Porsche sem flestir hafa efni á

Það er kannski ekki fallegt að hefja umfjöllun með svo vafasari fullyrðingu: Að til sé Porsche sem flestir ættu að hafa ráð á að kaupa. Flækjum ekki málið um of. Hér er nefnilega um að ræða Porsche 911 frá Lego og hægt er að byggja bílinn hvort heldur sem Targa eða Turbo.

Nei, þetta kom nú eitthvað vitlaust út. Segjum frekar: Þau okkar sem hætta ekki að leika sér þótt fullorðin séum.

image
image

Fyrirmyndin er byggð á 911 frá lokum áttunda áratugarins/byrjun þess níunda, eins og hönnuðurinn Mike Psiaki hjá Lego greinir frá í myndbandinu hér að neðan.

Ástæða þess, að mati undirritaðrar, að börn eiga auðvelt með að setja saman heilu IKEA innréttingarnar er sú að þau eru búin að byggja helling úr Lego. Í alvöru! Fullorðið fólk getur hreinlega sturlast, já, gengið af göflunum við að setja saman hillur eða eitthvað sem virðist einfalt (tala af reynslu).

Þá kemur 8 ára Lego-vanur krakki og græjar þetta einn tveir og þrír.

image
image

Með öðrum orðum þá skal ekki draga gildi Lego í efa! Þessi fíni bíll sem kemur formlega á markað 1. mars (útvaldir Lego-meistarar geta keypt hann strax í gegnum vefsíðuna www.lego.com) er gerður úr 1458 kubbum og er svakalega nákvæm eftirlíking upprunalega bílsins.

image

Hægt er að hreyfa sæti, stýri (og framhjólin í samræmi við það), gírstöng, opna allt sem „þarf“ að opna. Boxer-vélin, loftkæld auðvitað, er á sínum stað aftur í og vindskeiðin í öllu sínu veldi eins og vera ber.

Eins og sönnum flóttabíl sæmir þá fylgja honum nokkrar númeraplötur.

image
image

Nú, í vafasamri fyrirsögn minni gaf ég í skyn að flestir ættu að geta eignast þennan Porsche. Þetta er auðvitað dýrt dót en kannski ekki dýrara en að fylla 80 lítra bensíntank eða bjóða nágrönnunum í bíó (nema maður búi í stórri blokk).

image

Verðið er um $150 á vefsíðu Legó en þar sem bíllinn góði er ekki kominn í almenna sölu er ekki hægt að spá fyrir um verð hér á landi. Vonandi endar það ekki í einhverri stjarnfræðilegri tölu því þennan Porsche vil ég gjarnan eignast og byrja þegar í stað að safna í sparigrísinn.

Það er nefnilega mun skemmtilegra að setja saman fínan bíl heldur en innréttingar, hillur, borð eða stóla!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is