Það er hægara sagt en gert að töfra fram 4.000 bíla í stað þeirra sem fóru niður á hafsbotn með Felicity Ace. Sérstaklega þegar um er að ræða fágæta bíla en það voru nú einmitt allnokkrir slíkir um borð í bílaflutningaskipinu.

image


Fjallað var um ólukkuskipið með lukkulega nafninu Felicity Ace hér en það kom upp eldur í því 16. febrúar og logaði hann í rúma viku. Áhafnarmeðlimirnir 22 björguðust og loks tókst björgunarfólki að slökkva eldinn.

Draga átti skipið nær landi (Azoreyjum) en þá sökk það og með því þeir 4000 bílar sem innanborðs voru.


Porsche, VW, Audi, Bentley og Lamborghini

Eins og greint var frá hér fyrr í mánuðinum voru á meðal bíla um borð Lamborghini Urus, Aventador (síðustu eintökin sem framleidd voru) og Huracan (alls 85 bílar frá Lamborghini), Volkswagen Golf R, GTI, Arteon, ID.4 (alls um 500 VW), Bentley (189 bílar), Audi (1.800 bílar) og Porsche (1.000 bílar), þar á meðal nokkrar sérútgáfur, t.d. af 911 Turbo S (metinn á 272.000 dollara) og Cayenne Turbo GT (metinn á 193.000 dollara).

image

Síðasti spölurinn að skipinu fyrir örlagaferðina í febrúar sl.


Forstjóri Audi, Markus Duesmann, hefur sagt að ætlunin sé að það muni taka sinn tíma að útvega 1.800 bíla í stað þeirra sem fóru með skipinu en unnið verði að því hörðum höndum.


Hvað með sérútgáfur?


Sama á við um Porsche og aðra „hefðbundnari“ bíla frá öðrum framleiðendum en þetta mun að sjálfsögðu taka langan tíma. Þá komum við fágætu bílunum. Þar vandast málið og sem dæmi má nefna að blaðamaðurinn og YouTube-arinn Matt Farah átti bíl um borð og ekki verður auðvelt að útvega annan sömu gerðar því hann er sérsmíðaður: Porsche 718 Spyder.

image

Mynd/Lamborghini


Farah sagði í hlaðvarpsþætti að honum byðist nú sambærilegur bíll (notaður) en annar kostur væri sá að bíða eftir að verksmiðjan smíðaði annan bíl fyrir hann.
Forstjóri Lamborghini, Stephan Winkelmann, greindi frá því nú fyrir skömmu að framleiðandinn ætlaði að framleiða 15 eintök af Lamborghini Aventador Ultimae í stað þeirra síðustu 15 sem framleidd voru og fóru með Felicity Ace.  Grunnverð Aventador Ultimae er um 400.000 pund (70 milljónir króna) þannig að þar fór rúmur milljarður í sjóinn.

image

Lamborghini Aventador Ultimae. Mynd/Lamborghini

Það, að framleidd verði 15 eintök af þessum ofurbíl, er mikið fagnaðarefni fyrir unnendur Lamborghini og ekki síst þá sem höfðu keypt umrædd eintök. Ekki hefur verið sagt hvenær búast megi við að þeirri framleiðslu ljúki en bíllinn sá er með 6.5 lítra V12, 769 hestöfl og fer frá 0 upp í 100 km/klst á 2.8 sek.

image

Fágætur og fagur. Mynd/Lamborghini

Fyrri greinar um Felicity Ace: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is