Viðburðurinn mun koma aftur „sterkari en nokkru sinni fyrr,“ segja skipuleggjendur.

En þetta var „stutt gaman“ því samkvæmt frétt frá Reuters hafa skipuleggjendur bílasýningarinnar í Genf tilkynnt að þeir muni ekki skipuleggja viðburðinn á næsta ári vegna „mála í greininni sem snúa að COVID-19 faraldrinum“.

Skipuleggjendur sögðu í yfirlýsingu að mál sem tengjast heimsfaraldrinum með beinum og óbeinum hætti gæfu þeim „engan annan kost“. Þetta væri tengt bæði viðvarandi ferðatakmörkunum fyrir sýnendur, gesti og blaðamenn, sem og áframhaldandi skorti á hálfleiðurum, sem hefur fengið bílaframleiðendur til að forgangsraða upp á nýtt, sögðu þeir.

Frestun en ekki niðurfelling

„Við lítum á þessa ákvörðun sem frestun, frekar en niðurfellingu. Ég hef fulla trú á að alþjóðleg bílasýning í Genf komi sterkari til baka en nokkru sinni fyrr árið 2023,“ sagði Maurice Turrettini, forseti Comité permanent du Salon international de l'automobile í yfirlýsingu á fimmtudag.

Margir sýnendur höfðu gefið til kynna að óvissuþættir af völdum COVID-19 faraldursins geri þeim ómögulegt að skuldbinda sig til sýningarinnar 2022, sagði Sandro Mesquita, forstjóri alþjóðlega bílasýningafyrirtækisins í Genf í yfirlýsingunni.

Að auki er líklegt að neikvæð áhrif hálfleiðarakreppunnar dragist langt fram á næsta ár. Þetta þýðir að „mörg vörumerki geta ekki skuldbundið sig til að taka þátt í kaupstefnu sem hefði verið haldin eftir rúma fjóra mánuði,“ sagði Mesquita.

(Reuters – Automotive News Europe)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is