Það kemur sjaldnast fyrir þann sem á „spes“ bíl að hann rambi á alveg nákvæmlega eins bíl og reyni að komast inn í hann. Haldi að þetta sé sinn bíll og allt það. Þetta hefur þó komið fyrir en hér er saga af klaufalegum bílaruglingi sem ég á víst sök á.

Bílaskipti án útskýringa

Hins vegar vildi svo kjánalega til að ég gleymdi að segja eigandanum hvaða bíl við mæðgin vorum  á. Mjög klaufalegt þar sem við höfðum bílaskipti. Við fengum þennan líka einstaka DeLorean og eigandinn fékk hjá mér lykla að bíl sem hann hélt að væri sportleg og fagurrauð Honda Civic á bílastæðinu þar sem við höfðum mælt okkur mót. En í raun og veru var bíllinn ljótur og luralegur Seat Ibiza, dökkblár og bjánalegur í alla staði.  

image

Bíllinn sem við mæðgin „skiptum“ út fyrir DeLorean (bara um stundarsakir þó - því miður). Mynd/síminn minn

Þar sem ég ræsti undratækið og virti fyrir mér alla takkana sem mögulega gætu skotið okkur fram eða aftur í tímann sá ég út undan mér að maðurinn (eigandi DeLorean) var að bisa við að komast inn í bíl sem ég kunni ekki deili á.

Þá áttaði ég mig á eigin mistökum; elsku karlinn hafði ekki hugmynd um að hann ætti að taka ljóta bláa bílinn við hliðina á Civic-num. Alla jafna hefði maður kallað út um gluggann: „Æ, fyrirgefðu, það er víst bíllinn við hliðina,“ eða eitthvað í þá veru en nú voru góð ráð dýr!

Hvernig opnar maður svona bíl? Já, í snatri takk! Áður en þjófavörnin í rauðum Civic fer í gang eða eitthvað álíka. Í DeLorean var ekki að sjá í fljótu bragði hvernig „skrúfa“ ætti rúðuna niður. Eða ætti ég að segja upp? Því þetta eru jú alveg spes „gull wing“ hurðir sem opnast upp í loft.

image

Þarna var ég búin að læra á „vænginn“ á þessum magnaða bíl. Grein um ökuferðina birtist von bráðar. Ljósmynd/Malín Brand

Þá var ekkert annað í stöðunni en að opna „vænginn“ í allri sinni dýrð. Hvernig opnar maður þetta eiginlega? Í spenningnum hafði ég að sjálfsögðu ekkert velt því fyrir mér þegar ég settist inn í bílinn. En nei, það þurfti að gerast strax og það gerðist ekki. Ekki strax. Bara eftir dálitla stund.

Það var nú hægara sagt en gert að losa beltið og stíga upp úr bílnum - maður situr nefnilega alveg hrikalega lágt. Og hvað? Jú, ég hrópaði á manninn í gegnum V6 dyninn frá sjálfri tímavélinni. Það tókst að lokum og ég dauðskammaðist mín auðvitað.

Maður getur greinilega ekki alltaf verið töff. Þó maður sé á mjög töff bíl.

Forsíðumynd: Óðinn Kári

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is