Í hvaða tilgangi taka menn bílpróf?

Auðvitað til að geta ekið bíl áfallalaust, án þess að slasa sjálfan sig eða aðra. Aukinheldur til að komast á milli staða, stunda vinnu, auka lífsgæði eða til að geta skroppið á gamla góða rúntinn og fengið sér einn með dýfu.

image

Árið 2019 var rúmlega 40% fall á bílprófum hjá þeim sem þreyttu prófið í fyrsta sinn. Gæti verið að það sé eitthvað að kennslunni?

Ótrúlegt fall

Árið 2019 var rúmlega 40% fall á bílprófum hjá þeim sem þreyttu prófið í fyrsta sinn. Þá veltir maður fyrir sér hvort kennslan sé svona léleg eða prófin of erfið? Nemandinn þarf auðvitað að kunna skil á efninu en hann greiðir fyrir hvert próf sem hann þreytir hjá einkafyrirtækinu Frumherja – jafnoft og hann tekur prófið. Það gjald er í dag rétt undir fimm þúsund krónum. Er þetta ekki bara gróðastarfsemi?

Tyrfin og ruglingsleg

Prófin eru þvælin og gerð með það fyrir augum að rugla nemandann. Þarf ökunemi virkilega að greina í þaula rétt ökumanns við mjög sérstök og einhliða skilyrði? Eru þau mál ekki á borði lögreglu?

Er þá ekki sanngjarnt?

Vegna ofangreinds legg ég til að ökukennarar þurfi að taka bóklega ökuprófið fjórum sinnum á ári til að halda sér í formi og geti þannig kennt nemendum sínum átakalaust við hverju er að búast við á skriflega prófinu.  Ekki fyndist mér heldur neitt fráleitt að ökukennari missti kennararéttindi við fyrsta umferðarlagabrot og þyrfti að þreyta próf áður en hann fengi réttindin aftur.

Er ekki kominn tími til að menn girði sig í brók þarna í ökuprófadeildinni og hætti að semja próf sem eru illleysanleg og fjandsamleg ökunemum? Auðvitað með öryggið á oddinum eins og áður.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is