Þá er RallyNuts rallinu í Wales lokið og íslenski rallökumaðurinn stóð sig með prýði, ásamt breskum aðstoðarökumanni. Þeir urðu í fjórða sæti í sínum flokki og því ellefta yfir heildina. Gunnar Karl bætti tímann heilmikið frá síðustu keppni og í þokkabót vann hann enskan meistara!

image

Myndir/Jóhannes Gunnarsson

„Við byrjuðum mjög sterkir og vorum með tíunda besta tímann [yfir heildina] á fyrstu leið. Leiðirnar í morgun voru svolítið sleipar en þornuðu svo þegar leið á daginn. Við vorum á sömu sekúndunni og annað sætið í flokknum eftir fyrstu tvær leiðir. Svo duttum við niður í fjórða sætið, bara rétt svo, þarna eftir þriðju leiðina þannig að við stóðum í fjórða sæti í hádegishléinu,“ sagði Gunnar Karl.

Ánægður með bílinn eftir yfirhalningu

Eins og fram kom í viðtali við Gunnar Karl í gær þá hafði eitt og annað verið gert fyrir „Tíuna“, MMC EVO X, fyrir keppnina og sumarið. Það reyndist hin mesta lukka. „Bíllinn virkaði mikið betur en síðast, snérist mun betur í U-beygjum til dæmis og driflæsingin að aftan að virka alveg fyrir allan peninginn,“ sagði ökumaðurinn.

„Get samt sagt að ég hafi unnið breska meistarann!“

Eftir hádegishlé magnaðist spennan því þá fóru þeir Gunnar Karl og George Gwynn að aka af meiri grimmd, ef svo má segja. „En við töpuðum samt tíma á fyrstu tveimur leiðunum [SS4 og SS5]. Töpuðum held ég fjórum sekúndum í hvorri ferð og bilið í bílinn á undan [sem var í þriðja sætinu] komið í 14 sekúndur fyrir síðustu leið. Af því við vorum með gott bil í bílinn sem var á eftir okkur, ákváðum við bara að keyra þetta heim, síðustu leið.“

image

Service-liðið á fullu!

„Það er gaman að segja frá því að bíllinn sem var á eftir okkur, sem varð í tólfta sæti [yfir heildina], var enginn annar en breski meistarinn Matt Edwards. Það var mjög gaman að vinna hann en við þurfum auðvitað að segja frá því að hann var á Fiat 131 sem er gamall afturdrifsbíll og ekki samkeppnishæfur. En ég get samt sagt að ég hafi unnið breska meistarann!“ sagði Gunnar Karl og hló.

image

„Þetta var súper-skemmtilegt rall, George Gwynn var mjög ánægður og allir strákarnir í service mjög ánægðir. Þeir voru að segja að miðað við Russ Thompson sem vann flokkinn og vann hann held ég líka í fyrra, þá var ég búinn að bæta mig um mínútu, miðað við hann frá því í fyrra. Það er klárlega góð bæting,“ sagði ökumaðurinn Gunnar Karl Jóhannesson að lokum.

Það er engin spurning að það er frábært að bæta sig um heila mínútu og með þessu áframhaldi ætti að styttast í að okkar maður standi á palli!

Rétt er að geta þess að eins og kom fram í viðtalinu í gær var planið að vera á undan Ian Joel. Joel féll reyndar úr keppni eftir tvær sérleiðir en Gunnar Karl var með mun betri tíma en keppinauturinn á þessum fyrstu tveimur leiðum.

Tengdar greinar: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is