Örskömmu áður en söngvarinn Freddie Mercury dó, fékk hann að sjá bílaatriði úr myndinni Wayne´s World sem enn átti eftir að frumsýna en í atriðinu eru fjórir gaurar að syngja hástöfum Queenlagið Bohemian Rhapsody í AMC Pacer 1976.

image

Hljómsveitin The Queen. Mynd/Wikipedia

Freddie Mercury dó í nóvember 1991. Kvikmyndin Wayne´s World var frumsýnd um þremur mánuðum síðar eða á Valentínusardaginn, 14. febrúar, 1992. Samt sá  Mercury þetta frábæra bílaatriði með þeim Garth, Wayne (Dana Carvey og Mike Myers) og tveimur öðrum þar sem þeir eru á ferðinni í AMC Pacer 1976.

image

Þarna er hann! AMC Pacer '76. Myndir/Wikipedia

Já, þetta er bíltúr sem ég hefði alveg verið til í að vera með í. Reyndar hef ég hitt Mike Myers í orðsins fyllstu merkingu því ég HITTI hann svo harkalega að blessaður karlinn datt um koll, en það er önnur saga og tengist bílum sem betur fer ekki!

Nema hvað! Bíllinn er sem fyrr segir af gerðinni AMC Pacer frá árinu 1976 en eitt og annað hafði verið gert við þann bíl sem sést í myndinni; búið var að fjarlægja miðstöðina úr bílnum, bæta við glasahaldara, koma hátölurum fyrir aftur í, skipta um vél og skiptingu og ég veit ekki hvað og hvað.

image

Bíllinn sá kallaðist í myndinni (eða myndunum; það kom framhald árið 1993)  „The Mirthmobile“ sem mætti kannski þýða sem „kátínukerran“ eða „fjörfarið“ séu menn þannig þenkjandi. Eins og margar kvikmyndastjörnur átti þessi tiltekni bíll, þ.e. eintakið sjálft, erfitt uppdráttar eftir að hafa slegið í gegn og var bíllinn vanræktur í 20 ár.

image

Þá sá einhver aumur á honum, gerði bílinn upp og gerði hann sem líkastan bílnum eins og hann var í myndinni. Þetta tókst vel og var „The Mirthmobile“ seldur á uppboði í Las Vegas árið 2016 fyrir 37.000 dollara eða rúmar fimm milljónir króna.

Upprisa Queen og andlát Mercury

Víkur nú sögunni aftur að sjálfum Freddie Mercury, söngvara Queen og lagahöfundi með meiru. Hann náði því miður ekki að lifa nógu lengi til að sjá hversu jákvæð áhrif bílaatriðið í Wayne´s World hafði á Queen.

May horfði á upptökuna af atriðinu (sem er hér fyrir neðan) og ákvað að sýna Freddie Mercury það. Sá síðarnefndi var þá orðinn mjög veikur af alnæmi (AIDS). Freddie Mercury algjörlega „dýrkaði“ þetta atriði!

May sagði í viðtali: „Eins sérkennilegt og það kann að virðast þá var þessi húmor algjörlega á pari við húmorinn okkar og þetta var nákvæmlega eitthvað sem við gerðum sjálfir; hoppandi og skoppandi í bíl syngjandi okkar eigin lög.“

image

Fárveikur var söngvarinn uppi í rúmi þegar May setti spóluna í tækið og ótrúlegt en satt byrjaði hann að brosa og svo þróaðist brosið yfir í hlátur. „Hann bara hló og hló,“ sagði May í viðtali. Svo mun Mercury hafa sagt: „Já, þetta er nú alveg dásamlegt.“

Þar er ég svo sammála! Dásamlegt bílaatriði og mikil gleði og gaman í „kátínukerrunni“ og gleðin gerði Queen mjög gott á erfiðum tíma.

Hér, lesendur góðir, er þetta bílaatriði:

Annað og fleira um bíla og bíómyndir: 

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is