Elísabet drottning og bílarnir

Elísabet II Bretadrottning var lögð til hinstu hvílu í dag. Heimsbyggðin hefur fylgst með útförinni og milljónir vottað drottningu virðingu sína. Eins og skrifað hefur verið um hér á Bílabloggi var drottningin ekki aðeins mjög áhugasöm um bíla og akstur heldur bjó hún yfir þekkingu og reynslu; hún var nefnilega bifvélavirki í lok seinni heimsstyrjaldar! Það var eitt af því sem hún lærði þegar hún gegndi herþjónustu.

Breskir bílar voru, eðli máls samkvæmt, í miklu uppáhaldi hjá drottningunni og þurftu þeir ekki að vera af nýjustu gerð. Rover, Jaguar, Rolls-Royce, Aston Martin... Já, lítum nánar á bílana sem komu við sögu í lífi Elísabetar drottningar.

Herþjónusta

image

Þegar hún var 18 ára, í febrúar 1945, gekk þáverandi prinsessa, Elísabet til liðs við Auxiliary Territorial Service, kvennadeild breska hersins. Í því hlutverki lærði hún hvernig á að þjónusta og viðhalda jeppum, vörubílum og sjúkrabílum; Ameríska Associated Press kallaði hana „Princess Auto Mechanic“. Greinin um bifvélavirkjann Elísabetu er hér.

Rolls-Royce

image

Fyrsti konunglegi Rolls eigandinn var ókrýndur Edward VIII, frændi drottningarinnar, en í aðalatriðum var Daimler valinn konunglegur bílaframleiðandi fyrir stríð. Hertoginn af Edinborg færði sambandið við Rolls upp um þrep þegar hann og eiginkona hans Elísabet prinsessa tóku við Rolls-Royce Phantom IV (í forgrunni hér) árið 1950. Sá bíll varð hátíðarfarartæki þeirra í nokkur ár eftir að Elísabet prinsessa varð drottning árið 1952. Bíllinn er enn notaður, en bara við sérstök tækifæri.

Land Rover Series I

image

Eins og við munum sjá hafði drottningin dálæti á Land Rover og notaði hún þá bæði við tómstundaiðkun og við hátíðleg skyldustörf, eins og í þessari heimsókn til Möltu árið 1954, árið eftir krýningu hennar. Ástsælum föður drottningarinnar, George VI konungi, hafði verið afhentur hundraðasti Land Roverinn af framleiðslulínunni árið 1948.

Renault Dauphine

image

Bílar innan konungsfjölskyldunnar voru ekki bara Rolls-Royce og aðrir lúxusbílar. Einn af fyrstu bílunum sem langafi drottningar, Edward VII konungur, keypti var Renault – 14/20 hestafla Landaulette, sem hann gaf eiginkonu sinni, Alexöndru drottningu árið 1904.

Franska fyrirtækið hélt áfram að reisa verksmiðju í Acton, vestur í London, á stað þar sem áður var flugvöllur, árið 1926. Árið 1957, eins og sést á þessari mynd, færði Renault drottningunni að gjöf þennan Acton-smíðaða Dauphine.

Karl Bretaprins lærði að aka einmitt þessum bíl og má kannski segja að þar hafi bílaáhuginn kviknað hjá hinum nýja konungi Breta sem hefur sjálfur átt fjölda áhugaverðra farartækja.

Rolls-Royce Silver Wraith LWB

image

Drottningin og hertoginn af Edinborg heimsóttu Nígeríu í fyrsta sinn í febrúar 1956 og var þeim oft ekið í þessum glæsilega 1952 Rolls-Royce Silver Wraith LWB. Bíllinn var í eigu emírsins frá Kano, Alhaji Mohammed Sanusi I.

Daimler Conquest

image

Þessi mynd er tekin árið 1957 þegar drottningin sótti Royal Ascot veðreiðarnar í fylgd með börnum sínum Charles Bretaprins og Anne prinsessu í Daimler drottningar.

Drottningin hafði ekki bara ánægju af hestöflum því hún hafði líka yndi af hestum og kappreiðum. Hestarnir hennar sigruðu á Royal Ascot nokkrum sinnum - svo nýlega sem árið 2020 - og hún sótti viðburðinn á hverju ári í 70 ár. Vegna heilsubrests árið 2022 missti hún af veðreiðunum og þótti henni það miður.

Land Rover Series I   

image

Land Rover hefur skipað sérstakan sess hjá konungsfjölskyldunni og átti Elísabet hinar ýmsu gerðir bílsins síðustu áratugina. Þessi tiltekni Land Rover (á myndinni að ofan til vinstri) tilheyrir hins vegar konunglega sjóhernum, þar sem við sjáum drottninguna og hertogann af Edinborg um borð í flugmóðurskipinu HMS Albion árið 1957.

Vauxhall PA Cresta Friary Estate

image

Að öllum líkindum var þetta einn af uppáhaldsbílum drottningarinnar, 1961 Vauxhall Cresta 'MYT1'. Hún ók bílnum reglulega og án efa kunnað að meta plássið aftur í fyrir Corgi hundana sína.

Talið er að hertoginn af Edinborg hafi pantað númeraplötuna sérstaklega, sumir segja að þar hafi húmorinn ráðið ferð en nákvæm merking er óþekkt svona opinberlega.

Þann 13. september 2022 var kistu drottningarinnar flogið frá Edinborg til RAF Northolt í RAF C-17 flutningaflugvél, og mætt með nýjum Jaguar líkbíl, að því er virðist sérstaklega smíðað eintak af Jaguar Land Rover í samvinnu við konungsfjölskylduna og eftir óskum drottningar. Á eftir líkbílnum var ný gerð af Range Rover L460 (Mk5), nú með MYT1 númeraplötuna og með Princess Royal, Princess Anne, og eiginmanni hennar aðstoðaraðmíráls Sir Tim Laurence.

image

Aston Martin verksmiðjan

image

Þjálfun drottningarinnar á stríðstímum leiddi til þess að hún sýndi ekki bara bílum mikinn áhuga heldur einnig hvernig þeir virkuðu og voru smíðaðir og hún heimsótti margar bílaverksmiðjur í gegnum tíðina. Hér má sjá hana á ferð um Aston Martin Lagonda verksmiðjuna í Newport Pagnell í apríl 1966.

Fyrirtækið afhenti henni, við þetta tækifæri, lítinn DB5 sportbíl að gjöf handa sex ára syni hennar Andrew prins; bíllinn var knúinn af tveimur 12 volta rafhlöðum með 16 km hámarkshraða. Árið 1969 valdi drottningin DB6 Volante (í fullri stærð) til að gefa Karli Bretaprins á 21. árs afmælinu hans.

Þann 29. apríl 2011 birtist bíllinn óvænt í akstri upp Mall fyrir utan Buckingham-höll, ekið af Vilhjálmi prins og eiginkonunni Kate, hertogaynju af Cambridge, á brúðkaupsdegi þeirra.

Land Rover Series IIa

image

Drottningin og prinsarnir Edward og Andrew fylgjast með íþróttamóti um 1972.

Rover P5

image

Drottningin átti nokkra V8-knúna P5, þar á meðal þennan 1971 P5B, sem nú er varðveittur á British Motor Museum í Gaydon. Þessi gerð var einnig notuð af breskum forsætisráðherrum á tímabilinu, þar á meðal í mörg ár eftir að framleiðslu á bílnum var hætt árið 1973.

Range Rover

image

Range Rover kom til sögunnar árið 1970 og varð bíll af þeirri gerð fljótlega fyrir valinu hjá konungsfjölskyldunni og notaður í þjónustu hennar hátignar.

image

Drottningin kunni vel við Range Roverinn - líka í frítímanum fjarri skyldustörfum.

Jaguar XJ

image

Jaguar bílar voru líka notaðir við hátíðlegar tilefni, eins og þessi sérbreytti XJ-fólksbíll sem má sjá hér í konunglegri ferð til Máritíus árið 1972.

Citroën Chapron SM Presidentielle  

image

Drottningin var mjög hrifin af Frakklandi og frönsku þjóðinni og heimsótti landið oft ýmist í embættiserindum eða einkaerindum. Hér sjáum við hana í félagsskap Pompidou forseta. Forsetinn hafði pantað frá vagnasmiðnum Chapron tvo sérbreytta fjögurra dyra opna SM-bíla fyrir hátíðleg tilefni, og var annar þeirra notaður í fyrsta skipti í ríkisheimsókn drottningarinnar til landsins í maí 1972.

Drottningin ferðaðist til dæmis á þeim bíl í opinberri heimsókn til Frakklands í apríl 2004, þegar hún horfði á hermenn á Champs-Élysées með Chirac forseta í París í tilefni af 100 ára afmæli Entente Cordiale bandalagsins milli þjóðanna tveggja.

Daimler Super V8 LWB

image

Jaguar og Land Rover voru systurfyrirtæki frá 1968 til 1984, og aftur frá 2000 til dagsins í dag. Drottningin hafði líka gaman af bílum þess fyrrnefnda, en hún átti Daimler V8 LWB saloon (smíðaður af Jaguar) upp úr aldamótum.

Drottningin fékk breskan Daimler V8 LWB sumarið 2001. Hann var aðallega notaður sem snattari fyrir drottninguna til að ferðast um og í kringum Windsor og fyrir ferðir milli kastalans og Buckingham-hallar. Bílnum var ekið um 175.000 km á 12 árum.

Bíllinn var ekki alveg eins og aðrir af sömu gerð því gerðar höfðu verið fáeinar breytingar á honum: Í bílnum var til dæmis hanki eða haldari fyrir handtösku drottningarinnar og fleira sem kannski má telja til smáatriða. En smáatriði geta sannarlega verið skemmtileg! Bíllinn var seldur fyrir 45.000 pund árið 2013.

Bentley State eðalvagn

image

Breski bílaiðnaðurinn mat mikils stuðning drottningarinnar mjög stoltur af þeim stuðningi sem drottningin veitti honum sem og að hún skyldi velja breska bíla til einkanita eða til notkunar á opinberum vettvangi

Jaguar Land Rover verksmiðjan

image

Drottningin opnaði nýja vélaverksmiðju sem Jaguar Land Rover stofnaði í Wolverhampton árið 2014. Hér að ofan má sjá þáverandi forstjóra fyrirtækisins, Dr Ralf Speth, sýna drottningunni úrvalið af Ingenium vélum fyrirtækisins.

Range Rover L405

image

Drottningin aftur með Dr Speth að skoða L405 Range Rover (Mk4) árið 2014. Brosið á andliti hennar sýnir að hún var vel með á nótunum þegar kom að því að prófa nýjan bíl. JLR hlaut Queen's Award fyrir fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum það ár fyrir útflutning.

BAC verksmiðjan

image

Breska fyrirtækið BAC fékk drottninguna í heimsókn í Exhibition Centre í Liverpool árið 2016; BAC framleiðir hinn merkilega einssætis Mono sportbíl sem er aðeins 580 kg að þyngd. Hún lýsti yfir ánægju sinni og stolti við forstjóra BAC með að sjá bíl sem var svo öðruvísi og bæði hannaður og smíðaður í Bretlandi. Fyrirtækið færði henni líkan af bílnum sem nú er í Konunglega safninu.

Range Rover LWB Landaulet

image

Range Rover var mikið notaður við hátíðleg tækifæri af drottningunni og hertoganum af Edinborg undanfarin ár, eins og hér, árið 2016. Royal Standard var áberandi á sínum stað, eins og alltaf.

(byggt á greinum á Autocar og fleiri vefsíðum)

Þessu tengt: 

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is