Það getur verið bölvað vesen að eiga 16 kærustur. Á sama tíma altsvo. Það veit Indverji nokkur fullvel. Hann „þurfti“ nefnilega að stela mjög mörgum bílum til að friða allar þessar kærustur og það reyndist líka ekkert annað en bölvað vesen.

Það varð í það minnsta vesen eftir að upp um allt komst.

image

Ljósmynd/Unsplash.com

Hann tók sér góða stund í að brjótast inn í bílana og dútlaði við það á morgnana þegar flestir voru steinsofandi. Maðurinn, sem heitir Robin (fullt nafn ekki gefið upp í fréttum), naut morgunkyrrðarinnar og vandaði valið á þeim eðalvögnum sem hann ætlaði að stela.

Enginn var asinn. Enda eigendurnir steinsofandi og til hvers að flýta sér þá? Núið maður! Að vera í núinu og njóta.  

image

Morgunstund... Ljósmynd/Unsplash.com

Gjafmildi þjófurinn

Eftir að Robin var gómaður gaf hann, þessi gjafmildi maður, sér m.a. tíma til að greina lögreglu í smáatriðum frá því hvernig hann fór að því að stela bílunum. Hann tók sér góðar 10 mínútur í að opna bílana.Maður með mikla reynslu í „faginu“ ætti auðvitað að vera sneggri að brjótast inn í bílana. Eða það hefði maður haldið. En nei, Robin nostraði við verkið og eflaust átti það sér góðar og gildar glæpaskýringar.  

Svo gætti hann þess, sköllóttur maðurinn, að vera með gott úrval af hárkollum við sína iðju. Ekki fer fagmaður að nota sömu hárkolluna tvisvar! Ekki frekar en maður myndi mæta í sömu múnderingunni í tvö teiti í röð. Það gerir maður ekki. Í það minnsta ekki menn með snefil af sjálfsvirðingu og sómakennd…

Jæja, fréttaflutningur af þessu máli var allur hinn undarlegasti. Það var nefnilega svo að Robin hafði bæði gaman af þessu umstangi í kringum bílastuldinn sem og að hann var nú að þessu, karlinn, til að friða kærusturnar 16. Hann gaf þeim bílana. Auðvitað. Hann var jú að stela þessum fínu bílum fyrir þær. Liggur það ekki í augum uppi?

image

Ljósmynd/Unsplash.com

Ekki kom fram hvernig eða hvenær hann var nappaður en það þarf kannski ekki mjög ríkulegt ímyndunarafl til að átta sig á að það hefur sennilega verið eina morgunstundina þar sem Robin var að dedúa við að opna einhvern harðlæstan bílinn á sama tíma og hann naut kyrrðarinnar. Þá hefur kyrrðin verið rofin af afskiptasömum vörðum laganna sem engan skilning hafa sýnt hugðarefnum Robins.

Tilveran getur verið trunta

Þess vegna mátti morgunhaninn Robin dúsa í steininum þar til síðsumars 2021. Þegar hann var látinn laus fór hann beint í að opna fleiri luktar dyr. Á eðalbílum. Án þess að nokkur bæði hann um.

Þessu tengt: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is