Margt er nú mannanna bölið og hundanna snarlið. Getur það gerst? Að einhver hundur éti bíl? Raunar minnist ég geitar nokkurrar sem ég stóð að verki við að kjamsa á stuðaranum á mínum ´93 BMW E34 518. Mér var ekki skemmt! En eitthvað á bílnum mínum var skemmt.

image

Skjáskot/Twitter/MakukuleZamo

Hundurinn át allar fjarstýringar

Eins og oft vill verða á Twitter, í samræmi við tilganginn með þeim samfélagsmiðli, þá sköpuðust umræður. Og þar er nú eitt og annað áhugavert!

image

Pitbull á bílpalli er betra en bílpallur í kviðnum á pitbull. Mynd/Unsplash

Allt fer í hundana

Þráðurinn undir myndinni af því sem eftir er af bílnum (eftir að hundurinn varð saddur?) er langur. Margir hundaeigendur virðast ótrúlega rólegir yfir því að eitt og annað á heimilinu hverfi ofan í hundana. Já, fari hreinlega í hundana.

Ein kona segir: „Skór endast sjaldan lengi á mínu heimili. Hundarnir mínir éta alla skó sem þeir komast í. Og ég get ekki einu sinni orðið reið út í þá,“ skrifar hún. Hundavandamál eða hundaeigendavandamál? Spyr sú sem ekkert veit um málin.

Undir þetta kvittar maður nokkur og segir: „Ójá! Við áttum pitbullhunda og einu sinni átu þeir öll símahleðslutækin á heimilinu.“

image

Sakleysið uppmálað. Mynd/Unsplash

Næsti spyr af hverju hundar geri þetta eiginlega. Éti skó og fleira. „Árið 2019 át pitbull hlaupaskóna mína. Það er eitthvað það furðulegasta sem ég hef séð á ævinni.“

Þú verður næstur karlinn minn

Það eru alltaf einhverjir bölsýnismenn sem finna sig knúna til að leggja orð í „belg“ og þeir eru nokkrir þarna. Heimurinn hefur fram að tefla ótrúlega mörgum bölsýnispeðum sem virðast óþrjótandi framleiðendur svartagallsrauss.

„Úff. Þú verður næstur karlinn minn. Fyrst hann fór svona með bílinn, hvernig fer hann þá með þig?“

Og sá næsti var ekki minna hress: „Guð minn góður! Átt þú börn? Ég myndi fara varlega því svona hundar geta hreinlega étið börn.“

Bílatætari í geitargæru

Þessi tiltekni þráður er kannski ekkert merkilegri en margt annað en eins og ég skrifaði hér efst þá minnti hann mig á geitina sem um árið ásældist BMW-inn minn.

image

Já, þessi geit var ekki vinur minn eftir að hún varð svo hrifin af bílnum að hún reyndi að éta hann. Þá var hún búin að éta reimarnar á strigaskónum mínum, bandið sem hélt tjaldinu og mér hafði tekist að ná út úr henni tveimur þvottaklemmum sem hún ætlaði að sporðrenna. Mynd/Malín Brand

Erlendir ferðamenn skemmtu sér konunglega þegar þeir fylgdust með undirritaðri reyna að teyma geitina í átt að einhverri miðstöð tjaldsvæðisins. Þeir hættu nú flissinu flestir þegar geitin nálgaðist tjöldin þeirra. En hún hafði lítinn áhuga á viðlegubúnaði þegar gamall BMW var annars vegar,

Að endingu tókst okkur (mér og syni mínum sem þá var 9 ára gamall) að koma þrjóskri geitinni upp í þjónustumiðstöð tjaldsvæðis Möðrudals á Fjöllum. Þar var skilningurinn ekki nokkur. Svona var það samtal:

Ég: „Þessi geit er að éta bílinn minn. Geturðu geymt hana utan tjaldsvæðisins?“

Starfsmaður: „Þetta er geit. Hún gerir það sem henni sýnist.“

Ég: „Já, auðvitað. Ég skil (ekki)... Gætirðu komið henni fyrir einhvers staðar til að eyðileggingin haldi ekki áfram?“

Starfsmaður: „Þetta er geit. Hún sleppur alltaf burt.“

Já, þannig var það. Ég svaf ekki mikið um nóttina en minningin er ljóslifandi. Líka hljóðið sem heyrist þegar geit nagar stuðara á BMW.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is