Í dag eru liðin 23 ár frá brunanum í Mont Blanc göngunum. 39 manns létust þegar kviknaði í matvælaflutningabíl en eldurinn breiddist út til um 20 annarra vörubíla og 10 fólksbíla. Öryggisatriði í göngum voru víða endurskoðuð eftir þessi ósköp.

Frönskum og ítölskum slökkviliðsmönnum gekk erfiðlega að ráða niðurlögum eldsins sem logaði samtals í 53 klukkustundir í göngunum og náði hitinn allt að 1000 °C.

Eldurinn kom upp í göngunum miðjum, en þessi 11 kílómetra löngu göng liggja undir fjallið fræga, Mont Blanc, á milli Alpahéraða Frakklands og Italíu. Göngin voru 34 ára gömul þegar þetta gerðist árið 1999.

Brunalykt 18 árum síðar

Þegar ég ók gegnum þessi sömu göng síðast hugsaði ég svo mikið um þennan hræðilega atburð að ég fann skyndilega megna brunalykt í bílnum. Vakti ég farþega minn sem steinsvaf í farþegasætinu og sagði mér að engin væri brunalyktin og fór svo aftur að sofa.

Blaðamannsnefið getur greinlega tekið upp á ýmsu!

image

Í dag eru göngin eins og hver önnur almennileg göng að sjá. Myndir/Wikimedia

Göngin breyttust í brennandi víti

Það er full ástæða til að rifja þetta upp, enda alltaf gagnlegt að huga að því sem betur má fara og læra af mistökum annarra í stað þess að þau endurtaki sig. Dýrkeyptum mistökum auðvitað því mannslíf er jú eitthvað sem ekki verður metið í krónum og aurum.

image

Miðvikudaginn 24. mars um klukkan 11 að morgni kviknaði í belgískum flutningabíl í göngunum sem var á leið til Ítalíu með hveiti og smjörlíki. Bílstjórinn náði að forða sér undan eldhafinu, auk nokkurra annarra bílstjóra en aðrir lokuðust inni og fór sem fór.

Það var orðalag sem vel rímar við hugmyndir manna um loga vítis því eldurinn magnaðist mjög á skömmum tíma og sem fyrr segir varð hitinn sennilega allt að 1000 gráður á celsíus. Það á við um göngin mið en við gangamunnann var hitinn um 300 gráður.  

image

„Asfaltið bráðnaði strax, hjólbarðar sprungu og gangaloftið hrundi niður,“ sagði í frétt Reuters sem birt var m.a. í Morgunblaðinu.

Erfiðar aðstæður

Vindáttin og reykþykkni útilokaði í fyrstu aðgang björgunarfólks að vettvangi frá franska enda ganganna, svo ekki sé minnst á hitann og þá staðreynd að loftið hafði hrunið niður.

Það tók sinn tíma að kæla niður veggina til að mögulegt væri að komast inn í göngin.

Tæpum mánuði síðar kom fram í bráðabirgðaskýrslu franskra yfirvalda að „ítalskur loftræstistokkur dældi lofti inn í göngin í stað þess að blása því út,“ sagði í Morgunblaðinu þann 20. apríl 1999.

image

Minnisvarði um þá sem létust í brunanum.

Hörmulegt slys, hvernig sem á það er litið. Tvær fjölskyldur fórust og svo einstaklingar sem dóu annað hvort inni í bílunum eða þegar reyndu í dauðans ofboði að flýja eldtungurnar.

Lokanir og réttarhöld

Svo aftur sé vísað í frétt Reuters þá sagði þar að göngin yrðu „lokuð í tvo mánuði að minnsta kosti og komið hafa fram kröfur um, að flutningabifreiðum verði bannað að fara um þau.“

Þegar undirrituð ætlaði að hætta sér gegnum göngin ógurlegu í desember 2000 var allt lokað. Tæpum tveimur árum eftir hryllinginn.

Göngin voru lokuð nokkuð lengur en búist hafði verið við en þau voru tekin í notkun á nýjan leik um þremur árum efrir brunann. Einhverjir dómar féllu árið 2005 vegna slyssins og á meðal þeirra sem dóm hlutu voru öryggisfulltrúar ganganna, bílstjórinn belgíski og nokkur fyrirtæki, ef marka má það sem segir á Wikipediu.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is