Framljósin sem kallast hafa „pop-up“, „flip-eye“ eða „hidden-headlights“ settu sannarlega svip sinn á bíla, einkum sportlegri bíla, hér á árum áður. Þessi hönnun ljósa fór bílum misvel en hér er listinn minn yfir flotta og ekki svo flotta bíla með „pop-up“ ljósum.

Börn hafa oft kallað bíla með pop-up ljósum „bíla með augu“ og fundist þeir mennskari en aðrir bílar á að líta.

Þessu áttaði ég mig á í fyrsta rallinu sem við Sigurður Óli Gunnarsson kepptum saman (fyrsta rallið mitt) en bíllinn hans er þessi gullfallegi bíll sem er á myndinni hér að ofan og reyndar fyrir neðan líka.

image

Við Siggi Óli að klára sérleið við Hvaleyrarvatn í Vorrallinu 2014. Ljósmynd/Þórður Bragason

Eins og glöggir sjá er þetta Toyota Celica árgerð 1990. Eftir akstur einnar sérleiðarinnar man ég eftir krökkum sem klöppuðu þegar við komum akandi. Þau hrópuðu glöð í bragði: „Hér er hann! Flottasti bíllinn. Bíllinn með augun!“ Þetta heyrðum við inn um opinn gluggann mín megin og gátum ekki annað en brosað.

Sá fyrsti, þeir síðustu og…

Áður en við förum í listann er vel við hæfi að skoða snatri hvenær þessi gerð framljósa kom fyrst. Það er nefnilega áhugavert að það eru alveg 85 ár síðan fyrsti bíllinn „með augum“ kom á markaðinn.

image

Cord 812. Ljósmyndir/Wikipedia

Cord 812 hét hann. Bíllinn kom á markað 1937 og var framleiddur í Indíana í Bandaríkjunum. Hann var virkilega byltingarkenndur bíll og ekki bara vegna framljósanna. Nei, þetta var fyrsti framdrifsbíllinn á bandarískum bílamarkaði.

image

Hann þótti bæði vera með „augu“ og „nef“ því hann var ekki með eiginlegt grill heldur eins konar ristarhlera (louver) og hönnunin á þeim hluta bílsins varð til þess að hann var kallaður líkkistunefur eða „coffin nose“.

Síðustu (í bili) bílarnir með þessa gerð framljósa komu af færibandinu árið 2004. Það voru Chevrolet Corvette (C5) og Lotus Esprit.

image

Corvette C5. Ljósmynd/Wikipedia

Þá töldu menn að dagar pop-up ljósanna væru taldir. En viti menn! Eftir 16 ára fjarveru birtust pop-up ljósin á nýjan leik og þá á bíl sem nefnist Ares Panther.

image

2020 Ares Panther. Ljósmynd/Wikipedia

Þetta var árið 2020 og ekki hef ég kynnt mér þann bíl neitt en lesa má um hann til dæmis á Wikipediu.

Hvers vegna hurfu pop-up ljósin?

Samkvæmt grein nokkurri og Wikipediu var hætt með þessi ljós af öryggisástæðum (þ.e. í Bandaríkjunum). Gangandi vegfarendur gátu víst slasast á hvössum hornum ljósanna, eða eitthvað álíka. En í það minnsta eru ljósin ekki ólögleg.

image

Porsche 924. Ljósmynd/Porsche

Listinn minn

Hér koma þeir, bílarnir með pop-up ljósum, sitt á hvað; ljótir og flottir. Þetta er auðvitað bara mín skoðun og eingöngu til gamans gert. Sunnudagar eru nefnilega svo mikið þannig.

image

Opel GT (1968 - 1973)

image

Opel GT. Ljósmyndir/Opel

Ljósin voru kveikt með handafli (stýrisarmi). Þannig „opnaði hann augun“. Sagt var að ljósin rúlluðu á sinn stað en „poppuðu“ ekki upp. Hægt og rólega.

image

Bíllinn var einungis framleiddur með stýrið „réttum megin“ og fékkst með 1.1 og 1.9 lítra vél.

image

Yfir 100.000 bílar voru framleiddir af þessari gerð og þá eru meðtaldir þeir sem báru Buick merki fyrir bandarískan markað.

image

Volvo 480 (1986-1995)

image

Volvo 480. Ljósmyndir/Wikipedia

Þessi ólögulegi bíll var fyrsti framhjóladrifni bíllinn sem Volvo framleiddi. Jú, hann komst í sögubækurnar fyrir það en líka fyrir að vera fyrsta og eina gerðin sem var með pop-up framljós.

Hann var smíðaður í Hollandi og fékkst með 1.7 og 2.0 lítra vél (frá Renault). Sú fyrrnefnda var meira að segja túrbó.

image

Útlitslega minnir hann mig á Suzuki Swift með Honda Civic í snefilmagni sem var kastað úr mikilli hæð og svona leit lumman út. Illa sagt kannski en þetta er það sem fyrir augu mín ber.

image

Fiat X1/9 (1972-1989)

image

Fiat X1/9. Ljósmynd/Wikipedia

Sportarinn með furðulega nafnið, Fiat X1/9, var alls framleiddur í um 150.000 eintökum. Var hann sagður eins og ferskur andblær á sínum tíma (ekki þó úr pústinu) á markað smærri sportbíla. Auk þess að vera skemmtilega öðruvísi var hann líka fremur ódýr.

Vélin í þessum tveggja sæta bíl var í honum miðjum og segja mér kunnugir að bíll þessi hafi verið einstaklega skemmtilegur í akstri.

image

Chrysler LeBaron Coupe/Convertible (1987-1995)

image

Já, best að segja bara sem fæst og skrifa enn minna.

image

Honda Prelude (1982-1987)

image

Sá hvimleiði ókostur fylgdi hönnuninni að þegar bíllinn var „með augun opin“ skapaði það töluverða loftmótstöðu og það er aldrei sniðugt. En flottur hefur mér þótt hann.

image

Saab Sonett III (1970 - 1974)

image

Þessi Saab vakti nokkra lukku og seldust yfir 8000 bílar af þessari III kynslóð hans. Hinar vöktu eiginlega ekki lukku og var þessi sú eina með pop-up ljósum. Jú og eina gerðin sem Saab framleiddi með slík ljós. Fleiri urðu kynslóðirnar víst ekki.

image

Sonett minnti mig á eitthvað eða einhvern úr Simpsons þáttunum og ég var dálitla stund að finna út hvaða karakter það var en hann er sá sem er hægra megin á myndinni fyrir neðan:

image

Svona í lokin

Þar sem þetta er orðið helst til langt hjá mér þá fá myndir að tala fyrir þá síðustu en listi bíla með pop-up ljós er sannarlega mun lengri en þessi hér.

image

Porsche 924

image
image

Lincoln Continental

image
image

BMW 850

image
image

Ljósmyndir/BMW

image

1942 DeSoto convertible

image

Ljósmynd/Wikipedia

Var þetta skemmtieg lesning? Þá gætir þú séð húmorinn í þessum greinum hér: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is