Hversu oft á að skipta um tímareim?

Tennt gúmmíreim til að snúa tannhjólum kom fyrst fram 1940 en hún var fundin upp hjá fyrirtæki sem hét L. H. Gilmer Co. til að flytja orku í vefnaðarverksmiðjum. Gúmmíreimin tennta var ekki notuð í bílvél fyrr en 1955 þegar Devin Enterprises, sjá hér, notaði þær í vélar ýmist með einum yfirliggjandi kambás eða tveimur yfirliggjand kambásum. Þessar vélar voru notaðar í sérsmíðaðar kappakstursbifreiðar sem voru kallaðar Devin Panhard.

image

Brunamótorar í bílum eru flestir með kambás en hann opnar og lokar ventlum sem eru annars vegar sogventlar og hins vegar útblástursventlar.

Til þess að tryggja að ventlarnir opni á réttum tíma þá er kambásinn tengdur við sveifarásinn með tannhjólum (tímagír), tímakeðju eða tímareim. Sveifarásinn knýr tímareimina áfram og þar með allt sem tengist henni.

image

1) Tímareim 2) Leiðihjól 3) Vatnsdæla 4) Drifhjól á jafnvægisás 5) Strekkjari 6) Tannhjól á sveifarás 7)Tannhjól á kambásum

Af þessum þremur útfærslum þá hafa tímareimar skemmsta líftímann. En þær hafa þann kost að vera ódýrari en aðrar útfærslur, þær eru léttari og þær eru hljóðlátar.

Vélin verður sem sagt aðeins léttari, hljóðlátari, ódýrari í framleiðslu og jafnvel sparneytnari.

Sökum takmarkaðs líftíma þá þarf að skipta um tímareim reglulega. Bilið á milli reimaskipta er ákvarðað í árum eða eknum kílómetrum eftir því hvort kemur fyrst. Það skiptir líka máli við hvaða aðstæður bílnum er ekið en bílaframleiðendur tala um kjöraðstæður og krefjandi aðstæður.

Á Íslandi er bílum nær undatekningarlaust ekið við þær aðstæður sem eru skilgreindar sem krefjandi.

Því þarf að skipta örar um tímareimar hér en í flestum öðrum löndum. Sem dæmi þá á að skipta um tímareim á 120.000 km fresti við kjöraðstæður í ákveðnum bílmótorum en á 90.000 km fresti við krefjandi aðstæður. Ef þjónustubók bílsins er ekki tiltæk þá er oft hægt að tala við bílaverkstæði sem sérhæfa sig í tegundinni sem þú átt m.a. umboðsverkstæðin til að fá upplýsingar um hvenær þú þarft að láta skipta um tímareim.

Athugið að það geta verið tvær tímareimar á mótornum í bílnum, t.d. ef vélin er með tvo kambása eða mótorinn er V mótor.

Það er einnig vert að hafa í huga að líftími tímareimarinnar getur styst verulega ef vélin verður fyrir tjóni og ef það lekur kælivökvi eða olía inn í rýmið þar sem reimin er. Vatnsdælan getur líka bilað en hún er oft drifin áfram af tímareiminni. Líftími reimarinnar getur líka verið styttri ef það hefur verið skipt um tímareim og sett reim sem er í minni gæðum en upprunalega reimin.

En það borgar sig að kaupa vandaða vöru og rétta varahluti. Ef þú skiptir bara um reim þá gætir þú séð eftir því seinna. Flestir selja sett sem inniheldur reimina, strekkjarann, leiðihjól og jafnvel vatnsdælu ef hún er drifin áfram af reiminni.

En það á vel við um tímareimar að þar er hægt að spara aurinn og kasta krónunni. Ef þú dregur það að skipta um tímareim, kaupir ekki eða lætur ekki skipta um allt það sem þarf og lagar ekki allt sem þarf. Þá sparar þú tímabundið nokkra þúsundkalla en endar á því að greiða hundraðþúsundkalla í vélarviðgerð. En það er það sem gerist í mörgum nýrri bílvélum þegar reimin fer (slitnar eða tennur hreinsast af), eitthvað bognar eða brotnar þegar ventlarnir lenda í árekstri við stimpilkollana.

[Greinin birtist fyrst í maí 2020]

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is