Staðurinn er Malibú í Kaliforníu. Oft nefndur „the Bu“ á meðal brimbrettafólks og íbúa. Staður sem margir nafntogaðir og auðugir kjósa að búa á. Já, jafnvel sumt af efnaðasta fólki veraldar býr í „Búinu“.

Rifist um bílastæði

Á meðal þeirra umtöluðu sem búa í Malibú eru bílaáhugamennirnir Jay Leno og Jerry Seinfeld. Fyrir þá sem ekki vita þá eru þeir þekktir úr sjónvarpinu.

Síðustu 15 til 20 ár hafa þeir og fleiri bílaáhugamenn hist á sunnudagsmorgnum og fengið sér dögurð eða „brunch“ á stað í við ekki fjarri ströndinni, í eins konar verslunarkjarna.

Hallærisplanið í Malibú

Í upphafi var þetta þannig að nokkrir gaurar, Jay Leno og Jerry Seinfeld þ.m.t., komu á fornbílunum sínum (einkum af gerðinni Porsche) og dáðust að fögrum ökutækjum meðan þeir gæddu sér á hrærðum eggjum, fleski og fleira góðgæti.

Nú hefur þessi litla krúttlega samkoma nokkurra manna, sem eiga það sameiginlegt að vera vel efnum búnir og eiga fína bíla, þróast dálítið og í raun og veru tekið stökkbreytingum. Litla samkoman er orðin að risavaxinni bílasýningu. Nokkrir bílar urðu að nokkur hundruð. Og það á hverjum sunnudagsmorgni!

Staðan er orðin þannig að verslunar- og veitingahúsaeigendur hafa fengið nóg og vilja fólkið burt! Enda engin bílastæði að fá þegar fornbílar skipa hvert og eitt þeirra klukkustundum saman. Þetta fór, að því er virðist, úr böndunum í heimsfaraldrinum, eins og snepillinn Daily Mail orðar það: „Í heimsfaraldrinum, þegar hundruð mótorhausa sem höfðu ekkert fyrir stafni, ákváðu að slást í hópinn.“

image

Dæmigerður sunnudagsmorgunn á bílaplaninu umrædda í Malibú. Myndin er skjáskot úr YouTube myndbandi sem tekið var sl. sunnudag.

Svo aftur sé vísað í sama fjölmiðil: „Skyndilega varð þessi vikulega hefð nokkurra manna að stríði á milli verslunareigenda og bílaáhugamanna. Svo hatrammar urðu deilurnar að kalla þurfti til lögreglu.“

Já, nú eru bílakarlar á borð við Jay Leno og Jerry Seinfeld álíka óvinsælir á þessum slóðum og hvert annað glæpagengi. Alla vega á sunnudagsmorgnum.

Viðskiptavinafælur

Eigendur kaffihúsa og veitingastaða í kringum þetta blessaða bílastæði, eru margir hverjir bullsjóðandi illir og fullyrða að viðskiptavinir fari eitthvert annað en á staðina þeirra út af bílakörlunum.

image

Starfsmaður eins kaffihússins, Marmalade Café (vonandi smakkast það betur en það hljómar…), sagði í samtali við blaðið að „þeir“ hefðu eyðilagt viðskiptin fyrir rekstraraðilum á svæðinu:

„Fyrir klukkan tíu á morgnana [á sunnudögum] komast viðskiptavinir okkar ekki varla inn á bílastæðið. Eftir klukkam tíu er hvergi stæði að fá. Við höfum gert þeim skýra grein fyrir því að við kærum okkur alls ekki um þessa bílasýningu þeirra. Ef þeir myndu ekki fylla öll bílastæði svæðisins og væru farnir héðan fyrir klukkan tíu á morgnana, væri þetta skömminni skárra.“

Maður hefði nú haldið að allir þessir stórkostlegu bílar myndu auka vinsældir staðanna í kring  frekar en hitt en það er greinilega misskilningur.

Já, bara burt með ykkur!

Ég skrifaði í fyrirsögn: Hér „hanga“ Jay Leno og Jerry Seinfeld… Það er ekki fallegt orðalag. Þ.e. að hanga.

Þetta er eftir sem áður, að því er virðist, upplifun æði margra rekstraraðila í kringum téð bílastæði.

Í La Times, sem fjallað hefur um málið, haft eftir manni sem annast löggæslu á svæðinu að „við segjum við fólk sem kemur hingað að það sé í himnalagi að það komi til að fá sér kaffi. En ef það ætlar að opna vélarhlífina á bílnum sínum og hanga hérna í fjóra eða fimm tíma, þá skuli það endilega fara eitthvert annað. Annars verði það dregið héðan,“ og já, þannig standa nú málin.

image

Við skulum nú vona að þetta nýtilkomna vandamál leysist farsællega.

Hér er myndband frá síðastliðnum sunnudegi, tekið á stæðinu umdeilda. Áður en allt fór í háaloft:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is