Sagan segir að fyrsti páfabíllinn hafi komið til af því að páfi hafi fengið hálfgerða sjóriðu af að vera borinn í burðarstól á öxlum fólks. Hvernig sem það nú var þá er ótrúlegur fjöldi páfabíla til og margir æði undarlegir.

image

Þetta getur varla hafa verið þægilegt. Skjáskot/YouTube

„Popemobile“ eða páfabíll er orðið sem hefur verið notað síðustu áratugina yfir farartæki sem flytur páfa þegar hann er í opinberum erindagjörðum. Fyrsti páfabíllinn er talinn hafa verið Fiat 525 samkvæmt The Washington Post. Var það árið 1929 sem hann rúllaði fyrst með páfa.

Förum ekki of djúpt í söguna að þessu sinni heldur verður stiklað á stóru.

image

Benedikt páfi XVI. í páfabíl af gerðinni Mercedes-Benz M-Class í São Paulo í Brasilíu árið 2007.

Til að sem flestir sjái

Páfabíllinn er hannaður með það í huga að fólk sjái páfann sem best en hann er iðulega umkringdur fólki. Þess vegna eru bílarnir flestir háir að aftan og minna jafnvel á pallbíl með ísskáp aftan á pallinum.

image

Frans páfi í Jeep JK-8 í Washington árið 2015.

Hönnun sumra bílanna miðast við að páfi geti staðið uppréttur í þeim en í öðrum situr hann hátt.

image

Fiat Campagnola

Númeraplötur páfabílanna bera stafina SCV og þar á eftir kemur tölustafur. SCV er skammstöfun fyrir Status Civitatis Vaticanae.

image

Árið 1982 voru tveir Range Rover páfabílar smíðaðir vegna Englandsheimsóknar páfa.

image

Mercedes-Benz er sú tegund sem oftast hefur gegnt hlutverki páfabíls.

Eftir morðtilræði árið 1981 (Jóhannes Páll páfi II. var skotmarkið) hefur skothelt gler verið „staðalbúnaður“ páfabíla, ef svo má að orði komast.

image

Fiat Campagnola, bíllinn sem páfi var í þegar morðtilraun var gerð. Það var í maí árið 1981 og slasaðist páfinn alvarlega. Bíllinn er varðveittur á safni í Vatíkaninu.

image

SEAT Panda sem páfi ferðaðist um í þegar hann fór í heimsókn til Spánar síðla árs 1982.

Jóhannes Páll páfi II. fór árið 2002 fram á að fjölmiðlar hættu að kalla ökutækið „Popemobile“ því það væri ósæmilegt og í raun vanvirðing. Það heiti hefur þó verið notað síðan á áttunda áratug síðustu aldar og er enn notað.

image

Páfabíll af gerðinni Ford Ranger XLT var notaður í heimsókn páfa til Panama árið 2019.

Frans páfi hefur kallað páfabílinn sardínudós úr gleri en fáir páfar hafa haft eins margar tegundir bíla til umráða og Frans. Ætli hann sé bílaáhugapáfi?

image

Árið 2019 einkenndist af afskaplega mörgum tegundum páfabíla. Dacia Duster og Kia Soul voru á meðal bílanna.

image

Í Tacloban á Filippseyjum árið 2015. Hér er Kia páfabíllinn en eitthvað er skothelda glerið plastpokalegt að sjá.

Bílaframleiðendur hafa margir hverjir smíðað bíl fyrir páfa þegar hann kemur í opinbera heimsókn til landa sem framleiða bíla. Til dæmis má nefna Toyotu í Japansheimsókn og Dacia í Rúmeníuheimsókn.

image

Þegar páfi fór til Tælands árið 2019 ferðaðist hann um á pallbíl frá Nissan sem smíðaður var á svæðinu. Þar var líka smíðaður þessi fíni páfagolfbíll sem hlýtur að teljast frekar óvanalegt.

Þessu tengt:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is