Elon Musk tekur sér hálfa mínútu til að skrifa eina setningu á Twitter og nær kannski athygli 70 milljóna manna. Á sama tíma verja aðrir rafbílaframleiðendur um 70 milljónum Bandaríkjadala í auglýsingar sem ná til 50-100 milljóna.

Tesla auglýsir ekki en aðrir auglýsa Tesla.

Í gær birtust dýrustu auglýsingar sem yfirhöfuð birtast í bandarísku sjónvarpi. Það eru auglýsingarnar í Super Bowl (þ.e. úrslitaleik NFL-deildarinnar í amerískum fótbolta) en útsendingin slær öll met þar vestra hvað áhorf snertir. Meira um það hér.

5 rafbílaauglýsingar í ár

Hið fræga auglýsingahlé Super Bowl er þrjátíu mínútna langt og kostar um 6 milljónir dollara að birta 30 sekúndna myndskeið. Rafbílaframleiðendur voru virkilega áberandi en fimm rafbílaauglýsingar birtust og var hver þeirra frá 30 sekúndum til 90 sekúndna. Það gera voðalega margar milljónir bara fyrir birtingu. Ótalinn er allur annar kostnaður og tími sem ein auglýsing útheimtir í öllu ferlinu.

GM auglýsti Hummer EV og Chevrolet Silverado (sem og allan flotann í einni langri), Polestar auglýsti Polestar 2, Kia EV6, Hyundai Ioniq 5 og BMW auglýsti iX. Allar auglýsingarnar má sjá neðst í þessari grein.

image

Úr auglýsingu BMW. Skjáskot/YouTube

Musk borgar ekki sent

Ekki eru forsendur til að reikna út hver kostnaðurinn var við auglýsingar rafbílanna í gær en sem fyrr segir eru það einhverjir tugir milljóna dollara. Allar auglýsingarnar eru mínúta hið minnsta nema Polestar sem skilaði sínu á hálfri mínútu.

Hvar er Tesla? Út um allt, jú, en ekki í auglýsingum. Tesla auglýsir ekki. Punktur.

Auglýsingar, í þeirri mynd sem við flest könnumst við, er eitthvað sem Elon Musk hefur aldrei kært sig um. Enda fara engir dollarar í slíkt stúss.

Must er með rétt tæplega 74 milljónir fylgjenda á Twitter og það er sama hvað hann skrifar þar, setur „like“ við eða birtir svo mikið sem einn broskall; heimurinn veit af því og á fáeinum sekúndum hafa mörg þúsund deilt hverju sem hann gerir.

Dæmið er hérna: Musk setti broskall (eða hvað sem svona kall vill heita) við færslu einhvers. Á 3 mínútum komu 1000 „like“ á þennan eina broskall. Hér er skjáskot af þessu:

image

Maðurinn, Sawyer Merritt, deildi skjáskoti úr auglýsingu Polestar. Þremur tímum síðar setti Musk tákn/sprellikarl við fæsluna og sjáið hvað gerðist á þremur mínútum!

Eitt „tíst“ á dag er veskinu í hag

Um daginn skrifaði hann óvenjulanga færslu. Hún var alveg hátt í tíu orð. jæja, kannski tuttugu. Hafði ekkert með bíla, geimferðir né nokkuð Tesla-SpaceX að gera.

image

Rúmlega hálf milljón „kann að meta“ þetta. Fjöldi hefur skrifað eitthvað við færsluna og yfir hundrað þúsund deilt henni. Og þúsundir deilt færslunni sem einhver deildi af færslunni o.s.frv.

Þetta veit Elon Musk. Hann er ekkert blávatn. Hann notar ekki peninga í auglýsingar.

Polestar kemur með hrossalátum á bandaríkjamarkað

Af þessum auglýsingum sem nefndar voru hér að ofan vakti engin viðlíka athygli og auglýsing Polestar. Twitter hafði varla undan við að spýta út nýjasta „tísti“ áhorfenda um auglýsinguna fyrir Polestar 2.

Framleiðandinn kynnti sig fyrir bandaríska markaðnum með því að varpa „sprengju“. Afsakið óheppilega samlíkingu í ljósi þess sem Bandaríkin eru að bardúsa þessa dagana. En hvað sem heimsmálunum líður þá er alveg ljóst að allir sem sáu auglýsingu Polestar í gær vita núna hvað Polestar er. Og líka fjöldi fólks sem ekki sá auglýsinguna.

Af hverju vakti auglýsingin svona mikla athygli og af hverju voru viðbrögðin svona svakaleg? Til að svara því er nauðsynlegt að sjá auglýsinguna sjálfa og hér er hún:

Og hver græðir mest?

Flestir hljóta að skilja auglýsinguna á þann veg að verið sé að skjóta á aðra rafbílaframleiðendur. Gefið er í skyn að „hinir“ séu ekki alveg sannir og fyllilega einbeittir í því sem þeir eru að gera.

Eftir stendur að Polestar kynnti sig rækilega á bandarískum markaði og hver fékk mesta athygli? Svei mér ef það var ekki veldi Elons Musk.

Tökum nokkur dæmi af Twitter frá því í gærkvöldi sem renna stoðum undir þetta:  

image

Skjáskot/Twitter

image
image

image

En af því að allir rafbílarnir á hleðslustöðinni eiga að vera vinir, þá eru hinar auglýsingarnar hér:

Silverado:

Stóra auglýsing GM fyrir flotann: 

iX:

EV6:

Ioniq 5:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is