Ineos ætlar að koma með Grenadier jeppann á Evrópumarkað 2022

Fyrirtækið mun í upphafi bjóða upp á „vinnubílsútgáfu“ af keppinaut Land Rover Defender

Það bíða margir eftir nýja Grenadier-jeppanum frá Sir Jim Ratcliffe. Þetta er aðeins farið að skýrast því nú herma fréttir að Ineos Automotive, deild efna- og orkurisans Ineos, mun setja þennan harðgerða jeppa á markað í Evrópu árið 2022 og því næst í Norður-Ameríku árið 2023. Markhópurinn þar er einkum bændur og aðrir notendur í dreifbýli, sagði bílaframleiðandinn.

Bíllinn mun einnig koma á markað í hlutum Afríku og Mið-Austurlöndum árið 2022.

Ineos sagði að það myndi selja Grenadier í gegnum söluaðila sem þegar er á markaði, sem og sérstaka söluaðila 4X4 bíla, en einnig verður hann seldur á netinu.

Salan á að hefjast í júlí 2022

Fyrirtækið miðar að því að um 200 söluaðilar um allan heim hefji sölu í júlí 2022.

image

INEOS Grenadier sýningarsalur. Ineos mun selja Grenadier hjá rótgrónum söluaðilum og seljendum 4X4-bíla, og einnig á netinu.

Í Bretlandi ætlar Ineos að hafa 23 smásöluverslanir í rekstri við upphaf sölu, að viðbættum söluverslunum frá Bosch.

image

Ineos vinnur einnig að pallbílsútgáfu af Grenadier, sem mun skipta sköpum fyrir Norður-Ameríkumarkaðinn. Á Bandaríkjamarkaði eru pallbílar mjög arðbær hluti af heildarsölu bílaiðnaðarins.

Þessi „kassalaga“ Grenadier verður með bensín- og dísilvélar frá BMW.

Framleiðsla ökutækisins hefst síðla árs 2021 í fyrrum Daimler verksmiðju sem smíðar bíla frá Smart í Hambach, í norðausturhluta Frakklands. Ineos keypti verksmiðjuna af þýska bílaframleiðandanum í fyrra.

Horfa til annarrar tækni varðandi eldsneyti

Gary Pearson, sem er forstöðumaður markaða Ineos í Bretlandi, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sagði að tækni brunavéla sem fyrirtækið notar sé rétt fyrir markaðinn í dag.

„Eftir því sem rafmagnstækninni fleygir fram getur það vel orðið rétt fyrir okkur,“ sagði Pearson.

„En í dag hvað varðar drægni, þyngd rafhlöðu ... í ökutæki sem þarf að geta dregið hluti, lyft hlutum og borið, þá er það ekki endilega rétt fyrir okkur um þessar mundir."

(Frétt frá Reuters, Automotive News Europe og Automobilwoche)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is