Íslenskur bílaklúbbur varð heimsfrægur á níunda áratugnum og límmiðar með merki klúbbsins seldust „eins og heitar lummur“ erlendis. Klúbburinn Skynsemin ræður var stofnaður í gríni af manni sem sumir töldu „of fínan“ til að aka um á Trabant.

image

Það mætti kannski halda að hér væri eitthvert Trabant-maraþon þar sem sú tegund bifreiðar var til umfjöllunar í gær líka. Nei, þannig er það nú ekki, heldur vill bara svona Trabbalega til. Árið 1983, í júnímánuði, var haldinn stofnfundur félagsins eða öllu heldur klúbbsins Skynsemin ræður en það var klúbbur íslenskra Trabant-eigenda.

Klúbbur sem byrjaði sem hálfgert grín en það grín tók fljótlega óvænta stefnu!

Eins og að vera á hestbaki

Aðalhugsuður og stofnandi klúbbsins var Gunnar Bjarnason (1915-1998), búfræðingur og hrossaræktarráðunautur svo fátt eitt sé nefnt. Árið 1981 keypti hann  sér Trabant til að nota í vinnuna:

Að aka í þeim var eins og að vera á hestbaki.

Maður þurfti að vera vel vakandi í Trabantinum. Ég átti fyrir fínan átta cyl. sjálfskiptan Opel Diplomat sem maður ætlaði hreinlega að sofna í á ferð,“ sagði Gunnar í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst árið 1990.

Stríðni félaganna var allt sem þurfti

Stríddu vinnufélagar Gunnars honum töluvert vegna bifreiðakaupanna en það hafði síst neikvæð áhrif á Gunnar: „Ég stofnaði Trabantklúbbinn gagngert til að stríða vinum mínum sem fannst ég of fínn maður til að aka um á Trabant,“ sagði hann í sama viðtali og vísað var í hér að ofan.

image

„Snobblausir menn“ keyptu Trabant

Gunnar var ánægður með Trabant en þegar viðtalið var tekið voru þrjú ár síðan innflutningi tegundarinnar var hætt. Árið 1987 þótti nefnilega ljóst að Trabant myndi ekki standast nýja reglugerð, sem Bifreiðaeftirlitið hafði í bígerð á þeim tíma. .

„Þetta voru ágætis bílar. Þeir, sem keyptu Trabant, voru snobblausir menn, sem vildu heldur eyða peningum í að skemmta fjölskyldu sinni en að keyra um með látalátum og þykjast vera millabossar í Mercedez Benz af dýrustu gerð,“ sagði Gunnar stofnandi klúbbsins Skynsemin ræður.

Í hverju fólst skynsemin?

„Skynsemin gengur út á það að komast frá einum stað í annan fyrir sem minnstan pening. Ég álít að menn, sem vilja láta halda sig fína og mikilvæga í þjóðfélaginu, kaupi þessa dýru bíla og helst ef þeir geta látið fyrirtæki eða ríki borga. Einu sinni varð Alberti Guðmundssyni, þáverandi fjármálaráðherra, það á orði við mig að líklega gerði hann ekkert betra fyrir sína þjóð heldur en að senda alla bílstjórana í ráðuneytunum heim, selja alla dýru og fínu ráðherrabílana og fá þeim í hendur Trabanta til eigin afnota."

Skynsemin náði þó ekki alla leið inn til ráðuneytanna en óneitanlega skemmtileg hugmynd hjá fjármálaráðherra!

image

Engin skynsemi í þessu. „Porsche on vacation“ stendur hins vegar á honum þessum. Ljósmynd/Malín Brand

Þrír Trabbar kostuðu eins og einn japanskur bíll

Salan jókst víst verulega eftir stofnun klúbbsins; margir vildu eignast Trabant og sýna „skynsemina“ í verki. Skemmst er frá því að segja að þessi söluaukning á Íslandi gladdi hina austur-þýsku framleiðendur það mikið að á tuttugu ára afmæli umboðsins, árið 1983, komu þeir til Íslands.

„Gunnari var sem sagt afhentur nýr Trabant að gjöf ásamt árituðu heiðursskjali frá Trabant-verksmiðjunum,“ segir í Morgunblaðinu frá því í ágúst 1990.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Gunnar fékk heiðursskjalið og lyklana að þeim nýja árið 1983:

image

Myndin er tekin þegar forráðamaður Trabantverksmiðjunnar, Johann Knöcnel, afhenti Gunnari nýjan Trabant að gjöf árið 1983.

Límmiðar klúbbsins eftirsóttir í Austur-Þýskalandi

image

Fyrirsögnin í Tímanum 1989.

„Ég hef undanfarið fengið griðarlega mörg bréf þar sem verið er að biðja mig um þessa límmiða með áletruninni „Skynsemin ræður" og voru einkunnarorð samnefnds klúbbs. Ég er bara löngu búinn með þá sem voru hér í húsinu svo ég hef ekki getað sinnt þessu lengi. Ég hef verið að hugsa um að láta prenta miðana í haugum og senda út til að fá frið fyrir bréfaflóðinu," sagði framkvæmdastjóri Ingvars Helgasonar í samtali við blaðamann Tímans árið 1989.

image

Sælureitur hins skynsamlega Trabba. Ljósmynd/Malín Brand

Klúbbmeðlimir límdu miða með áletruninni Skynsemin ræður í afturrúður bíla sinna. Gríðarleg eftirspurn skapaðist eftir límmiðunum í Austur-Þýskalandi. Segir svo frá í Tímanum árið 1989:

„[...]  og fjölmargir Trabantar sem nú aka um austurþýska vegi og raunar um vesturþýska vegi - á undanþágu frá mengunarlögum bera þessa áletrun. Almennt er litið á þessa íslensku áletrun á Traböntunum sem mikilvægt frelsistákn beggja vegna hins nú marklausa járntjalds.“

Þessu tengt: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is