Þar sem önnur kynslóð þótti betri

Það hefur alveg verið álitamál hvort nýjar kynslóðir bíla séu betri en þær eldri. Vefurinn Retro Motor hefur tekið saman bíltegundir sem þykja hafa batnað með tilkomu annarar kynslóðar.

Sjáið til dæmis hvernig Golfinn þróaðist, Toyota Corolla og Ford Escort. Eini bíllinn af umræddum bílum hefur haldið sérstöðu sinni allan tímann – það er Golfinn. Allavega heitir bíllinn það sama og í upphafi.

Skoðum nokkra bíla þar sem önnur kynslóð var talin mun betri en sú fyrsta.

Ford Cortina Mk2

image

Slagorð Ford vegna annarar kynslóðar Cortina var, „ný Cortina, betri Cortina”. Ford hafði gert talsverðar endurbætur á Cortinunni. Vélarnar voru fleiri og öflugri, meira rými, stærri gluggar, stærra skott og meiri lúxus. Allt átti þetta að gefa til kynna að bílkaupandinn fengi meira fyrir peninginn. Hins vegar er álitamál hvort önnur kynslóð Cortina hafi verið eins falleg og sú fyrsta en þetta nýja útlit lagði grunninn að fjölskyldubílum Ford út áttunda áratuginn.

Opel Astra Mk2

image

Fyrsta Astran (seldur sem Vauxhall í Bretlandi) var ansi vel heppnaður bíll. Hann seldist vel og var viðspyrnan sem Opel þurfti til að verða verðugur keppninautur Ford. Önnur kynslóð Opel Astra gerði gott betur, þökk sé velheppnuðum kúptum línum bílsins sem þótti flott hönnun á níunda áratugnum. Kaupendum þóttu þeir vera að fá mikið fyrir aurinn. Opel Astra var valinn bíll ársins árið 1985 en hann kom í þónokkrum útfærslum s.s. sem skutbíll, fimm dyra, fjögurra dyra, GTE og GTE 16V.

Volkswagen Polo Mk2

image

Fyrsti Poloinn var hannaður af Bertogne hinum franska en hann þótti verulega vel heppnaður smábíll þegar hann kom fyrst. Hann var líka fyrsti bíllinn sem Volkswagen kom með á markaðinn í flokki smábíla en þeir höfðu ekkert sérstaklega mikla reynslu í þessum flokki. Önnur kynslóð Polo var eins konar hálfur skutbíll (breadvan) og var óumdeilanlega mjög nýtískulegur. Hann hafði lágan loftstuðul eða um 0,39  og var boðinn fimm dyra, þriggja dyra og í ansi sportlegri útgáfu sem kölluð var G40.

Seat Ibiza Mk2

image

Seat er ein mesta drusla sem undirritaður hefur átt. Hann var samt nokkuð flottur í útliti og fyrsta útgáfan skar sig úr hvað það varðar, enda komu nöfn eins og Giugiaro við sögu hönnunarinnar en hún var með með dassi af Karmann og Porsche. Önnur kynslóð þess bíls var hins vegar allt annar bíll enda voru Volkswagen menn komnir í spilið. Byggður á sama grunni og Polo en með mun mýkri línum.

Jaguar Mk2

image

Jaguar þótti með flottari bílum sjöunda áratugarins. Þær breytingar sem urðu á annarri kynslóð Jaguar í kringum 1960 voru án efa stærstu umbætur sem gerðar höfðu verið á Jaguar á milli kynslóða. Nánast algjörlega nýtt útlit. Blaðaumfjallanir frá þessu tímabili varpa berlega ljósi á sannleikskorn um breyttan og miklu betri Jaguar. Umfangsmiklar breytingar bæði á innra og ytra rými gerðu þennan nýja Jaguar enn betri.

Honda Civic Mk2

image

Honda Civic var hinn raunverulegi „game changer” fyrir Honda og settu þá á kortið sem bílaframleiðendur. Þrátt fyrir gífurlegar vinsældir fyrstu kynslóðar bílsins var sú nýja lengri, breiðari og plássmeiri en forverinn.

Ford Escort Mk2

image

Það var ekki auðvelt að búa til bíl sem hafði náð þeim vinsældum sem fyrsta kynslóðin naut. Escort sló í gegn árið 1968 og seldist í meira en milljón eintökum. Önnur kynslóð bílsins leit dagsins ljós árið 1975 og fékk umbætur sem eftir var tekið. Klassíska „kók flösku” lag bílsins var horfið en sá nýi var kantaðri. Þrátt fyrir að vera nánast sömu stærðar og sá gamli var hann mun hagkvæmari í rekstri enda búið að sníða af honum marga vankanta gamla bílsins.

Honda Prelude Mk2

image

Hver man ekki eftir þessum eðalvagni. Ótrúleg breyting frá fyrri kynslóð sem þótti reyndar afspyrnu flott. Hann var stærri, kraftmeiri, skemmtilegri í akstri og með samlokuljósum og ABS bremsubúnaði. Hann var pakkaður af nýrri og flottri tækni sem Honda var leiðandi í á tímabilinu. Aldeilis flottur bíll og á óskalistanum hjá mörgum.

Heimild: retromotor.co.uk og Wikipedia

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is