„Rúnturinn“ gamli og góði. Man einhver eftir honum? Eða er „rúntur-inn“ í Reykjavík eitthvað sem tekur á sig nýja mynd með hverju tímabili eða kynslóð? Rúnturinn í Reykjavík 1964 var alla vega nokkuð vel skilgreindur.

Ragnar fór í þetta skiptið fótgangandi á rúntinn, enda ætlun þessa þekkta teiknara og myndlistarmanns að rissa upp myndir af sumum þeim sem hann kynni að hitta á rúntinum. Sem hann og gerði.

Lækjargata,  Austurstræti og stans í Hressó

„Klukkan er liðlega átta, þegar ég geng af Lækjartorgi og inn í Austurstræti „hina löglegu leið", á vinstri gangstétt að sjálfsögðu. Um leið og ég fer framhjá Hressingarskálanum, lít ég inn. „Hressó“ er hluti af rúntinum og það „sæmir mér ekki sem Íslending", að líta þar ekki inn. [...] Hér glymur skvaldur, sem einstaka hlátur yfirgnæfir. [...] Við eitt tveggja manna borðið sitja tvær ungar stúlkur, sem á nútímamáli kallast „skvísur” og þamba mjólkurhristing,“ skrifar Ragnar Lár og stíllinn er sannarlega lifandi og skemmtilegur.

image

Allar teikningar eru eftir Ragnar Lár og birtust í Alþýðublaðinu 1964. Hlekkur á greinina er hér neðst. Alþ.bl./Ragnar Lár

En við vitum að innandyra er fátt af bílum að frétta og skautum því yfir stuttan stans Ragnars á Hressó.

Tryllitækin láta til sín taka

Kvöldið er ungt í frásögninni í maí 1964 en að hressingu lokinni í Hressingarskálanum er bílum á rúntinum farið að fjölga og allt á réttri leið.

image

„Þegar ég kem út á strætið aftur, hefur enn fjölgað á rúntinum og nú eru tryllitækin farin að láta til sín taka. Þau spóla hring eftir hring, enda liggur rúnturinn í hring og tilgangur margra „rúntara” er að fara í hring, í orðsins fyllstu merkingu.“

Dinglumdangl og skraut mikilvægt (á réttri hlið bílsins)

Teiknarinn og blaðamaðurinn hefur einstakt lag á að draga upp mynd af því sem fyrir augu ber og það gerir hann bæði með orðum og teikningum. Bílarnir rata þó ekki á þær myndir sem birtust með greininni en auðvelt er að sjá þá fyrir sér:

Ef maður fer yfir á hina gangstéttina og lítur á frá þeirri hlið, má sjá að það vantar hjólkoppana á sum tækin. Þau eru jafnvel óþvegin og óbónuð þeim megin.

En rúntakstur er iíka gerður til að sýnast, eða sýna sig og tækin, en þá er ekki ástæða til að vera að snurfusa það, sem sést ekki.“

Skvísurnar aka eins og gæjarnir

Hann var sannarlega með „húmorinn fyrir neðan nefið“ eins og einhver sagði óvart! Húmor blaðamanns virðist hafa verið góður frá öllum hliðum en það er náttúrulega gulls ígildi að koma auga á atriði á borð við þetta með betri hlið bílsins!

image

Áfram heldur frásögnin af rútinum:

image

Sumir drepa á bílnum og aðrir slást

„Á Hótel-Íslands-lóðinni standa nokkur tæki með táninga innanborðs, sem fylgjast með umferðinni. Þarna hafa þeir ,,lagt“ til að spara benzínið, en það er dýrt nú til dags og máske eru ekki til spírur. Svo er kannske ætlunin að renna austur fyrir fjall um helgina, á sveitaball, og þá er eins gott að eiga „klink fyrir kostnaði”.“

image

Áfram gengur okkar maður og fer fyrir hornið á trjágarðinum þar sem styttan af Skúla Magnússyni er.

Síðan kemur úfinn haus og rekur upp skaðræðisöskur, vegfarendum til heiðurs, en þeir virðast vera ýmsu vanir og brosa góðlátlega að tilburðum gæjans.

Tryllitækið, sem minnst er áttagata, stanzar hjá tveim skvísum og býður far. Þær virða fyrir sér útlit tækisins og sjá að það er hið glæsilegasta, hvískra lítið eitt saman og stíga að því búnu inn. Án efa er þeim vel tekið og tryllitækið rykkist af stað og það hvín í hjólbörðunum.“

image

Ljósmyndir eru úr safni blaðamanns og ekki endilega frá réttu ári. Þær eru í það minnsta af réttri borg!

Framan við Hótel Borg eru einhverjar æfingar sem blaðamaður rissar upp mynd af. Slagsmálahundar eru í þann mund að hefja hnefaleika án hanska og mannfjöldi fylgist með hvað varða vill. Biðin reynist ekki löng:

image

Þetta er stutt kvöld hjá slagsmálahundunum því lögreglan hefur mennina með sér á brott og eflast lítið spennandi sem bíður hundanna í fangaklefanum.

„Og nú er ég kominn í Austurstræti að nýju og er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ganga annan rúnt.“

Þannig lauk rúntinum með Ragnari Lár, laugardagskvöld nokkurt í maí árið 1964. Grein Ragnars í heild má lesa hér.

Efni sem þér gæti þótt áhugavert:

[Greinin birtist fyrst í febrúar 2022]

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is