Rafknúni sportjeppinn MG Marvel R er dýrari en grunnútgáfan af ID4

MG Marvel kemur á markað í Evrópu í þessum mánuði. Bretar munu þó þurfa að bíða eitthvað eftir útgáfu bílsins með stýrinu „réttum megin“ en Breski markaðurinn er ekki í forgangi þótt stærstur sé í álfunni.

MG í Kína hefur verðlagt Marvel R, nýjan rafknúinn sportjeppa, keppinaut Volkswagen ID4 og Skoda Enyaq, á 39.990 evrur (um 5,9 milljónir króna) í Evrópu.

Grunngerð Marvel R er dýrari en samsvarandi grunngerð VW ID4 Pure, sem kostar frá 37.415 evrum í Þýskalandi, en Marvel-bíllinn er með stærri 70 kílóvattstunda rafhlöðupakka öfugt við 52 kWh í grunnútgáfu ID4.

Marvel R-bíllinn, með vinstri handar stýri, fer í sölu á evrópskum markaði í þessum mánuði, sagði MG.

MG mun þó ekki strax bjóða upp á gerð með stýri hægra megin fyrir stærsta Evrópumarkað sinn, Bretland, en gæti það í framtíðinni, sagði Matt Lei forstjóri MG Europe við Automotive News Europe.

image

Dýrasta gerð Marvel R kemur með fjórhjóladrifi og þriðja rafmótor fyrir samanlagt afl 284 hestöfl. Stöðluð gerð með afturhjóladrifi. Tveggja mótora gerð getur ekið 402 km milli hleðslna, samkvæmt WLTP flokkun.

Búið að uppfæra MG ZS – kemur í nóvember

MG-vörumerkið, sem er í eigu SAIC, hefur einnig uppfært söluhæstu gerð sína, ZS rafdrifna litla sportjeppann, með endurhönnuðu grilli og lengra aksturssviði. Sá getur, með 70 kWh rafhlöðu, ekið 440 km á einni hleðslu, samkvæmt WLTP einkunn.

image

Staðlaða gerðin eykur stærð rafhlöðunnar úr 44,5 kWh í 51 kWh til að gefa WLTP drægni 320 km. Þessi andlitslyfta gerð MG fer í sölu í sýningarsölum meginlands Evrópu og Bretlands frá nóvember.

Uppfærð útgáfa af MG5 skutbílnum kemur í ársbyrjun 2022

MG mun einnig senda frá sér MG5, rafdrifna skutbílinn, í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi 2022. Verðið byrjar „undir 30.000 evrum“ (4,5 milljónum króna), sagði vörumerkið.

image

Bíllinn er uppfærð útgáfa af MG5 rafmagnsskutbílnum sem þegar er til sölu í Bretlandi en með endurnýjuðu útliti og tveimur rafhlöðuvalkostum; 61,1 kWh og 51 kWh.

„Kína hefur forskot á framleiðsluhliðinni og SAIC-fyrirtækið gerir allt sem það getur til að hjálpa okkur að útvega neytendum bíla hér í Evrópu,“ sagði forstjórinn.

MG sá söluna í Evrópu fara upp um 279 prósent, í 13.033 selda bíla, fyrstu átta mánuðina samkvæmt gögnum frá JATO Dynamics.

(byggt á frétt Automotive News Europe)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is