Nei, ekki er nú ætlunin að fjalla hér um rafrettur, enda lítið spennandi þó „raf“ eitthvað séu. Corvettur eru hins vegar og hafa alltaf verið mjög spennandi. Einkum núna þegar Chevrolet virðist ætla að koma með raf- eða tvinnútgáfu þessa vinsæla bíls.

image

Það er margt að frétta af Corvettum. Vettufréttaveitur dæla út fregnum, flestum góðum þó að dapurlegt hafi verið þegar splunkunýjar Corvettur brunnu á bílaflutningabíl í síðustu viku, eins og greint var frá hér.

Á prófunarsvæði GM í nágrenni Nürburg í Þýskalandi „spæjaði“ bíla„spæjari“ það sem hann telur vera frumgerðina af Corvette E-RAY hybrid. Ekki spillir fyrir að í samfloti voru Z06 sem verið var að prófa, eins og sjá má og HEYRA í þessu fallega myndbandi sem er hér fyrir neðan.

Sé það rétt hjá spæjaranum að þetta sé E-RAY (varast ber að rugla því saman við Ebay) þá gæti bíllinn verið á bilinu 600 til 650 hestöfl, ef í bílnum er 6.2 lítra V8 vélin sem er í hefðbundinni C8 Vettu og ofan á það bætist rafmótor. En hvað veit maður! Þetta eru bara getgátur en alltaf má ganga út frá því að Corvetta verði öflug.

image

Það er auðvitað ekki alveg rétt að kalla hana rafVettu þó þetta sé tvinnbíll (hybrid) en stundum er bara í lagi að sprella smá. Sérstaklega ef það er þriðjudagur og rigning.

Myndbandið, gjörið svo vel:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is