Formáli skrifaður í apríl 2022:

Í fyrrasumar virtist snekkjan A elta mig. Eða var það öfugt? Nei, við vorum bara á svipuðum slóðum en ég var samt uppi á landi en snekkjan ekki. Þá varð til grein (sem er hér fyrir neðan) um bílskúrana á snekkjunni.

Hér er greinin, gjörið svo vel:

Þessa dagana [maí 2021] er hin mikla snekkja A, eða „Sailing Yacht A“ eins og hún heitir fullu nafni, á Vestfjörðum. Þetta er stórmerkilegt far og gaman að góna á það. Undirrituð glápti alla vega góða stund og kom svo aftur til að horfa aðeins meira.

Bílskúrar snekkjunnar „A“

Að sjálfsögðu eru bílskúrar í snekkjunni. Það er víst ekki bara einn heldur fleiri, eftir því sem greint er frá í Boat International þar sem fjallað er um hönnun þessa siglingafræðilega meistaraverks.

Bílablaðamaðurinn varð eilítið spældur þegar í ljós kom að bílskúrarnir í „A“ virðast ekki fá að njóta sín sem skyldi.

Kannist þið, lesendur góðir, ekki við þá tilfinningu sem að manni setur með svo undarlegum hætti, þegar bílskúrar eru fullir af öllu öðru en bílum og verkfærum? Játa ég að viss depurð gerir vart við sig þegar dásamlegum bílskúr hefur verið breytt í stúdíóíbúð, fylltur af rusli eða hann notaður sem geymsla. Það þykir mér hreint út sagt bæði agalegt og bagalegt.

image

Þetta er án efa dýrasta apparat sem siglt hefur inn Dýrafjörðinn. Mynd/Malín Brand

Nóg um það! Bílskúrarnir í „A“ geyma fínar græjur, samkvæmt greinum þeim er lesnar voru á veraldarvefnum, en græjur þær eru hraðbátar og kafbátur. Hönnuður skipsins er maður að nafni Philippe Starck. Starck gerði sér lítið fyrir, fyrst hann var nú byrjaður á þessu, og hannaði hraðbátana líka. Þ.e. þá sem eru í „bílskúrnum“. Myndir af bátunum má sjá hér, neðarlega í umfjölluninni.

Reyndar kemur fram á síðu nokkurri, sem ég vil ekki vitna í (því hún er í sorpflokki) að  bílskúrarnir séu ætlaðir fjórum bílum. En hvað um það! Enga bíla sá undirrituð þegar einhver risahólf voru opin upp á gátt á „A“ en vonandi voru sportbílarnir þarna samt.

Þó færi það seint framhjá manni á Vestfjörðum ef ofurbílar á erlendum númerum færu eftir þvottabrettum þeim er íslenskir vegir nefnast.

image

Í þessum „bílskúr“ er einn af hraðbátunum sem Starck hannaði þegar hann var í stuði. Ætli Starck gæti hannað bíl í stíl við „A“? Það yrði áhugaverður bíll! Mynd/Malín Brand

Ekki vera púkó: Bílskúrssnekkjur til sölu

Svona vangaveltur leiða mann oftar en ekki á ævintýralegar slóðir; svonefndar vefslóðir. Til dæmis var undirrituð komin inn á stórskemmtilega og stórhættulega síðu þar sem til sölu eru snekkjur með grundvallaratriði nokkru um borð; bílskúr.

„Fullkomið ferðafrelsi í fríinu á snekkjunni

Sjáðu þetta fyrir fyrir þér: Þú leggur snekkjunni að bryggju í Mónakó, Herkúlesarbryggjunni sjálfri, og innan örfárra mínútna ekur þú þaðan í sportbílnum þínum. Þeysir eftir hinum frægu akbrautum Monte Carlo, nú eða um blómum prýtt landslag Provence-héraðsins. Þið sem njótið þess að ferðast um heimsins höf á lúxussnekkjum en hafið minni ánægju af því að leigja annars flokks bílaleigubíl á viðkomustöðum ykkar, þá er snekkja með bílskúr lausnin!“

Já, er það svona lyfturæða sem selur bílskúrssnekkjur? Auðvitað!

„Hey þú? Já, þú sem átt Bugatti, Maserati og alla skemmtilegu bílana! Ætlarðu í alvöru að fara að leigja þér einhvern annars flokks skrjóð í næstu höfn? Dööööh! Taktu bílana með í snekkjuna! Ekki vera lumma í Monte Carlo!“

„Kostir þess að eiga snekkju með bílskúr

Það þýðir að þú þarft aldrei að reiða þig á bílaleigur sem lána þér einhvern bíl sem er laus þá og þá stundina. Né heldur þarft þú að bíða óþolinmóður á þilfari snekkjunnar  eftir að starfsfólk bílaleigunnar drattist með bílinn til þín. Nei, þjónustufólkið þitt einfaldlega ekur bílnum úr skúrnum í snekkjunni og þú sleppur við þau leiðindi að þurfa að venjast einhverjum bíl sem þú hefur aldrei ekið áður - mögulega bílskrjóð sem er þér ekki samboðinn.“

Já já já! Snekkju- og bílskúrasalan Fraser er alveg með þetta. Og eftir að hafa horft á kynningarmyndbönd var ég alveg sannfærð: Mig vantar FLEIRI bílskúra. Það er bara þannig.

Auðvitað er hann með bílana sína með sér

Niðurstaða er komin í málið eftir þessar vangaveltur undirritaðrar:

Hinn rússneski auðmaður, Andrey Melnichenko, er auðvitað skynsamur maður. Annars ætti hann ekki snekkju með bílskúr. Afsakið: Bílskúrum!

Þar sem hann er skynsamur maður hefur hann vit á því að aka ekki sínum fínu glæsivögnum á rammíslenskum vegum. Þannig að sennilega hef ég haft hann fyrir rangri sök og hver veit nema hann finni vegarkafla í lagi á ferðalaginu um Ísland og láti einhvern „sækja einn bílinn í skúrinn“!

image
image
image
image

[Greinin birtist fyrst í maí 2021]

Fleiri öðruvísi bílskúrar og sögur af bílskúrum: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is