annar bílaframleiðandi er með sambærilegan alrafmagnaðan fjölnotabíl og sendiferðabíl í sínu framboði. Framúrstefnutækni og hönnunarhugmynd ID. Buzz og ID. Buzz Cargo er einstakt á heimsvísu.

Módellínan hefur því mikla möguleika til að ná til nýrra nýja markhópa.

Meira um það frá Thomas Schäfer, stjórnarmanni í Volkswagen AG og yfirmanns High-Volume Brand Group: „ID. Buzz höfðar til alls kyns mismunandi viðskiptavina – fjölskyldna, fólks sem þarf mikið pláss fyrir áhugamálið sitt, auk fyrirtækjaeigenda og handverksfólks.

image

Langt hjólahaf

Með 4.712 mm heildarlengd eru báðar útgáfur af ID. Buzz módel af sömu lengd. Hjólhafið er líka langt, 2.989 mm. Bilið á milli öxla er nýtt sem best.

image

ID. Buzz er fimm sæta

Sem fjölnotabíll er ID. Buzz rúmgóður og sniðinn að frítíma og sem og til nota fyrir fyrirtæki. Ökumaður og farþegi í framsæti sitja í stökum sætum sem eru staðalbúnaður með stillanlegum armpúðum.

ID. Buzz Cargo sem sendibíll

Með ID. Buzz Cargo, er verið að markaðsetja einn nútímalegasta sendibíl nokkurs staðar í heiminum, segir VW.

Hann er í boði í staðalútgáfu með þremur sætum í stýrishúsinu: ökumannssæti auk tvöföldu bekkjarsætis.

Ef þess er óskað er einnig hægt að fá eitt sæti fyrir farþega í framsæti. Á bak við sætin kemur fast skilrúm sem aðskilur farmrýmið.

Farmrýmið er 3.900 lítrar og er með pláss fyrir tvö evrubretti. ID. Buzz Cargo er með breiðum opnanlegum afturhlera og rennihurð farþegamegin.

Sendibíllinn er einnig fáanlegur með aukarennihurð ökumannsmegin og með vængjahurðum að aftan fyrir þá sem þess óska.

Smíðaðir í Þýskalandi

Nýju ID. Buzz og ID, Buzz Cargo ásamt nýjum Multivan sem kynntur var árið 2021 (kallaður T7 og fáanlegur sem tengiltvinnbíll) og T6.1 (þar á meðal sem Transporter, Caravelle og California), í þýsku verksmiðjunni í Hannover, höfuðstöðvum Volkswagen atvinnubíla.

Og þá er það reynsluaksturinn: Ótrúlega lipur í akstri

Og nú er röðin komin að reynsluakstrinum sjálfum. Með því að velja þessa staðsetningu á reynsluakstri gafst tækifæri til þess að reyna bílinn í mjög svo blönduðu umhverfi.

Jafnt í akstri á sveitavegum og til nágrannabæja Kaupmannahafnar, auk þess að spretta úr spori yfir Eyrarsundsbrúna til Svíþjóðar.

image

Strax og sest er undir stýri kemur í ljós hve mikil alúð hefur verið lögð í það að gera vinnuaðstöðu ökumanns sem besta. Líkt og þegar var komið í nýjustu gerður Caravelle og Transporter eru stólar framsæta með stillanlegum armpúðum, sem nýtast vel í akstri á lengri leiðum.

Í anda gamla rúgbrauðsins sitja ökumaður og farþegi í framsæti nálægt risastórri framrúðu með víðsýnni, sem er afleiðing af því að draga hjólin út í hvert af fjórum hornum ökutækisins, með mjög lítið yfirhang, en við höfðum það á orði félagarnir sem deildum þessum bíl í reynsluakstrinum að enginn okkar var tilbúinn að hreinsa framrúðuna að innanverðu, því það myndi kalla á talsverða „leikfimi“.

Það tók mig smástund að ná „sambandi“ við framhornin á bílnum, sem kom vel í ljós þegar ég var að troða honum inn í þröngt bílastæði við dómkirkjuna á Hróarskeldu, en þetta vandist fljótt.

image

Fingurlétt stýri

Eitt af því sem kom mest á óvart í þessum reynsluakstri er hve bíllinn er „léttur“ í stýri. Í raun er nóg að styðja fingri á stýrishjólið og snúa því, og ellefu metra snúningshringur er frábær á þetta löngum bíl.

image

Hér sést hvernig „miðjusætið“ er öðruvísi en hliðarsætin, og bæði sætið og bakið veita minni stuðning í akstri en hliðarsætin.

Ekki nógu þægilegt miðjusæti

Eitt af því örfáa sem hægt er að finna að þessum fjölnotabíl er að mínu mati að „miðjusætið“ í aftursætinu er ekki nógu þægilegt.

Þetta er eflaust miklu minna „vandamál“ ef þrír fullorðnir sitja í aftursætinu, því þá veita þeir hver öðrum stuðning.

image

Það var ekið heldur létt á Eyrarsundsbrúnni, eins og sést á hraðamælinum sem sýndi 124 km/klst akkúrat þegar myndin var tekin nálægt miðju brúarinnar.

Miklu meira en nóg afl

Líkt og í öðrum rafbílum í dag, þá er viðbragðið í ID.Buzz mikið, í raun meira en nóg. Þetta var líka hægt að prófa í akstrinum Svíþjóðarmegin við Eyrarsundið þar sem hámarksharði var 120 km/klst og það tók ekki nema örskotsstund að auka hraðann úr 60 km í 120 km (kannski aðeins meira).

Það tók líka smá stund að fá tilfinningu fyrir inngjöfinni, en það er líka bráðgaman að finna hve viðbragðið getur verið snöggt.

image

Og leiðsögutækið sýndi okkur vel að við höfðum ekið „yfir hafið“.

Eins og sérhannaður fyrir leigubifreiðastjóra

Við vorum allir sammála um að þetta er bíll sem er eins og „sérhannaður“ fyrir leigubifreiðastjóra. Nóg pláss, ágæt sæti (að miðjusætinu frátöldu) og mikið pláss fyrir farangur. Sniðinn fyrir flutning á fólki í Leifsstöð!

Hugmynd að ferðabíl

VW hefur í áranna rás verið þekkt fyrir „ferðabíla“ byggða á þessum bílum. Þar er flottust svonefnd „California-gerð“ sem er með innréttingu og lyftanlegu þaki.

image

Hér er horft inn í „svefnrýmið“

image

Og hér má sjá haganlega eldarvélareiningu sem er dregin út úr innréttinguni og til hliðar er geymslupláss fyrir annað dót, vatnsgeymi og vask.

Kostar sitt en er vel þess virði

En hvað kostar svona bíll? Að því að fram kom hjá talsmönnum Heklu má reikna með að bíllinn muni kosta frá kr. 8.490.000, sem er vissulega dágóð upphæð, en kaupendur fá líka fullt fyrir sína peninga. Þetta er bíll sem er rúmgóður, með svo dæmi sé tekið rafdrifnar hliðarhurðir, og aftuhurð, sem lokast með einni fingursnertingu, innréttingar eru að mestu leyti úr umhverfisvænum efnum.

image

ID.Buzz – nokkrar tölur

Rafmótor: Samstilltur mótor með varanlegum seglum tengdur við afturás

image

Ljósmyndir: JReykdal og RH Heklu

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is