Hvaða bíl áttir þú um tvítugt?

Ég var um tvítugt á níunda áratugnum. Frá 1980 til 1995 voru það smábílar með einhvers konar GTI merkingum sem gripu athyglina.

Oftast voru þetta sömu boddýin og grunngerðir en með stærri og öflugri vélum, stærri felgum og smá plasti sem sett var í formi vindskeiða, spoilera og filmu í rúðum.

image

Mazda RX-7. Það var eiginlega nákvæmlega eins bíll og þessi sem vinur minn og skólafélagi átti árið 1986.

Mig langaði í þennan og þennan og þennan

Hvern langaði ekki að eignast skínandi glansandi fallegan sportbíl á sínum yngri árum – og langar kannski enn. En ekki er öll bíladellan eins.

Ellilífeyrisþegi á sportbíl

Einu sinni var ég staddur í fermingarveislu þegar Diddi frændi kom á staðinn. Maður um sjötugt, fitt og flottur í tauinu, alltaf með slaufu. Hann átti græna Mözdu RX-7. Um leið og Diddi fór í brauðterturnar heyrði ég heldri frúrnar tala um kallinn væri nú genginn í barndóm, æki um að grænum sportbíl og ætti vinkonu sem enn væri að vinna úti.

Þetta er nú ekkert annað en einhver grár fiðringur í kallinum sögðu þær.

image

Mazda RX-7. Diddi frændi átti einn grænan.

Hrífst af flottum bílum

Talandi um sjálfan mig þá skiptir mig ekki máli hvort bíllinn er af DL, GL, Delux, GT, GTI Turbo gerð. Oft og tíðum eru grunntýpurnar laglegri en þegar búið er að troða plasti, lakkrísdekkjum og einhverju öðru skrauti á bílinn.

En að sjálfsögðu féll ég kylliflatur fyrir nokkrum bíltegundum og gerðum þeirra á níunda áratugnum.

Bíladella úr föðurhúsum

Sumir fara á völlinn, í veiði eða golf. Við faðir minn fórum nánast á hverjum sunnudegi á bílasýningar. Líkt og í dag var opið í umboðunum um helgar og áttum við „quality time“ saman á þessum sýniningum, ræddum um bíla, skoðuðum, bárum saman og oftar en ekki keypti gamli sér bíl. Eitt sinn í svona bíltúr komum við heim á nýjum hvítum Nissan Sunny SR árgerð 1992 minnir mig og lögðum fyrir framan bílskúrinn.

Eftir einhvern tíma lítur móðir mín út um gluggann og spyr hver eigi þennan hvíta bíl í innkeyrslunni. Svona var þetta nú í gamla daga, verkaskiptingin í fjárfestingum var algjör.

image

Benz sýning í KR skálanum 1954. Mynd úr safni Ræsis.

Mig langaði í þessa

Í byrjun var það ég sem hvatti fjölskyldumeðlimi til að kíkja á þennan eða hinn bílinn. Ég man að mig langaði rosalega til að pabbi festi kaup á Ford Maverick í kringum 1977.

Það tókst reyndar ekki að selja honum þá hugmynd – en mér tókst að tala hann til í kaup á AMC Concord ári seinna.

Mazda RX-7

Maður nánast kiknaði í hnjáliðunum að sjá þennan. Hljóðið í honum og lúkkið gerði það að verkum að mann verkjaði af löngun í svona farskjóta.

Vinur minn eignaðist svona bíl þegar við vorum í Verslunarskólanum og var ákaflega gaman að kíkja í bíltúr á þessum. Þetta var Mazda RX-7

Og þeir minnkuðu

Um 1979 kom Honda með Prelude. Sá bíll var nú ekkert smá flottur. Lítill sportari sem flesta af yngri kynslóðinni langaði í. Vinur minn átti svona bíl og sagðist sjaldan hafa átt skemmtilegri akstursbíl.

image

Vinur minn sem bjó úti á landi átti einn svona í kringum 1980. Sami litur.

Civic sportari

Í kjölfarið eða um 1984 kom svo Honda með eftirminnilega flott útlit á Civic. Kallaður S held ég. Sá bíll varð ákaflega vinsæll hér á landi og þótti með eindæmum skemmtilegur í akstri, kraftmikill og lipur.

Hann var um 8,7 sek. frá 0-100 km/klst. Það þótti æði.

image

Civic 1984. Svona bíll var á mínu heimili. Beinskiptur, 1,5 lítra 114 hestafla vél og 8,7 sekúndur í 100 km/klst.

Honda kom einnig með aðra útfærslu á þessum vagni en það var Honda CRX. Eiginlega afbrigði af Civic en nokkurs konar Coupe útgáfa. Mjög flottur bíll og ekki á færi allra að festa kaup á svoleiðis grip á þessum tíma.

image

Ansi flottur þessi í rauðu.

Enn í dag er þessi bíll talsvert vinsæll meðal Hondu áhugafólks.

image

Fyrst þegar þessir komu sneri maður sér í hring þegar þeir óku hjá.

Daihatsu Charade turbo

Í kringum árið 1985 kom, sá og sigraði Daihatsu með turbó útgáfu. Skemmtilegur og kraftmikill smábíll með spoilerkitti og stórum felgum. Þessi bíll var kraftmikill og hafði góða hröðun. Ungt fólk á öllum aldri langaði í svona kerru.

Ekki var 1988 árgerðin síðri.

image

Daihatsu Charade GTI, Turbo Twin Cam í kringum 1988.

image

Konan mín eignaðist svona bíl árið 1986. Reyndar ekki TURBO.

Ford Escort XR3i

Um svipað leyti eða í kringum 1984 muna menn eftir glæsilegum Ford Escort sportara. Þetta urðu gríðarlega vinsælir bílar enda kraftmiklir og með fullt af sportlegum eiginleikum. Rauðir slíkir bílar vöktu óskipta athygli.

image

Hrikalega flottir bílar. Standast vel tímans tönn.

Mazda 323 GT

Mazda hefur ávallt gert skemmtilegar sportútgáfur. Hver man ekki eftir Mazda 323 GT. Gríðarlega öflugur bíll á mælikvarða þess tíma, steinlá á götunni, stórar flottar felgur, bein innspýting og hátt snúningssvið.

Sætin alveg geggjuð og sportlegi þátturinn lá kannski ólíkt öðrum gerðum ekki í plasti og svoleiðis dóti.

image

Þessi kom með fjórhjóladrifi og þótti magnaður alveg. Hann var líka seigur í rallinu.

Mazda 323F kom um 1990 og þótti algjörlega bylting í hönnun smábíla. Sá var sportlegur og fallegur bæði að innan og utan. Mágkona mín átti einn svartan og frændi minn einn rauðan.

image

Mazda 323F þótti mjög smart. Það örlaði á því að þetta væri svipað vel heppnuð hönnun á smá sportara eins og þegar Prelude kom fyrst.

Golf GTI

Toppurinn var náttúrulega Golf GTI. Ég man að mig langaði í svoleiðis bíl alveg frá því að hann kom fyrst.

Mér finnst eiginega allar útgáfur af Golf GTI flottar – reyndar mismunandi flottar. En Golf Mk2 (1983-1992) var af annarri kynslóð þessa vinsæla bíls.

Ég starfaði um tíma sem sendill og náði þremur eintökum af þessari kynslóð áður en skipt var yfir í Toyota Corolla árið 1987. Það voru reyndar ekki GTI bílar en toppbílar engu að síður.

image

Svakalega langaði mann í svona bíl á níunda áratugnum. Þessi litur þótti magnaður á Golf GTI.

Nissan Sunny GTI

Frábær bíll, skemmtilegur í akstri og flottur. Hefðbundinn Hatchback bíll sem varð ótrúlega vinsæll hér á landi. Ingvar Helgason var á þeim tíma umboðsmaður Nissan á Íslandi og bíllinn var á góðu verði.

Við erum að tala um bíl með 2 lítra, 141 hestafla vél og fimm gíra handskiptum kassa.

image

Það muna eflaust margir eftir þessum. Rauði liturinn var áberandi vinsælastur og flestir Sunny GTI svoleiðis hér á landi.

Árið 1987 eignaðist ég Nissan Sunny Coupe. Ansi huggulegur bíll en vélarvana. Sá var með 1.5 lítra, 4 strokka vél og fimm gíra handskiptum kassa. Skemmtilegt útlit en ákaflega máttlaus miðað við sportlegt útlitið.

Ég man einnig að hann var frekar þröngur á alla vegu – sérstaklega aftur í.

image

Skemmtilegt lúkk. Minn var tvílitur; svartur og rauður. Hins vegar var ekki nægilega stór vél í bílnum sem ég átti til að hann teldist til alvöru sportara.

Toyota Corolla

Þeir bílar sem hafa setið hvað oftast á óskalistanum á þessum tíma er Toyota Corolla. Sá áhugi byrjaði árið 1983 með Toyota Corolla 16 ventla Twin Cam og árgerð 1986 af einum flottasta Corolla að mínu mati, þriggja dyra GTI bíl. Þeir sem eftir fylgdu urðu gríðarlega vinsælir og seldust eins og heitar lummur hér á landi.

Þar erum við að tala um Toyota Corolla GL, Liftback bílinn en sá bíll var lengi á listanum yfir bíla sem mig langaði að eignast.

image

Ein flottasta Corollan að mínu mati. Kom fyrst árið 1983.

Árið 1993 eignaðist ég Toyota Corolla 1,6 Xli og var sá bíll með 114 hestafla talsvert öflugri vél og var gaman að aka bílnum. Toyota Corolla Si árgerð 1993 var náttla toppurin en talsvert dýrari fyrir það eitt að vera með slatta af plasti og flottari sæti – en sömu vél. Sú Corolla sem kemur 1993 er af sjöundu kynslóð.

image

Uppáhalds. Linda Pétursdóttir fékk svona bíl frá Toyota eftir að hún var krýnd Ungfrú heimur. Þessir voru að koma hingað árið 1988.

image

Þessi kom árið 1993. Ein best heppnaða kynslóð Corolla. Sjöunda kynslóðin. Hér er þriggja dyra Si bíll.

image

Þessi Toyota Corolla GL, Liftback var lengi efst á óskalistanum. Og þetta var óskaliturinn líka - dökkblár sanseraður. Þessi er af sjöundu kynslóð sem kom 1993.

Myndir: Google.

[Greinin birtist fyrst í febrúar 2021]

Tengdar greinar: 

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is