Vörubílstjórum fækkar um 109 á degi hverjum í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að þeir falla á lyfjaprófi og eru því bókstaflega teknir úr umferð.

3.270 bílstjórar missa réttindin í hverjum mánuði

Á þeim 22 mánuðum sem liðnir eru frá því að eftirlit með fíkniakstri atvinnubílstjóra var aukið hafa rúmlega 72.000 bílstjórar glatað réttindunum. Þetta eru 3.270 bílstjórar á mánuði eða um 109 á dag, sé það sett upp þannig. Þetta eru svakalegar tölur!

image

Myndir/Unsplash

Frá þessu greindi blaðið New York Post í gær og er málið virkilega áhugavert því keðjuverkandi áhrif eru margvísleg.

Bílstjórar óskast!

Bandarískt efnahagslíf hefur breyst vegna fækkunar vörubílstjóra, segir í blaðinu. Einhverjir verða jú að koma vörunum á milli staða. Í mörg ár hefur virkilega vantað vörubílstjóra í Bandaríkjunum en nú er staðan verri en nokkru sinni. En um leið eykst umferðaröryggi þegar bjöllusauðirnir eru teknir úr umferð.  

Slembiathugun fer þá fram og hefur greinilega ekki verið vanþörf á fyrst svo margir hafa reynst rallhálfir eða allskakkir í vinnunni síðustu 22 mánuðina.

Hvar er maturinn og varningurinn?

Birgðakeðjur hafa víða lamast vegna þessa skorts á þar til bærum bílstjórum. Og bætist það við tafir og tregðu á vöruflutningum vegna heimsfaraldursins ljóta.

Hagfræði og allt svoleiðis er ekki eitt af mínum fjölmörgu áhugamálum en þó átta ég mig á að þetta vesen getur haft það í för með sér að ýmsar vörur hækka í verði. Blaðið kemur lítillega inn á það en engin dæmi eru tekin um verðhækkanir.

Maður nokkur sem heitir því ágæta nafni Chris Pappas, er einn viðmælenda New York Post. Hann er forstjóri Chef's Warehouse, fyrirtækis í Bronx, sem dreifir mat til fínna veitingahúsa um Bandaríkin þver og endilöng. Hann sagði m.a. að fyrirtækið hafi að undanförnu fengið fjölda umsókna frá umsækjendum „sem við viljum ráða en þeir standast ekki lyfjaprófin,“ sagði Pappas, sem vantar þúsund bílstjóra eins og sakir standa.

image

Einhvern veginn þarf allt góssið að komast á rétta staði.

Fjöldi umsækjenda sem Pappas hefur neyðst til að vísa frá vegna fíkniefnabrota „er nógu mikill til að það skaði starfsemina,“ sagði hann en fór ekki lengra út í þá sálma.

„Grasið“ er stóri vandinn

Það er ekki endilega þannig að menn séu angandi af áfengi við akstur heldur er það marijúana, eða gras, sem er stærsta breytan í þessu ölliu saman, samkvæmt grein New York Post. Notkun marijúana er leyfileg í 18 ríkjum Bandaríkjanna en efnið er engu að síður ólöglegt samkvæmt skilgreiningu yfirvalda. Sem sagt: það má brúka efnið í sumum ríkjum en ekki öðrum.  

56 prósent þeirra vörubílstjóra sem fallið hafa á lyfjaprófi mældust með marijúana, 18 prósent með amfetamín eða metamfetamín, 15 prósent með kókaín eða ópíóíðalyf og restin með önnur efni innanskrokks.

„Sumir halda því fram að þar sem marijúana geti mælst í líkamanum í allt að 30 daga eftir notkun þess, endurspegli próf ekki hvort einstaklingur hafi ekið undir áhrifum,“ segir í blaðinu en ekki er vitnað í neinn. Svona eru þessir blaðamenn stundum.  

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is