Bernskuminning bílablaðamanns

Eftir indælan kvöldverð hjá vinafólki á Vestfjörðum upphófust bráðskemmtilegar umræður um óknytti og skelmisbrögð barna. Hló undirrituð manna hæst þegar sögð var saga af syni vina minna sem tróð sultusamloku og seðlaveski (sem geymdi sparifé fjölskyldunnar) inn í vídeótækið.

Bílskúrinn fíni í stofunni okkar

Minningin er víst sönn og spratt fram ljóslifandi í mínum saklausa kolli. Fyrir hugskotssjónum mínum sá ég Matchbox bílana alla sem lagt hafði verið snyrtilega inn í bílskúrinn. Bílskúrinn sem þeir komust ekki út úr aftur. Bílskúrinn var nefnilega vídeótækið á heimilinu.

Og þar sat hann fastur. Því hann hafði beyglað eitt og annað þegar honum var lagt í þetta stæði.

Rafeindavirkjanum, Einari heitnum Oddgeirssyni, var ekki skemmt þar sem hann skrúfaði vídeótækið í sundur. Ég hélt auðvitað að hann væri að þessu til að frelsa bílana mína svo ég gæti haldið áfram að leika mér með þá… En nei, það var víst ekki tilgangurinn. Samt fagnaði ég mjög þegar Wagoneerinn losnaði úr prísundinni.  

Hringtorgið í hillunni

Aldrei leiddist mér, enda átti ég mína Matchboxbíla. Umferðarreglurnar setti ég sjálf og vegamálastjóri var einmitt líka ég! Það var gaman.

Bílarnir rötuðu út um allt, enda handdrifnir og þar af leiðandi með drif á öllum hjólum. Þeir rötuðu upp af stofugólfinu, upp í hillurnar, yfir hljómplöturnar (Dolly Parton, Bítlarnir, Stones og félagar urðu undir) og alla leið upp á hringtorgið.

Hringtorgið var staðsett ofarlega í hillusamstæðu, til þess að fullorðna fólkið gæti auðveldlega sett „plötu á fóninn“. Því þurfti ég að ná mér í píanóbekk (sem reyndar tilheyrði orgeli, því þegar mamma bað pabba að fara og kaupa píanó kom hann víst skælbrosandi heim með orgel „því það kostaði miklu minna en píanó“ og þetta mátti ekki minnast á…) og upp á píanóbekkinn brölti ég með bílana í fanginu. Því næst lyfti ég armi plötuspilarans ofurlítið til að húllumhæið færi í gang og þar með var hringtorgið tilbúið til notkunar.

image

Dæmigert hringtorg frá níunda áratug síðustu aldar, í það minnsta í augum barns nokkurs. Mynd/Unsplash.

Ég vissi að nálina mátti aldrei snerta og hana skyldi umgangast af sömu nærgætni og augastein mannsaugans. Þetta passaði ég uppá þegar ég setti nokkra bíla í einu á „hringtorgið“ góða í hillunni. Svo freistaðist maður auðvitað til að setja á 78 snúninga og þá þeyttust Matcboxararnir út um allt!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is