Græðir þú á því að kaupa gráan bíl?

Nei, þessi grein fjallar ekki um innflutning bifreiða sem eru gráar á litinn. En sumar af bifreiðunum geta þó sjálfsagt verið gráar.

Greinin fjallar um fyrirbæri sem kallast á ensku Grey Import Vehicles eða Paralell Import.

image

En þetta eru bílar sem eru fluttir á milli landa án aðkomu bílaframleiðandans eða aðila sem eru viðurkenndir af framleiðandanum og á bæði við um nýja eða notaða bíla. Bílar sem hafa lent í tjóni og hafa verið fluttir á þann máta á milli landa geta líka fallið undir þessa skilgreiningu. Þetta er löglegur innflutningur í flestum tilfellum.

image

Þetta eru bílar með Evrópuviðurkenningum og uppfylla allar kröfur Evrópusambandsins.

En hvað með bíla sem eru fluttir á milli markaðssvæða? Þá fara málin að flækjast. Bílar sem eru framleiddir í Ameríku uppfylla aðrar reglugerðir og staðla en bílar sem eru framleiddir í Evrópu. Kostnaðurinn er mismunandi eftir því hvar bílarnir eru framleiddir en sem dæmi þá var ákveðin gerð af amerískum bílum framleidd bæði í Ameríku og Evrópu. Evrópski bíllinn var dýrari en líka í hærri gæðaflokki. En venjulegir bílakaupendur átta sig ekki á þessu enda ekki í neinni aðstöðu til þess.

Í nokkrum tilfellum hefur undirritaður séð í amerískum ábyrgðarbókum klausu sem segir að bíllinn fellur úr ábyrgð ef hann er fluttur út frá því markaðssvæði sem hann var smíðaður fyrir.

image

En ef bíllinn var fluttur inn keyptur beint af framleiðandanum af viðurkenndum aðila þá tók hann nú samt ábyrgð á bílnum!

Svokallaðir búslóðarbílar frá Ameríku eru grár innflutningur, þeir fást (yfirleitt) skráningarskoðaðir en það er skráning á stöku ökutæki sem mætir í skoðun og ef sköffuð eru umbeðin gögn fæst bíllinn skráður á götuna. Gerðarviðurkenning fæst ekki fyrir slíka bíla en það er skráning sem gildir fyrir eina gerð af ökutæki sem uppfyllir Evrópska staðla.

Þegar viðurkenningin er í höfn þá er hægt að selja alla bíla sömu gerðar með því að senda inn svokallaða forskráningu en bara eitt eintak var skoðað í upphafi (þetta var þannig en gæti hafa breyst) og eitt sett af gögnum var afhent viðkomandi yfirvöldum.

image

Þeir sem eru líklega mest á móti gráum innflutningi eru viðurkenndir innflutningsaðilar bifreiða. Bílarnir sem umboðin fá koma yfirleitt frá Evrópu eða eru framleiddir fyrir Evrópumarkað en þeir eru mun dýrari en hliðstæðir bílar framleiddir fyrir Ameríska markaðinn.

Það eru mismunandi reglur í löndum heimsins varðandi gráan innflutning, allt frá því að það eru nánast engar hindranir yfir í það að innflutningurinn er nánast alveg bannaður.

Það eru kostir og gallar við að kaupa bíl sem hefur verið fluttur inn grátt. Helsti kosturinn er að bíllinn er líklega ódýrari en hliðstæður nýr eða notaður af sömu gerð sem var fluttur inn af umboði. Helsti ókosturinn er að þú þekkir líklega ekki innflytjandann og veist í rauninni ekki mikið um hvort bíllinn kemur úr einhverju tjóni, var seldur á uppboði eða tryggingafélag átti hann. Þú gætir verið að kaupa gullmola eða köttinn í sekknum. Þetta getur verið svolítið happdrætti.

Ef bíllinn er eina eintakið af gerðinni á Íslandi er nánast öruggt að það eru ekki til neinir varahlutir í hann. Það er eitt af því sem þarf að hafa í huga.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is