Nokkur „fræg“ ökuskírteini

Sumir safna númeraplötum, aðrir frímerkjum, enn aðrir punktum „á ökuskírteinið“ og svo eru þeir til sem safna ökuskírteinum. Ökuskírteinum fræga fólksins. Þau hafa nefnilega nokkur ratað á uppboð en oftast er um að ræða skírteini látinna einstaklinga þó dæmi séu til um hið gagnstæða.

image

Undirrituð var að skoða skírteini (á veraldarvefnum sko) sem Steve McQueen hafði átt. Það var boðið upp hjá Bonhams árið 2009. Hugsaði ég með mér að það hlyti að vera með dýrari skírteinum sem seld hafa verið en það fór á 42.700 dollara (rúmar 6.2 milljónir króna). Við nánari athugun kom í ljós að það var alveg hárrétt; með þeim dýrari en þó fann ég eitt sem seldist fyrir mun hærri upphæð!

image

Byrjum þó á nokkrum ökuskírteinum sem seldust fyrir lægri upphæðir en slatta þó!

Johnny Cash

image

Þetta skírteini fór ekki fyrir neitt klink heldur 4.480 dollara sem samsvarar um 650.000 íslenskum krónum.

O.J. Simpson

image

Aðeins 16 buðu í ökuskírteinið sem var gefið út árið 2000 og fór það  á 1.501 bandaríkjadal sem eru um það bil 220.000 krónur.

Frank Sinatra

image

Fyrsta ökuskírteini söngvarans var selt á uppboði árið 2014 fyrir 15.000 dollara. Það eru um 2.2 milljónir króna.

Jerry Lee Lewis

image

Skírteinið var selt á 2.187 dollara árið 2015. Það eru, ef mér skjátlast ekki, 320.000 krónur.

Wernher von Braun

image
image

Þetta bráðabirgðaskírteini eldflaugaverkfræðingsins náði ekki almennilegu flugi þegar það var boðið upp árið 2017. Það var selt á 613 dollara eða um 31.000 krónur.

Alfred Hitchcock

image

Öllu hærri upphæð fékkst fyrir ökuskírteini Alfreds nokkurs Hitchcock árið 2008. Hæsta boð var 8.125 dollarar eða tæplega 2.2 milljónir króna.

Liberace

image

Ökuskírteini píanóleikarans margslungna, Liberace, seldist árið 1988 fyrir 4.188 dollara sem er kannski erfitt að segja hve mikið væri að núvirði en þetta hefur verið dágóð upphæð.

B.B. King

image

Skírteinið seldist haustið 2019 á 1.600 dollara eða um 230.000 krónur.

Charles Chaplin

image

Árið 2014 var skírteini Chaplins boðið upp og það var nú aldeilis skírteini eða heilar 40 síður! Hér eru tvær af þeim en skírteinið seldist á 4.800 dollara eða um 700.000 krónur.

image

John Wayne

image

Síðast er það skírteini sem fór á 89.625 dollara árið 2011. Það er skírteinið sem John Wayne átti og var gefið út árið 1977. Rúmlega 13 milljónir króna! Það er dágóð upphæð.

Annað tengt ökuskírteinum: 

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is