Listmálarinn góði, Jóhannes Kjarval, var einn þeirra sem kunni því vel að vera farþegi. Hann ferðaðist helst ekki öðruvísi milli staða en á tveimur jafnfljótum eða með leigubíl. Þegar leigubíll varð fyrir valinu þá var það bíll frá BSR. Ekki vildi hann skipta við aðrar stöðvar, þótt hann þyrfti stundum að bíða lengi eftir bíl. Meistara Kjarval var ekki sama hver ók leigubílnum og voru tveir bílstjórar hjá BSR í sérstöku uppáhaldi hjá listamanninum.

Erfiður farþegi en skemmtilegur

Fólki fyrirgefst nú eitt og annað státi það af því trompi uppi í erminni að vera skemmtilegt. Já, sérvisku, rassaköst og ósköpin öll má fyrirgefa, sé sá er fyrir stendur skemmtilegur. Þannig virðist Jóhannes Kjarval hafa verið. Í það minnsta sem farþegi í leigubíl.

image

Bílstjóri þessarar White-vörubifreiðar er Magnús Ólafsson. Myndin er tekin um 1920 og minnir á þá miklu breytingu sem varð þegar bíllinn leysti hestvagninn af hólmi. Magnús fæddist árið 1888 og fékk ökuskírteini 1918.

Bílprófið fékk hann árið 1918 og ók Magnús leigubíl hjá BSR í þrjátíu ár.  Rétt eins og svo margir leigubílstjórar, fyrr og nú, hafði hann gaman af margbreytileikanum í hinu ólgandi mannhafi. Hann kynntist mörgum farþegum og sumir voru eftirminnilegri en aðrir.

Einn af þeim sem Magnúsi var ofarlega í huga, þegar hann leit árið 1980, yfir farinn veg, var einmitt Jóhannes Kjarval.

Á nærfötum í bankanum

Einhverju sinni í spænskukennslu í pynting… Afsakið öll! Í Menntaskólanum í Reykjavík, átti að standa þarna, að sjálfsögðu. Æj, ég byrja aftur:

Jæja, hvort sagan var sönn eður ei þá festist hún í minni og skaut upp kollinum þegar ég las um þá Magnús og Kjarval. Magnús sagði nefnilega frá undarlegu uppátæki hins íslenska listamanns:

„Hann átti það til að fara á nærfötunum út í banka og allir héldu að hann væri vitlaus, en það var hann alls ekki. Hann var bara svolítið sér,“ sagði  Magnús. „Kjarval var svolítið skrýtinn, en skemmtilegur þó hann væri stundum erfiður, því allt varð að vera eins og hann vildi sjálfur.“

image

Jóhannes Kjarval (1885-1972) listmálari um þrítugt.

Þorskhausum skolað niður með mjólk

Já, en ekki hvað? Og starf bílstjórans virðist hafa náð nokkuð út fyrir bílinn þegar Kjarval var annars vegar. Alla leið inn til listamannsins:

Það fór sannarlega vel á með þeim félögum og lét Kjarval þakklæti sitt í ljós með ýmsu móti:

„Kjarval var mikill vinur minn,“ sagði Magnús við blaðamann Morgunblaðsins á sínum tíma, í fyrrnefndu viðtali. „[...] sjáðu bara allar þessar myndir, segir Magnús og bendir á stórar myndir og smáar á veggjum, teikningar og olíumálverk og heillaskeyti í stíl Kjarvals.“

image

Nokkrir af penslum Jóhannesar Kjarvals.

Ókulvís með líkamshita bjarnarins

Eðli máls samkvæmt gekk Kjarval ekki með tólin til listsköpunar landshluta á milli þó hann kynni því vel að ferðast fótgangandi. Þá var gott að fá Magnús til að aka listamanninum og oftar en ekki var ferðinni heitið á Þingvelli. Þar beið Magnús meðan Kjarval málaði:

Eftir 4 tíma fór ég að hafa áhyggjur af kalli og bauð honum að koma inn í bílinn og fá sér kaffi.

Hann sagðist skyldu þiggja kaffið, en aðeins mín vegna og alls ekki vegna þess að honum væri sjálfum kalt eða kaffivant. Hann kom inn í bílinn, en hafði ekki setið þar í margar mínútur, er hann sagðist ekki geta þetta.

Hann æddi út úr bílnum, út í snjóinn, og jós mjöllinni síðan yfir sig.

Það var ekki kuldinn í honum og svona var margt í honum,“ sagði bílstjórinn Magnús Ólafsson árið 1980.

Þambaði lýsið

Annar bílstjóri hjá BSR, Guðmundur Magnússon, átti sömuleiðis ágætar minningar um þennan áhugaverða fastakúnna, Jóhannes Kjarval. Hann rifjaði eina sögu upp í viðtali sem birtist í Vísi haustið 1977.

image

[Mynd úr safni og tengist greininni ekki með beinum hætti.]

„Hann [Kjarval] átti það til að koma og láta keyra sig eitthvert út í buskann og láta bílinn bíða eftir sér kannski heilan dag á meðan hann málaði. Einu sinni fór ég með hann í slíka reisu, daglanga, upp á Kjalarnes.

Þegar dimmdi snerum við í bæinn aftur og þá var Kjarval hvorki búinn að bragða vott né þurrt allan daginn.

Þegar hann kom heim til sín dembdi hann í sig heilli lýsisflösku og fór síðan beint út á Hressó og fékk sér að borða,“ sagði Guðmundur Magnússon árið 1977 um þennan sérstaka farþega, Jóhannes Kjarval.

Hafðir þú gaman af þessari grein? Þá gætir þú haft áhuga á:
Ekið á gargönum eftir ropvatni - Laxness og bílar

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is