Ný sérútgáfa Porsche Panamera frumsýnd í Los Angeles

Porsche kynnir nú sérútgáfuna Panamera Platinum Edition fyrir þá sem vilja einstakan bíl með miklum búnaði.

image

Framleiðsluútgáfan af Porsche Panamera var kynnt á 13. Auto Shanghai International Automobile Show, í Shanghai, Kína, í apríl 2009.

Árið 2011 komu á markað tvinn- og dísilútgáfur.

Í apríl 2013 var tilkynnt um andlitslyftingu á Panamera sem var aftur frumsýndur á bílasýningunni í Shanghai.  Plug-in hybrid útgáfa, Panamera S E-Hybrid, kom á Bandaríkjamarkað í nóvember 2013. Panamera línan var svo endurhönnuð árið 2016.

image

Núna með enn meiri búnaði og lúxus

En samkvæmt fréttum eru þeir hjá Porsche að slá enn betur í klárinn og munu kynna nýja „lúxusútgáfu“ af Panamera á bílasýningunni í Los Angeles í vikunni, nánar tiltekið á miðvikudaginn 17. nóvember.

„Platinum Edition“ verður í boði í Panamera 4 og Panamera 4 E-Hybrid í báðum útfærslum.

Meðal staðalbúnaðar er loftfjöðrun með virkum undirvagni (PASM), hliðarspeglar með sjálfvirkri deyfingu, LED „matrix“-ljós með PDLS Plus, „panorama“ glerþak, bílastæðaaðstoð með myndavél, og tvinnbílar fá 7,2 kW innbyggt hleðslutæki.

image

Enn fremur kemur bíllinn með sérstökum 21 tommu felgum, svörtum púströrum, lituðum rúðum, svörtum listum í háglans og sérstökum afturljósum auk fjölda smærri útlitsatriða.

Innréttingin er einnig einstök með GT sportstýri, akreinaaðstoð, rafdrifnum sætum, sem hægt er að stilla á 14 vegu, BOSE umhverfishljóðkerfi og smáatriðum til skrauts í svörtu, burstuðu áli.

image

Bíllinn verður heimsfrumsýndur á bílasýningunni í Los Angeles sem opnar 17. nóvember en er þegar tilbúinn til pöntunar. Afhendingar hefjast í lok janúar 2022. Verð liggur ekki enn fyrir.

image

(frétt á vef BilNorge – myndir frá Porsche)

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is