Margir muna eftir blessuðum ferðamanninum sem ætlaði á hótel á Laugaveginum en endaði á Siglufirði. Þar var nefnilega LaugaRvegur en hann hefði betur sleppt „r“ inu og farið á Laugaveg í Reykjavík. Það getur nefnilega verið óheppilegt að treysta um of á leiðsögugræjurnar, eins og margir hafa sannreynt!

Beinasta leiðin til Brussel

Stysta leiðin á lestarstöðina í Brussel? „Best að athuga hvað GPS-tækið góða segir um það,“ hefur hin 67 ára gamla Sabine Morceau eflaust hugsað þar sem hún var á leiðinni að sækja vin sinn á lestarstöðina. Heima í Solre-sur-Sambre leit þetta vel út en 150 kílómetra ferðalag getur auðvitað kallað á smá skipulagningu. Allur var varinn því góður.

image

„Ég var utangátta og vissi ekkert hvar ég var, þannig að ég hélt bara áfram,“ var haft eftir blessaðri konunni í blaðinu El Mundo árið 2016.

„Ég sá ótal skilti á leiðinni. Fyrst á frönsku, svo þýsku og að lokum á króatísku. En ég hélt akstrinum bara áfram í örvæntingu minni,“ sagði Sabine Morceau sem komst í heimspressuna eftir að hafa treyst svona í blindni á GPS-tækið.

Hún var sannarlega ekki sú eina en ætli hún hafi ekki ekið lengra en flestir sem voru afvegaleiddir af villum í gagnagrunni staðsetningartækjanna.

Farðu beina leið í steininn…

Kaffi- og samlokusala jókst nokkuð á tímabili í upplýsingamiðstöðinni við Albany-fangelsið á Isle of Wight sunnan við England. Upplýsingamiðstöðin er einkum hugsuð fyrir þá sem eru á leið í heimsókn til fanga sem sitja inni í Albany.

image

Það var vegna villu í GPS-inu sem ferðamönnum, sem slógu lykilorðið „kaffihús“  inn í staðsetningarapparatið, var vísað beinustu leið í steininn. Eða svo gott sem.

Sé eitthvað að marka heimildina sem hér er vísað til þá hafa kaffi- og teþyrstir ferðamenn fengið á baukinn við komuna í upplýsingamiðstöðina. Leitað hefur verið á sumum þeirra og einhverjir komist í klandur og nánast endað á bak við lás og slá.

Og út á teinana skaltu aka kona góð

Sagan segir að kona nokkur í Boston hafi árið 2013 fengið þau fyrirmæli frá GPS-tækinu að aka út á lestarteina. Og það gerði hún kvöld nokkurt, með börnin sín tvö í bílnum. Samkvæmt „skipun“ tækisins skyldi hún beygja til hægri á einum tímapunkti og þar með var hún stödd á lestarteinum.

Þegar henni varð ljóst að hún gat ekkert gert til að koma skrjóðnum af teinunum, yfirgaf hún bílinn ásamt börnunum tveimur og ekki leið á löngu þar til ökutækið varð fyrir lest.

Jújú, tveggja tonna hindrunin fór ekkert vel með farþegana 70 sem í lestinni voru en eftir sem áður slapp konan við að greiða sekt.

Tröppuakstur á Spáni

Nokkrir ökumenn á leið um Turuel í austurhluta Spánar fyrir fáeinum árum óku niður ógnarmiklar tröppur, innrammaðar af veggjum sem lítið rými gáfu til undanbragða.

Skemmst er frá því að segja að erfitt var að komast þaðan og svo erfitt raunar að einum bílnum þurfti að koma þaðan með aðstoð krana.

2.600 kílómetra útúrdúr á 32ja tonna trukki

Hópur fuglaáhugamanna í friðlandinu við Gibraltar Point á Englandi þurfti að slíta sig frá sjónaukunum þegar rymjandi þrjátíu og tveggja tonna trukkur kom á blússandi fart eftir örmjóum vegslóða.

image

Þegar trukkurinn stöðvaðist var á sýrlenska ökumanninum að skilja að hann væri að reyna að komast til Gíbraltar. Eyjarinnar í Suðvestur-Evrópu, um 2.500 kílómetrum frá þeim stað sem fuglaáhugamennirnir, bílstjórinn og bíllinn voru einmitt staddir á.

Aðspurður sagðist bílstjórinn, Necdet Bakimci, hafa slegið „Gíbraltar“ inn í GPS-tækið og ekið sem leið lá frá Antakya í Tyrklandi til „Gíbraltar“ eftir leiðbeiningum tækisins. Að sögn fuglaáhugamannanna var Bakimci pollrólegur þegar honum urðu mistökin ljós. Mistök sem rekja mátti beint til GPS-kortagrunnsins þar sem stóra villu var að finna. Já, alveg 2600 kílómetra langa villu.

[Birtist fyrst í nóvember 2021]

Þessu ekki svo fjarskylt: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is