Ford F-150 Lightning og Rivian R1T eru rafknúnir pallbílar sem virðast ætla að slá ýmis met í Bandaríkjunum. Viðtökurnar hafa verið einstaklega góðar og nú skjóta fleiri hugmyndir upp kollinum: Fleiri rafknúnir pallbílar eiga eftir að bætast við. Og það fyrr en síðar.

Verður ATLIS XT að veruleika?

Við höfum aðeins rýnt í tilurð hins nýskapaða Rivian R1T sem og þá staðreynd að fyrirtæki á borð við Amazon og Ford hafa keypt hlut í fyrirtækinu Rivian Automotive.

Nú beinist athygli blaðamanns að öðru fyrirtæki sem ætlar sér stóra hluti á rafbílamarkaði:

Fyrirtækið sem nefnist Atlis Motor Vehicles hefur í hyggju að framleiða bílinn ATLIS XT. Rafpallbíl altsvo. Mark Hanchett er stofnandi og forstjóri fyrirtækisins og hann hefur talað um „ofurhleðslu“ (Megacharging) stórra rafbíla og risatrukka sem framtíðarlausn hvað rafvæðingu og orkuskipti varðar (já, ég gæti orðað þetta betur en svona er þetta stundum).

Hanchett var gestur í hlaðvarpsþættinum ​​Absurd Curiosity fyrir tæpu ári síðan og geta áhugasamir hlustað á þáttinn hér og vonandi orðið margs vísari um ofur-rafhlöður og ofurhleðslu. The Truck Show hlaðvarpið hefur líka rætt þessi mál fram og aftur við Hanchett og hér eru tveir þættir.

Fullhlaðinn á 15 mínútum

Með tilkomu nýrrar raflöðu (AMV heitir hún, í höfuðið á fyrirtækinu) og tækni, (sem ég voga mér ekki að reyna að útskýra því myndböndin sjá um þann hluta málsins), ætti ekki að taka nema 15 mínútur að hlaða bílinn.

800 kílómetra drægni

Þetta er virkilega „spennandi“ í alla staði og vel getur verið að allt gangi upp hjá Mark Hanchett og frumkvöðlunum sem saman mynda Atlis Motor Vehicles. Myndi bíllinn með öflugustu rafhlöðunni hafa allt að 800 kílómetra drægni.

45.000 dollarar er grunnverðið sem gefið er upp á vefsíðu fyrirtækisins. Það eru tæpar 6 milljónir ISK.

Ætti að geta dregið heilu hlössin

Þetta er farið að hljóma mjög undarlega allt saman en það er best að bíða og sjá hvort Mark Hanchett standi við stóru orðin. Hann segir nefnilega að pallbíllinn ATLIS XT muni búa yfir dráttargetu sem manni finnst einum of mörg núll hljóta að vera í. 35.000 lbs… Já, ég er af málabraut og fer ekki nánar út í þetta. Myndbandið má endilega rúlla:

Nú, þegar þetta er skrifað, hafa um 3.600 manns fjárfest í Atlis fyrir samtals 4.500.000 dollara. Lágmarksupphæð fjárfestingar er 255 dollarar eða um 34.000 ISK.

Já, hver veit nema þetta eigi eftir að verða eitthvað? Við munum að sjálfsögðu fylgjast með!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is