Rafbíll eftir mikið stuð er ekki spennandi...

...nema síður sé því að ef rafbíll lendir í þannig árekstri að loftpúði (líknarbelgur) springur þá tekur framleiðandi bifreiðarinnar ekki lengur ábyrgð á henni. Nema kannski ef það er skipt um rafgeyminn eftir áreksturinn en það virðast vera skilyrðislaus fyrirmæli um það frá bílaframleiðendum.

image

Við erum hér að tala um háspennurafhlöðuna en ekki 12V hefðbundinn rafgeymi. En kannski er þetta ekki eins slæmt og það lítur út fyrir að vera ef hlutirnir eru skoðaðir nánar.

Fyrir u.þ.b. viku síðan þá sagði einn eigandi rafbíls reynslusögu sína á Facebook síðunni Nissan Leaf á Íslandi  en hann hafði keypt einn slíkann sem hafði lent í, sem mætti halda, litlu tjóni sem hafði verið gert við.

Hvet ég alla til að lesa þessa umræðu því hún er málefnaleg og það kemur margt gagnlegt fram í henni.

Nissan Leaf var söluhæsti rafbíllinn í heiminum í desember 2019 en Tesla 3 tók við því hlutverki snemma árið 2020. Eigendur Leaf rafbíla virðast hafa góða reynslu af þeim og virðast almennt ánægðir með sína bíla. En eru rafbílarnir bara ónýtir þegar rafhlaðan fer að rýrna?

Nei, þó rafhlaðan rýrni þá þarf ekki að skipta um alla rafhlöðuna því hún er samsett úr sellum en það er hægt að skipta um sellur í sumum rafbílum á auðveldann máta. Þetta má sjá í eftirfarandi myndbandi.

Þetta er mjög einföld aðgerð, örugg ef þú veist hvað þú ert að gera og mikið fljótlegri en sumt sem tilheyrir reglulegu viðhaldi bifreiða með brunamótor. Þarna er líka komið svarið við því hvort rafbílar hafi stuttan líftíma.

image

Tesla Model S sem orðið hefur fyrir tjóni. Mynd: www.teslarati.com

Ef þetta er hægt af hverju segja þá bílaframleiðendur að það verði að skipta um alla háspennurafhlöðuna ef loftpúðar springa í bílnum? Það er líklega vegna óvissu um ástandið á rafhlöðunni því ef þú ætlar að taka ábyrgð á einhverjum hlut þá vilt þú vera alveg viss um að hann sé í lagi.

Ábyrgð er tekin á framleiðslunni en ekki tjónum eða afleiðingum þeirra. Eina leiðin til að vera viss er að skipta um rafhlöðuna.

Tryggingafélögin leysa til sín bíla sem hafa orðið fyrir tjóni oftast þegar viðgerð kostar meira en söluandvirði bílsins er. Bílarnir eru undantekningarlítið settir á tjónauppboð þar sem þeir eru seldir hæstbjóðanda. Sá sem kaupir tjónabíl er yfirleitt að því til að gera hann upp og selja aftur með gróða.

Einu undantekningarnar ættu að vera fornbílar eða mjög sjaldgæfir bílar sem yrðu þá notaðir nær eingöngu í sýningum en væru yfirleitt ekki í umferð. Nema einhver óháður aðili gerði undantekningarlaust úttekt á viðgerð tjónabílsins. Þegar rafbílar eru annars vegar gæti verið eldhætta af löskuðum rafhlöðum.

Tryggja tryggingafélögin viðgerða tjónabíla og ef svo er, er þá ekki undaþága í tryggingaskilmálunum sem segir að þau taki ekki ábyrgð á bifreiðinni ef hún brennur?

Allar upplýsingar þurfa að liggja fyrir um tjón á rafbíl, hvað var gert við hann og hvað kostar að klára viðgerðina ef eitthvað er eftir. Sama og gildir um alla notaða bíla. Best væri samt að tryggingafélögin sæju um að tjónabílarnir væru í tryggingarhæfu ástandi ef þeir fara aftur á götuna en ef það er ekki hægt þá verði þeim fargað.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is