Rokk og ról á Árbæjarsafni

Árbæjarsafnið sló til rokk og ról hátíðar síðastliðinn sunnudag með yfirbragði sjötta og sjöunda áratugar síðustu aldar. Spiluð var tónlist frá þeim tíma og bílar frá félögum í Fornbílaklúbbi Íslands glöddu gesti safnsins sem voru óvenju margir. Það er greinilega mikill áhugi á sýningum sem þessum, enda eru þessir horfnu áratugir skemmtilegir að margra mati. Fornbílar frá þessum tíma voru í miklu aðalhlutverki, þó aðrir bílar væru einnig til sýnis og prýddu grasvelli safnsins.

Meðfylgjandi myndir tala sínu máli.

image

Það voru nokkrir eðalfornbílar samankomnir á torginu. Talið frá hægri: Buick Special ´56, tveir Ford Galaxie frá 1962 og fyrir aftan þá Mercedes-Benz 180 árgerð 1959. Lengst til vinstri sést í baksvipinn á Chevrolet Bel Air ´54.

image

Hinn kraftmikli Plymouth Belvedere ´67 lét sig ekki vanta og bakvið hann sést í Buick ´63.

image

Þessir tveir fremstu passa vel við anda sýningarinnar. Hér má sjá stórglæsilegan Dodge Custom Royal ´58 til hægri og við hlið hans Ford Fairlane ´59. Bakvið þá er Volvo 142 árgerð 1972 sem eigandinn keypti á ferðalagi sínu um Svíþjóð fyrir rúmum áratug.

image

Hér er fólk að virða fyrir sér grænan Rambler Classic árgerð 1965.

image

Hér er átta strokka Ford Bronco ´74 og við hlið hans Toyota Cressida ´89, sem segja má að hafi verið einn fjarstæðukenndasti bíllinn á sýningunni.

image

Með nýjustu Hod-Rodurunum á götunni er þessi vel uppgerði Ford ´46.

image

Til vinstri má sjá flottan tvílitan Oldsmobile 88 árgerð 1959 og við hlið hans Ford Galaxie ´67.

image

Þessi eldrauði Mercedes-Benz kúlunefur frá 1964 er dags daglega geymdur í bakgarði eigandans við gríðarlega hrifningu nágrannanna.

image

Gamall CJ-3 Willys-jeppi með blæju, ættaður frá Ísrael, er ávallt skemmtileg sjón, þó mörgum þyki húddið heldur háreist.

image

Fallegur og virðulegur Chevrolet Bel Air árgerð 1954.

image

Þessi rúmgóði smái en knái Mercedes-Benz 180 árgerð 1959 tók sig vel út innan um amerísku drekana.

image

Buick árgerð 1963.

image

Það alltaf gott að hafa kraftabíl séra Gunnars á svæðinu, ´67 Chevrolet Camaro, enda virðist fylgja honum einhver blessun.

image

Starfsmenn og gestir safnsins klæddust viðeigandi klæðnaði frá rokk og ról tímanum og hér má sjá nokkra þeirra stilla sér upp fyrir framan aðalbíl dagsins.

image

Það virtust engin bönd halda gestunum og ruddust þeir inn í sýningabílana án þess að spyrja kóng eða prest. Það var annað hvort að læsa bílunum eða láta gott heita, enda erfitt að neita stúlkum eins og þessum um aðgang.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is