Einfaldara er betra

Bílafyrirtækin ættu að hætta að endurhanna hluti sem þegar eru til og virka

Eitt af því sem hefur tekið miklum breytingum í bílaheiminum eru gírskiptingar og gírkassar.

Fyrstu gírkassarnir voru grófir tveggja eða þriggja gíra gírkassar sem erfitt var að skipta.

Víðtæk notkun samhæfðra gírkassa á þriðja áratug síðustu aldar gerði handvirka gírkassann auðveldari í notkun.

„Hæ og ló“ á Ford T

Sumir bílar í árdaga bílaaldar voru í raun ekki með gírkassa eins og við þekkjum þá í dag. Á gólfi Model T voru þrír pedalar, eða fótstig, sem stóðu út. Þessi bíll var aðeins með tvo hraða áfram: „High“ og „Low“. Til að ná lágum hraða stígur þú á vinstra fótstigið, ýtir því alla leið niður og bíllinn færist áfram í lágum gír. Til að ná háum hraða sleppirðu handbremsunni og vinstra fótstiginu, og þá ertu á miklum hraða.

image

Gírkassa Model T var stjórnað með þremur fótstöngum og handfangi sem var fest við þá hlið ökumannssætisins sem sneri að götunni. Inngjöfinni var stjórnað með stöng á stýrinu. Vinstri pedali var notaður til að tengja gírinn. Með gólfstöngina annaðhvort í miðjustöðu eða alveg fram, var stigið á fótstigið, því haldið niðri og bíllinn fór í lágan gír.

Þegar hann var í millistöðu var bíllinn í hlutlausum.

Ef ökumaðurinn tók fótinn af vinstra fótstiginu, fór Model T í háan gír, en aðeins þegar handfangið var að fullu fram - í annarri stöðu myndi fótstigið aðeins færa sig upp að miðjustöðu eða hlutlausri stöðu. Þetta gerði kleift að halda bílnum í hlutlausum á meðan ökumaðurinn var að snúa vélinni í gang með höndunum. Bíllinn gæti þannig keyrt án þess að ökumaðurinn þyrfti að ýta á eitthvað af fótstigunum. Það var nefnilega ekkert sérstakt fótstig fyrir kúplinguna.

Stundum ekki einfalt að finna…

Í nútímabílum er það stundum óráðin gáta hjá sumum hvernig setja á bílinn í gír, þegar sest er inn í bílinn í fyrsta skipti.

Sá sem þetta skrifar man að þegar sest var í fyrsta skipti inn í Mercedes Benz A, sem raunar var valinn „bíll ársins 2013“ á Íslandi, og leitin hófst að gírstönginni.

Hún reyndist vera bara smástöng hægra megin á stýrissúlunni, svipuð útlits og stefnuljósarofinn, en að nokkru leyti falin á bak við stýrið. Flott græja um leið og maður vissi af henni, enda er þessi skipting í fjölda bíla frá Benz í dag.

image

Gírskipting á Mercedes Benz C-Class 2016.

Af hverju að reyna sífellt að finna upp nýjar lausnir?

Það var grein Jeremy Korzeniewski sem skrifar á www.autoblog.com, sem varð kveikjan að þessari hugleiðingu um gírskiptingar og hann svarar spurningunni hér að ofan á ágætan hátt: „Ég man eftir því í fyrsta skipti sem ég sá snúningshnapp fyrir skiptingu skjótast upp á fyrstu kynslóð Jaguar XF fólksbílsins. „Þetta er svolítið flott, en það mun bila“, hugsaði ég. Og stutt leit á netinu bendir til þess að þessar hugsanir hafi ekki verið rangar í raun.

Þegar Chrysler færði skiptinguna

Chrysler var síðasti bílaframleiðandinn í Detroit til að kynna al-sjálfskiptan gírkassa, um 14 árum eftir að General Motors hafði kynnt Oldsmobile Hydramatic sjálfskiptingu og næstum þremur árum eftir Ford-O-Matic kom fram hjá Ford. Packard's Ultramatic kom út árið 1949 og Studebaker's Automatic Drive var kynnt árið 1950.

PowerFlite frá Chrysler var léttari og einfaldari í smíði og notkun, með færri hlutum en skiptingarnar hjá samkeppnisaðilunum.

Skiptingin var einnig endingargóð og var notuð með fjölda véla frá Chrysler Corporation, allt frá frá Plymouth Six til Imperial Hemi V8. Chrysler kynnti þriggja gíra TorqueFlite sjálfskiptingu árið 1956 en tveggja gíra PowerFlite var til staðar á sumum gerðum til ársins 1961.

image

Power Flite „þrýstihnappaskipting“ í 1956 Plymouth.

image

Skiptihnappar gírskiptingar í Chrysler 300 árgerð 1961.

Og Jeremy hjá Autoblog heldur áfram: „Þó að Chrysler væri ekki eini bílaframleiðandinn sem framleiddi þrýstihnappastýringar á gírskiptingum, þá kynnti vörumerkið slíkt kerfi, sem varð frægt á fimmta áratugnum áður en Chrysler hætti með það áratug síðar. Chrysler, líkt og Jaguar og Land Rover, hafa undanfarið dundað sér við hönnun á snúningshnöppum, en sumir þeirra hafa verið skoðaðir sérstaklega eftir að eigendur greindu frá því að bílar þeirra runnu af stað vegna þess að þeir voru ekki rétt staðsettir í „Park“.

Stundum verið að búa til pláss

Það eru margar ástæður tilgreindar fyrir þessari nýju hönnun á skiptibúnaði. Ein ástæðan er að verið sé að búa til pláss (fyrir bollahaldara, símahöldur, ruslatunnur og hólf) og sumir hönnuðir sem Jeremy hjá Autoblog hefur rætt við virðast halda að sköpun þeirra sé auðveldari í notkun en nokkur önnur. „Sumar lausnir eru vissulega betri en aðrar, en ég vil halda því fram að skiptingin hafi þegar verið fullkomnuð með einföldu PRNDL skiptistönginni sem við þekkjum öll þegar.

„Svona hönnun, hönnunarinnar vegna er einfaldlega ekki nauðsynleg. Í besta falli getur þetta verið ruglingslegt. Í versta falli banvænt“ segir hann að lokum.

image

Dæmi um einfalda snúningsstýringu við val á gír.

image

Hér er hins vegar búið að fella „skiptihnappana“ inn í mælaborðið sjálft.

image

Enn ein útgáfan, hér þarf eiginlega að hitta á réttan hnapp!

image

Gamla góða skiptistöngin orðin „dvergvaxin“ og þessar skiptistengur þarf stundum að færa til á ákveðinn hátt svo þetta virki nú allt saman.

Gírskiptingarnar eru langt frá því að vera eina viðmótið sem hefur verið óþarflega endurhannað að mati Jeremy: Loftslagsstýringar, útvarps- og hljóðstilling, jafnvel stýrishjólið sjálft (sum þeirra eru ekki einu sinni í laginu eins og hjól) - allt hefur þetta verið endurhannað.

image

Það má enn finna hnappa í sumum bílum til að stilla miðstöðina, en í öðrum er þessu stjórnað frá stórum snertiskjá

Flestir bílar eru komnir með snertiskjái til að stýra hinu og þessu í bílnum; ökumaðurinn hefur samskipti við snertirofa eða svæði á skjánum í stað hefðbundinna hnappa eða rofa. Þó að flatir fletir líti framúrstefnulega út, þá eru þeir ekki eins auðveldir í notkun og hefðbundnari hnappar.

Eru skjáir góðir eða vondir?

Jeremy hjá Autoblog fjallar ágætlega um skjáina og hvort þeir séu góðir eða slæmir: „Hægt er að færa rök fyrir því að snertiskjáir séu eina veigamikla undantekningin frá sýndarhnappareglunni. En þetta er líka fullt af pirrandi hönnunarvali.

Notendur eru besti mælikvarðinn

Ég er mjög sammála Jeremy þegar hann segir: „Ég tel einfaldlega að besti mælikvarði á hönnun innanrýmis bíls sé að setja raunverulegt fólk, sem var ekki hluti af hönnunarferlinu, undir stýri frumgerðanna og biðja það að leysa verkefni sem ættu að vera einföld við akstur.

(hugmyndin að greininni er byggð á bloggi Jeremy Korzeniewski sem skrifar á www.autoblog.com, en viðbótarefni héðan og þaðan)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is