Bretar komnir með delluna

Nú eru Bretar orðnir verulega róttækir í öllu því sem viðkemur „Monster Trucks“. Um síðustu helgi var mikið húllumhæ á UK Monster Truck Nationals sem fram fór í Northamptonskíri og er sá viðburður orðinn svo vinsæll að svartamarkaðsbrask er í kringum miðasölu og ýmislegt reynt til að komast nær trukkunum.

Tebolli, kexkökur og Monster Truck!

image

Hér vantar eitthvað. Monster Truck stússið verður seint að ensku sporti eins og krikket en það er ljóst að hlunkatrukkar eiga vel upp á pallborðið þar ytra og eru þeir góð viðbót við krikket, te og golf, svo eitthvað sé nefnt. Mynd/Unsplash

Fenjaferlíkið og Loch Ness skrýmslið

Tony Dixon tók þetta „með trukki“ í orðsins fyllstu merkingu og keypti bílinn Swamp Thing frá Bandaríkjunum. Tony karlinn fékk delluna þegar hann var átta ára gamall og nú, 20 árum síðar og rosalega mörgum seðlum síðar er hann stoltur eigandi yfir 2000 hestafla maskínu. Maskínu sem er fjórar sekúndur frá 0 upp í 100 kílómetra hraða og er prýðisgóð til að stökkva yfir bíla, flugvélar, hjólhýsi og tjah, bara það sem má stökkva yfir.

image

Ólíkt Loch Ness skrýmslinu, eða Nessie eins og ormurinn sá langi er kallaður, þarf ekki að leita að Swamp Thing því það fer ekki framhjá neinum þegar þetta hlass er á ferðinni. Mynd/Unsplash

Það er ekki eins og „fenjaskepnan“ eða Swamp Thing sé eins og sá bíll var í Bandaríkjunum. Nei, aldeilis ekki. Það er nokkur munur:

image

Swamp Thing þegar hann var lítill, árið 2003. Mynd/MonstertruckWiki

image

Nú er hann orðinn stór. Svo stór reyndar að hann telst með þeim stærstu.  Mynd/Swampthing4x4.co.uk

Tony er búinn að verja rúmlega 40 milljónum króna í að breyta bílnum og þó að hver bíltúr hrifsi allar fyllingar úr tannviðgerðum í skoltinum á karli þá er hann hrikalega ánægður með að eiga heiðurinn að því sem er orðið meira skrýmsli en sjálf Nessie, þ.e. Loch Ness skrýmslið.

Bíllinn er rúmlega þrír og hálfur metri á hæðina og á slíku tæki má stökkva hátt. Enda stökk Tony voðalega á ferlíkinu um helgina eða 12.8 metra upp í loft!

Annað skrýmslatengt: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is