Teikningar af Volkswagen ID.Aero opinberaðar

Alrafmagnaður Volkswagen ID. Aero fólksbíll mun nota undirstöður VW ID.4

Volkswagen hefur opinberað fyrstu skissurnar af nýjasta ID-bílnum, fólksbílnum  ID. Aero, sem er nýr keppinautur Tesla Model 3. Við höfum áður sagt hér frá prófun á rafknúnum gerðum, en þessar nýju myndir staðfesta nokkrar helstu hönnunarupplýsingar á bílnum sem mun birtast á næsta ári.

Hann var fyrst sýndur sem hugmyndabíll, og þá kallaður ID. Vizzion, á bílasýningunni í Genf 2018. En nýi bíllinn er nú nefndur ID. Aero. Hann verður kominn á kínverska markaðinn á seinni hluta ársins 2023, fylgt eftir á Norður-Ameríku og Evrópumarkaði.

image

Eins og búast mátti við mun framendinn á ID. Aero verða svipaður og á öðrum ID.-bílum VW. Hann er með er lágt „nef“ til að hjálpa til við loftaflfræðilega skilvirkni sem skiptir sköpum til að auka drægni rafbílsins, á meðan framljósaskipan ásamt ljósastikunni sem VW merkið skiptir upp minnir á ID.Buzz og ID.4.

Lokað grillið ætti að lækka viðnámsstuðulinn enn frekar auk þess sem það eru nokkur stór hliðarloftinntök, þó gera megi ráð fyrir að þau minnki þegar bíllinn fer í framleiðslu.

image

Bogamyndað þakið er svipað löguninni sem sést á hugmyndabílnum, með nýrri krómrönd sem liggur frá A-bitanum að D-bitanum og undirstrikar lögunina. Auk þess sameinast framendi og afturendi með axlarlínu, nokkuð sem er orðið vörumerki hönnunar rafmagnsbíla þýska fyrirtækisins. Að aftan er ljósastika í fullri breidd með nokkrum flóknum LED klösum. Lítil vindskeið líkir einnig eftir því sem sést á frumgerð ID. Aero.

Volkswagen hefur áður lofað því að framleiðslubíllinn gæti farið 600 km á einni hleðslu, en með því að nota uppfært form af MEB undirvagninum gæti Aero farið yfir þetta.

Fyrr á þessu ári opinberaði Volkswagen „aukaviðbætur“ fyrir MEB undirvagninn, sem gætu birst í fyrsta skipti á Aero. Nýja rafhlaðan og mótorkerfið mun geta skilað um 700 km drægni á hleðslu, en hámarksendurhleðsla á MEB verður hækkuð úr 150kW í 200kW, þannig að 10-80 prósent áfylling ætti að taka minna en hálftíma. Miðað við tiltölulega langt hjólhaf Aero ætti VW að geta tekið við stærstu 77kWh rafhlöðunni án vandræða.

Afköst ættu líka að aukast, með möguleika á sprækri fjórhjóladrifinni GTX útgáfu sem fer frá 0 til 100 km/klst á 5,5 sekúndum. Núverandi ID.4 GTX og ID.5 GTX skila 295 hö og 310 Nm togi, og þetta er sú uppsetning sem líklegast er til að birtast í GTX afbrigði af ID. Aero.

Að lokum mun Volkswagen einnig setja á markað stationgerð af ID. Aero, sem var forsýnd með ID. Space Vizzion hugmyndabílnum á bílasýningunni í Los Angeles 2019. Þessi bíll var búinn tveggja mótora rafdrifi, sem skilar 335 hestöflum, sem myndi passa vel við væntanlega sportlega GTX gerð.

(fréttir á vef Carscoops og Auto Express – myndir VW)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is