Bílasalan fer hægt af stað

    • Um 20% samdráttur miðað við sama tíma í fyrra
    • BL söluhæst bílaumboðanna

Þegar sölutölur nýrra bíla eru skoðaðar núna að loknum fyrsta mánuði ársins má sjá að sala á nýjum bílum fer hægt af stað, miðað við sama tímabil í fyrra, árið 2020.

BL er efst á lista yfir umboðin með 143 bíla selda til einstaklinga og fyrirtækja. Hekla er í öðru sæti með 119 selda bíla, Toyota í því þriðja með 109 bíla, Askja í fjórða sæti með 113 bíla og Brimborg með 99 bíla.

Önnur umboð fylgja þar á eftir með heldur færri bíla hvert.

image

Land Rover Defender hástökkvari BL í janúar

BL var að senda frá sér fréttatilkynningu um söluna núna í janúar:

image

Taflan sýnir nýskráningar fólks- og sendibíla BL í janúar 2021.

Af einstökum merkjum BL var Land Rover hins vegar hástökkvari mánaðarins með 80% fleiri nýskráningar heldur en á sama tíma fyrir ári.

Þar ráða úrslitum góðar viðtökur kaupenda á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði við nýjum Defender og komst bíllinn m.a. á topp tíu lista mánaðarins yfir söluhæstu gerðirnar á markaðnum í janúar.

Leaf og Defender á fyrirtækjamarkaði

Að liðnum fyrsta mánuði ársins er BL sem stendur helsta bílaumboðið á samanlögðum einstaklings- og fyrirtækjamarkaði, með 22,6% hlutdeild, en einnig á markaði bílaleiga þar sem hlutdeildin var 32,4% í janúar.

Á hinn bóginn voru óvenjufáir bílar nýskráðir bílaleigunum, eða einungis 34 samanborið við 197 í janúar 2020, sem gerir tæplega 83% samdrátt milli ára.

Af einstökum tegundum var Hyundai i20 með flestar nýskráningar inn á bílaleigumarkaðinn. Á fyrirtækjamarkaði fólksbíla einum og sér var hlutdeild BL 26,8% og þar komust bæði Nissan Leaf og Defender á topp tíu lista mánaðarins.

Sendibílar

Í janúar voru 57 litlir og meðalstórir sendibílar nýskráðir til einyrkja og fyrirtækja og voru 23 frá BL eða 26,7%, aðallega Renault og Nissan. Í flokki meðalstórra sendibíla á markaðnum var Renault Trafic söluhæstur. Nýskráningar lítilla og meðalstórra sendibíla voru tæpum 16% færri í nýliðnum mánuði en á sama tíma 2020.

(fréttatilkynning)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is