Fyrsta bílablaðið kom út á þessum degi fyrir 126 árum. Ótrúlegt en satt! „The Horseless age“ var eins konar leiðarvísir um hvernig ætti að skipta úr hestum yfir í hestöfl, ef svo má segja.

image

Engir hestar drógu þennan vagn! Mynd úr einu af fyrstu tölublöðum „The Horseless Age“.

Fyrsti nóvember árið 1895: Menn, sem eflaust virtust bilaðir í augum einhverra, gáfu út fyrsta tímaritið í Bandaríkjunum sem tileinkað var bifreiðinni. Hinu vélknúna farartæki, sem framúrstefnulega þenkjandi fólk, taldi að leysa myndi þarfasta þjóninn af hólmi. Í það minnsta í því hlutverki að koma mannfólkinu á milli staða. Hestakerran hafði lokið skeiði sínu.  

Þetta blað er raunar enn gefið út, sem ætti að gera það að elsta bílablaði í heimi. Komum að því eftir augnablik. Nafn blaðsins er þó breytt og það skilur maður svo sem ágætlega. Nafnið varð fljótt dálítið lummó og gamaldags.

image

Árið 1909, í júlímánuði, varð „The Horseless Age“ að „The Automobile“. Nafnið „Automotive Industries“ þótti hæfa betur og festist það í sessi árið 1917, með einni undantekningu þó! Í heimsstyrjöldinni síðari var nafninu breytt um stundarsakir og hét það „Automotive and Aviation Industries“ enda komu margir bílaframleiðendur að framleiðslu flugvéla og vel hægt að spyrða þessu saman.

image

Ekki hafa frekari nafnabreytingar orðið síðan seinna stríði lauk og „Automotive Industries“ heitir það enn.

Að vera fyrstur „í heimi“

Einhvern veginn þykir manni ótrúlegt að einungis hafi liðið um sólarhringur á milli útgáfu „fyrsta“ bílablaðs í heimi og þess næsta. En þannig virðist það nú samt vera.

image

Annan nóvember 1895 kom fyrsta eintak hins breska bílablaðs „The Autocar“ út. Það blað er enn gefið út og hefur smávægileg breyting orðið á nafninu frá upphafi. Nú heitir blaðið einfaldlega „Autocar“ og ætti það nafn ekki að vera lesendum Bílabloggs framandi.

image

Autocar hefur í gegnum tíðina verið ófeimið við að halda því á lofti að það sé „elsta bílablað í heimi“ en það mun væntanlega vera skilgreiningaratriði og hverfandi líkur á að einhver geti borið vitni um hvernig þetta var allt saman í byrjun nóvember árið 1895.

En góðu fréttirnar eru þær að ekki er rifist um hvort blaðið var á undan og aðalatriðið er að bæði bílablöðin eru hrikalega gömul og lifa enn!

image

Búir þú svo vel að eiga eintak af fyrsta tölublaði „The Horseless Age“ þá eru góðar líkur á að safnarar vilji greiða um 2000 dollara fyrir eintakið, hafir þú hug á að selja það. Erfiðara reyndist að finna virði fyrsta tölublaðs „The Autocar“ en það hlýtur að vera eftirsóknarvert!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is