Í gær var sögufrægur bíll seldur á uppboði. Öllu heldur bíll manns sem frægur var að endemum. Í sögulegu samhengi er bíllinn sá að sama skapi vel þekktur en hér er um að ræða bíl sem var í eigu rúmenska einræðisherrans Nicolae Ceausescu.

Dýr drusla?

Einhvern tíma hefur verið fjallað hér um bíla sem tengjast illum verkum. Greinina „Bölvaður bíllinn“ má finna hér.

Sumir geta ekki hugsað sér að eiga muni sem áður voru í eigu skúrka, fúlmenna eða illmenna; Hvað þá að kaupa hús þeirra eða farartæki.

Einhver virtist þó vilja eignast bíl Ceausescus sem seldist í gær á uppboði, ásamt einkaþotu einræðisherrans. Bíllinn, sem er af gerðinni Paykan Hunter, seldist á 95.000 evrur eða um fjórtán milljónir króna. Ekki eru mörg ár síðan þessi sami bíll var myndaður í einhverju porti í Rúmeníu; þá í fremur döpru standi. Alla vega af myndum og myndböndum að dæma.

image

Hann var orðinn frekar lúinn, blessaður bíllinn. Skjáskot/YouTube

Lágmarksboð var 4.000 evrur og þá má nú teljast fréttnæmt að 95.000 evrur hafi verið greiddar fyrir hann í gær. Sérstaklega er það áhugaverð lending ef rétt reynist að bíllinn hafi áður verið á uppboði hjá Artmark í Rúmeníu árið 2014, eins og hér kemur fram í frétt Autoevolution frá desember 2014. Hvort þetta voru hin mestu kjarakaup eður ei kemur kannski í ljós seinna.

Íranar vildu fá bílinn „heim“

Bílar undir nafninu Paykan voru framleiddir í Íran frá 1967 til 2005 (eitthvert framhaldslíf átti einhver gerð Paykan undir öðrum merkjum) og gjarnan hefur verið vísað til tegundarinnar sem „hins íranska lystivagns“ og voru heimamenn afar stoltir af tegundinni. Paykan er perskneska orðið yfir ör eða pílu. Hvort þessi 54 hestafla drossía hafi skotist áfram eins og stríðsör, er ekki gott að segja til um en í það minnsta þá var Íranskeisari, Mohammad Reza Pahlavi það stoltur af „írönsku örinni“ að hann gaf Ceausescu Paykan Hillman Hunter árið 1974.

image

Var bíllinn gefinn sem þakklætis- og vináttuvottur vegna þess viðskiptasambands sem komst á við Mið-Austurlönd þegar Ceausescu varð forseti Rúmeníu árið 1967. Um sambandið við Mið-Austurlönd og þróun þess frá 1958 má endilega lesa hér en best er að undirrituð fjalli bara um bílahlið tilverunnar!

Já, 54 voru hestöflin, 1,5L vél, hámarkshraði sagður 145 kílómetrar á klukkustund og heildarakstur aðeins 2000 kílómetrar. Og rétt er að geta þess að bíllinn er víst gangfær.

Kaupandi þessa sögufræga bíls var rúmenskur bílasafnari en víða er greint frá því að Íranar hafi boðið nokkuð kröftuglega í bílinn. Reuters birti frétt um áhuga Írana á bílnum. Alls bárust um 100 boð í bílinn og að sögn uppboðshaldara bárust flest boðin frá Íran.

Ég velti fyrir mér hvort þessum þjóðarstreng mætti líkja við ef íslenskur torfærubíll væri boðinn upp í „Langt-í-burtistan“ eftir fimmtíu ár og Íslendingar vildu ólmir fá hann heim í rétt umhverfi!

Rúmenski bílasafnarinn bauð 5.000 evrum meira en sá íranski er hæst bauð og vonandi verður þetta ekki að milliríkjadeilu. Ætli það þurfi ekki eitthvað meira til en hundrað bílasafnara?

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is