Þegar spindilboltinn brotnaði!

    • Þegar það var stundum raun að eiga gamlan bíl….

Ég var að skrifa um gamla tímann á dögunum, og þá rifjaðist upp sá tími þegar ég eignaðist fyrsta bílinn minn, sem þá var 22ja ára gamall! Sem sagt fimm árum eldri en ég sjálfur!

image

Ég á ekki mynd af þessum fyrsta bíl sem ég eignaðist en hér er mynd af bíl sömu gerðar; Morris 8 árgerð 1939. En minn bíll hafði tekið smá „breytingum“.

Flottu „innfelldu“ framljósin, sem voru ekki ósvipuð og á VW bjöllunni, voru horfin og í staðinn voru komin framljós af Austin 8, sem þá voru fest sitt hvoru megin á vélarhúsið.

Vélin í bílnum var einnig úr Austin 8. Menn kunnu að bjarga sér á þessum árum!

Hann var staðráðinn að fá sér betri bíl þegar „próflausa“ árið væri yfirstaðið, en var með „gott“ þriggja stafa bílnúmer á bílnum, og hann bauðst til að selja mér bílinn fyrir lítinn pening – að því tilskildu að ég myndi vera með númerið á bílnum þetta ár, en hann myndi síðan fá það á nýja bílinn og ég myndi fá mér annað númer.

image

Morris 8 árgerð 1939.

Spindilboltinn brotnaði á Keflavíkurveginum

Ég átti þennan ágæta Morris í nokkur ár og hann þjónaði mér ágætlega. Á því tímabili var ég að vinna sem kokkur á Flugvallarhótelinu á Keflavíkurflugvelli, og vann á hálfs mánaðar vöktum.

Á vaktatímabilinu bjó ég á Vellinum, en fór stundum heim í vaktafríum.

Gamli Keflavíkurvegurinn sem þá lá með Vatnsleysuströndinni og síðan yfir Vogastapann til Keflavíkur var á þessum tíma malarvegur og stundum var ástand hans ekki gott; lítill ofaníburður og stórar klappir í vegyfirborðinu.

Spindilboltinn brotnaði úr auganu á framöxlinum vinstra megin og hjólið datt af!

Næsta verk var að fá kranabíl frá Vöku til að draga bílinn með framendann á lofti heim á hlað í Setbergshverfið ofan Hafnarfjarðar, og koma mér svo aftur suðureftir í vinnuna.

image

Skýringarmynd af „spindilbolta“. Spindillinn sjálfur er með „klafa“ sem er með gati að ofan og neðan fyrir spindilfóðringu, en spindilboltinn er síðan rekinn í gegn um fóðringarnar og gatið á endanum á frambitanum, og þannig er hægt að snúa framhjólunum.

Gott að eiga góða að

Það var ekki hlaupið að því að finna varahlut í 22ja ára bíl þá frekar en í dag, og þá var ég svo heppinn að einn af félögum mínum í Hjálparsveit Skáta í Hafnarfirði, Snorri Magnússon, var að læra rennismíði hjá Agli Vilhjálmssyni.

Tveimur dögum síðar var búið að raða þessu saman á hlaðinu heima og Morris farinn út að aka.

En það var ekið ákaflega „varlega“ um erfiðu vegarkaflana á Keflavíkurveginum í næstu ferðum.

image

Hér má sjá hvernig þetta virkaði í raun og veru undir mínum gamla og góða Morris á sínum tíma.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is